Gerum líf fólks auðveldara og ódýrara-ræða Ágústs

Ræða Ágústs Ólafs Ágústssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 12. september 2018.  

 

Kæru Íslendingar Í þessari viku mun einn Íslendingur deyja vegna ofneyslu lyfja. Í þessari viku mun einn Íslendingur fremja sjálfsvíg. Í þessari viku búa 6000 íslensk börn við fátækt og í þessari viku búa um hundrað eldri borgarar á spítalanum því önnur úrræði eru ekki fyrir hendi.

Þetta er sorglegur vitnisburður um annars ágætt samfélag.

Þetta þarf ekki að vera svona.

Við erum einungis 350 þúsund á þessari eyju og við erum 11. ríkasta land í heimi.

Við þurfum ekki láta eldri borgara þessa lands og fjölskyldur þeirra búa við óvissu og bág kjör.

Við þurfum ekki refsa öryrkjum fyrir að vinna.

Við þurfum ekki að setja minni fjármuni í háskólana okkar en það sem nágrannaþjóðir okkar gera. V

ið þurfum ekki láta ljósmæður fara í kjaradeilu.

Við þurfum ekki að láta löggæslu og samgöngur drappast niður.

Við þurfum ekki að hafa samfélag þar sem ríkasta 1% landsmanna á meira en 80% þjóðarinnar.

Við þurfum ekki að hafa bæjarstjórann í Þorlákshöfn með hærri laun en borgarstjórinn í London.

Við þurfum ekki að lækka veiðileyfagjöld helmingi meira en það sem stendur til að hækka persónuafslátt fólks.

Og við þurfum ekki að vera eitt dýrasta land í heimi.

Kæru Íslendingar Þetta er ekki spennandi ríkisstjórn. Þetta er ríkisstjórn sérhagsmuna og stólakaupa. Engin prinsipp eru hjá ríkisstjórninni, hvort sem litið er til hvalveiða, kjaradeilu ljósmæðra, skipun dómara, utanríkisstefnu eða velferðarmála. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fá sjúkrahúsin og lögreglan minna en það sem þörf er á. Enn eru eldri borgarar og sjúklingar á biðlistum en þið hafið mörg hver kynnst því eða munu gera það í náinni framtíð, að þurfa að bíða eftir eðlilegum úrræðum fyrir ykkur sjálf eða aldraða foreldra ykkar og þá er sáralítil aðstoð við Alzheimersjúklinga í okkar ríka samfélagi. Enn eru meðferðarúrræði, jafnvel fyrir börnin okkar, af of skornum skammti, öryrkjum er ennþá refsað fyrir samfélagsþátttöku sína og þá er húsnæði ennþá allt of dýrt.

Kæru Íslendingar Komist Samfylkingin til valda lofum við því að breyta þessu samfélagi til batnaðar fyrir venjulegt fólk, en ekki bara suma, eins og þessi ríkisstjórn gerir.

Samfylkingin mun hlúa að eldri borgurum og að unga fólkinu.

Samfylkingin mun aldrei sætta sig við samfélag þar sem einn Íslendingur deyr á viku vegna ofneyslu lyfja.

Samfylkingin vill burt með verðtrygginguna og háa vexti en það gerist best með nýjum gjaldmiðli.

Samfylkingin vill nýja stjórnarskrá fólksins og berjast gegn alþjóðlegum fasisma og þröngsýni.

Samfylkingin vill setja hagsmuni neytenda, nýsköpunar og smáfyrirtækja í forgrunn en ekki hagsmuni Mjólkursamsölunnar og stórútgerðar.

Og þá vill Samfylkingin frjálst samfélag þar sem frelsi fjármagnsins hefur ekki forgang heldur frelsi frá fátækt.

Kæru Íslendingar Við höfum allt til alls á landinu okkar ef við viljum. Hættum að dekra við sérhagsmuni og sjálftökuliðið eins og þessi ríkisstjórn gerir. Hlúum að hinum venjulega Íslendingi og gerum líf hans og hennar auðveldara og ódýrara.

Til þess eru almennileg stjórnvöld. Þessi ríkisstjórn er það hins vegar ekki.