Spilum saman - stefnuræða formanns

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar sem var kjörinn með öllum greiddum atkvæðum á landsfundi flokksins í gær lokaði rétt í þessu fundi með stefnuræðu sem var jafn beitt og hún var ljóðræn.

Mikil samstaða og ánægja einkenndi fundinn, öflugt málefnastarf átti sér stað sem skilaði sér í heildstæðum málefnapakka undir yfirskriftinni „Eitt samfélag fyrir alla.”

Logi gerði stefnu Samfylkingarinnar vel skil í stefnuræðu sinni en lagði hann t.a.m áherslu á breytingar á skattkerfinu, alþjóðlegt samstarf og menntun:

„Í fyrsta lagi þarf að skoða róttækar breytingar á skattkerfinu, til að hindra að ágóðinn aukinni verðmætasköpun samhliða örri tækniþróuninni verði ekki allur eftir hjá fyrirtækjunum og eigendum þeirra. Slíkt mundi leiða til þess að stjórnvöld réðu ekki við að halda upp öflugu velferðarkerfi og bilið milli þeirra efnameiri og snauðu, næði áður óþekktum hæðum. Íslendingar verða að sjálfsögðu að vinna sína heimavinnu en útilokað er að mæta þessari áskorun nema í víðtæku alþjóðlegu samstarfi,” sagði Logi, „Í öðru lagi verðum við að fjárfesta miklu meira í menntun. Skólastarf þarf að taka mið af þessari nálægu framtíð. Menntun verður hluti af tilveru okkar, með einum eða öðrum hætti alla ævi og við verðum að leggja enn meiri áherslu á tæknigreinar, skapandi skapandi hugsun; líka menningu og listir.”

Hann lagði enn fremur áherslu á samstarf félagshyggjuflokkanna og það val sem almenningur stendur frammi fyrir eftir 2-3 ár.

„Við getum valið um svart – hvíta veröld sem nærist á sundur lyndi, tortryggni og hræðslu við það framandi; heim sem byggir á flokkun og aðgreiningu, öflugum landamærum, þar sem hver er sjálfum sér nógur, eða auknum samskiptum og samvinnu, þar sem fólk freistar þess að taka ábyrgð hvert á öðru. Alþjóðasinnar og félagshyggjufólk verður að átta sig á þessu og leita allra mögulegra leiða til að vinna saman. Þannig tökumst við best á við flókna og breytta framtíð og tryggjum almenningi betri lífskjör. Okkur greinir vissulega á um fullt af hlutum en um stór mál getum við sameinast. Ég nefni aukin jöfnuð, sterkt opinbert mennta- og heilbrigðiskerfi, réttlátt afgjald af auðlindum og nýja stjórnarskrá,” sagði Logi.

Jóhanna Sigurðardóttir ávarpaði auk þess fundinn á lokaathöfn landsfundarins og lét þessi orð falla; „Það sem veldur vonbrigðum er að stjórnvöld virðast ekkert hafa lært af hruninu – farið frekar skref afturábak en áfram.  Verulegir siðferðisbrestir og leyndarhyggja virðist á litlu undanhaldi og græðgin hefur ekkert hopað fyrir réttlátara samfélagi. Siðrof milli þings og þjóðar er algjört. Og þar höfum við verk að vinna.”

Ræða Loga í heild sinni