Kjaradeila ljósmæðra - bókun Samfylkingarinnar á fundi velferðarnefndar Alþingis

Á fundi velferðarnefndar 3. júlí 2018, lagði þingmaður Samfylkingarinnar, Guðjón S. Brjánsson, fram eftirfarandi bókun:

Síðastliðna 10 mánuði hafa ljósmæður barist fyrir því að fá laun sín leiðrétt en samningaviðræður Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins engu skilað. Með hverjum mánuðinum sem líður horfum við fram á fleiri uppsagnir og nú er að skapast það hættuástand á Landspítalanum sem að Samfylkingin, aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar og heilbrigðisstarfsmenn- og stofnanir hafa endurtekið varað við.

Samfylkingin beinir þeim skýlausum tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þegar í stað verði beitt öllum tiltækum ráðum til þess að leiða til lykta hina erfiðu deilu sem nú stendur yfir við ljósmæður, fámennrar en mikilvægrar heilbrigðisstéttar, hreinustu kvennastéttar á Íslandi. Skorað er á ráðherra að kjör ljósmæðra verði leiðrétt til samræmis við sérhæft fagfólk með sex ára háskólanám að baki.