Oddný í eldhúsdagsumræðum Alþingis
Eldhúsdagsumræður Alþingis fóru fram 4. júní en Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar tók fyrst til máls.
Herra forseti góðir landsmenn
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur starfað í sex mánuði. Ríkisstjórnin fékk mikinn stuðning í fyrstu enda átti hún að hafa breiða skírskotun og sætta sjónarmið frá vinstri til hægri. Flokkarnir höfðu lofað miklu fyrir kosningar og almenningur batt vonir við að efndirnar létu ekki á sér standa.
Nú sex mánuðum síðar hefur stuðningurinn minnkað umtalsvert og skýr mynd teiknast upp af ríkisstjórninni. Skýr mynd af bandalagi um sérhagsmuni.
Glöggt dæmi um sérhagsmunagæslu er sá stuðningur og sú skjaldborg sem slegin var um embættisfærslur dómsmálaráðherra við geðþóttaákvörðun um skipan dómara í Landsrétt, sem hún hafði þó verðið dæmd fyrir af hæstarétti og síðan áformin um lækkun þeirra gjalda sem útgerðin greiðir fyrir heimildina til að nýta auðlind þjóðarinnar.
Forsætisráðherra sagði fyrir kosningar að stjórnmálamenn þyrftu að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og gagnrýndi þáverandi ríkisstjórn harkalega fyrir að láta öryrkja og aldraðra bíða eftir mannsæmandi kjörum og fyrir dekur við auðmenn.
Eftir kosningar segir hún hins vegar umræður um aukinn jöfnuð og traust vera áhugaverðar og bregst hratt og örugglega við kalli útgerðarmanna um lægri veiðigjöld á meðan aðrir þurfa að bíða.
Þetta er sláandi því Sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa hagnast um 300 milljarða króna á síðustu 8 árum. Fyrirtækin hafa greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað mikið.
Ríkisstjórnin ætlar að rétta úrgerðinni tæpa 3 milljarða og stórútgerðinni bróðurpartinn af því fé, stórútgerðinni sem sannarlega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldraðir sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar.
Ríkisstjórnin er ekki eins snögg að hlaupa undir bagga með þeim sem minnst hafa handa á milli og býður upp á áframhaldandi hokur og skammarleg kjör á meðan ójöfnuður er í hröðum vexti.
Ójöfnuður, hvort sem litið er til tekna eða eigna er að aukast hér á landi. Það er óheillaþróun sem ýtir undir ósætti í samfélaginu.
Ríkustu 10% þjóðarinnar tóku til sín nær helming þeirrar hreinu eignar sem varð til á árinu 2016 svo dæmi sé tekið og þeir allra ríkustu stærsta hlutann.
Ef stjórnvöld vildu í alvöru jafna leikinn, ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vildi draga úr ójöfnuði, þyrfti hún að beita bæði skatta- og bótakerfinu í þá veru. Fleiri skattþrep, hærri persónuafsláttur, þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur og stóreignaskattur á umtalsverðar eignir, slá á ójöfnuð. Aukið vægi barnabóta og húsnæðisbóta eru önnur mikilvæg jöfnunartæki sem stjórnvöld geta beitt.
En vill ríkisstjórnin jafna leikinn?
Svarið við þeirri spurningu er að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Og svarið er nei. Það á ekki að jafna leikinn á þessu kjörtímabili.
Barnabætur verða alltof lágar og húsnæðisstuðningur afar veikburða. Húsnæðisvandinn stendur óleystur og bætur almannatrygginga verða áfram rýrar.
Í eldhúsdagsumræðum fyrir ári síðan fjallaði núverandi forsætisráðherra einmitt um það sem gera þyrfti til að auka jöfnuð. Þá sagði hún orðrétt: „Við þurfum að endurskipuleggja skattkerfið frá grunni. Hin raunverulega misskipting birtist í því hvernig auðæfin dreifast. Á Íslandi eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs. Kannski vill einhver hafa það þannig. Kannski vill ríkisstjórnin hafa það þannig. Ef við viljum það ekki þarf að endurskoða hvernig við skattleggjum fjármagnstekjur, skattleggja auð yfir ákveðnum mörkum og Ísland þyrfti að vera fremst í flokki í alþjóðlegu samstarfi ríkja um slíka skattlagningu. Að sjálfsögðu þarf að tryggja að arðurinn af auðlindum þessa lands renni af sanngirni til þjóðarinnar.“ Þetta voru hennar eigin orð 29. maí 2017.
Og ég var þá – svo innilega sammála Katrínu Jakobsdóttur og þess vegna hryggir mig áhrifaleysi hennar sem forsætisráðherra sem engu kemur í gegn um ríkisstjórn sína í þessum efnum nema málamyndabreytingum á fjármagnstekjuskatti með litlum ávinningi fyrir ríkissjóð sem verður svo að engu strax á næsta ári.
En þrátt fyrir þær skattkerfisbreytingar sem stendur skýrum stöfum í fjármálaáætluninni að standi til, sem gefa þeim ríkustu þrisvar sinnum meira en þeim sem minnst hafa, vitum við ekki með vissu hvað ríkisstjórnin ætlar að gera, því ráðherrar tala út og suður. Fjármálaráðherrann, vill alls ekki bótavæða samfélagið, eins og hann kallar þá norrænu velferð sem flestir landsmenn vilja sjá. Hann heldur sig við fjármálaáætlunina og segir að hærri skattur á auðmenn komi ekki til greina. En forsætisráðherrann veltir vöngum og talar óljóst um eitthvað annað, án þess þó að slá á fingur fjármálaráðherrans.
Herra forseti góðir landsmenn
Stærsta sameiginlega verkefni mannskyns nú um stundir er að finna leiðir til að draga úr hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Það er sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í viðbrögðum við lofslagsvánni. Og ef við stöndum ekki við skuldbindingar okkar eins og útlit er fyrir, verður íslenska ríkið að kaupa losunarheimildir á alþjóðamarkaði. Það mun valda okkur fjárhagslegu tjóni en ekki síður ímyndartjóni. Við höfum stært okkur af orkuskiptum við húshitun og endurnýjanlegum orkugjöfum í okkar hreina fallega Íslandi. Sú ímynd er á hröðu undanhaldi.
Súrnun sjávar, hlýnun hafsins, hækkandi yfirborð sjávar, plastmengun í hafinu og rányrkja eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröftugum og skýrum hætti og þar ættum við að vera í fararbroddi.
„Að flytja inn bensín á Íslandi er eins og að flytja inn fisk“ var á dögunum haft eftir fyrrverandi loftlagsstjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðgerðir stjórnvalda verða að virka til að draga úr bensín og dísilnotkun hér á landi og við aðkallandi orkuskipti í samgöngum. Og aðkoma ríkisins að uppbyggingu borgarlínu og eflingu almenningssamgangna um allt land er nauðsynleg.
Við í Samfylkingunni köllum eftir meiri metnaði í aðgerðum stjórnvalda í loftlagsmálum.
Við köllum einnig eftir raunverulegum aðgerðum sem auka jöfnuð og bæta kjör þeirra sem minnst hafa.
Við köllum eftir sanngjarnara skattkerfi sem stendur undir velferðarsamfélagi sem er fyrir alla og að enginn verði skilinn eftir.
Við köllum eftir nýju stjórnarskránni með auðlindaákvæði sem ver þjóðina fyrir bandalagi um sérhagsmuni.
Góðar stundir