Stöðvum ofbeldið í Sýrlandi

Samfylkingin fordæmir aðgerðir Tyrkja gegn kúrdískum borgurum í Afrín í Norður Sýrlandi.

Í síðustu viku voru liðin sjö ár síðan stríðið í Sýrlandi hófst án þess að friður sé í augsýn, en um hálf milljón manns hafa látist í átökunum.

Þann 20. janúar hófu tyrkneskar hersveitir árásir gegn Kúrdum og tóku nú í síðustu viku yfir borgina Afrín í norðurhluta Sýrlands. Árásir NATO-ríkisins Tyrklands hafa neytt þúsundir á flótta og hundruð manna hafa látist.

Samfylkingin fordæmir innrás Tyrkja í Afrín og þá glæpi sem þeir hafa framið gegn kúrdísku þjóðinni. Samfylkingin lýsir enn fremur yfir vonbrigðum með getuleysi alþjóðasamfélagsins til þess að vinna saman, fordæma aðgerðir Tyrkja og grípa til aðgerða til að koma á varanlegum friði á svæðinu.

Samfylkingin skorar á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að taka opinbera afstöðu gegn innrásinni á alþjóðavettvangi, sér í lagi innan NATO, og þrýsta á bandalagsþjóðir að gera slíkt hið sama. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að halda uppi harðri gagnrýni vegna ofsókna og mannréttindabrota gegn Kúrdum og taka jafnframt til eindreginna varna fyrir þá á alþjóðavettvangi.

Samfylkingin minnir auk þess á að Íslandi ber, líkt og öðrum ríkjum í Evrópu, að axla ábyrgð og taka við umsækjendum um alþjóðlega vernd.

 

Mynd: Fólk á flótta frá Afrin 15. mars 2018. REUTERS/Khalil Ashawi