Njörður Sigurðsson-Jómfrúarræða

Njörður kemur inn á Alþingi í fjarveru Oddnýjar Harðardóttur sem sinnir hlutverki sínu í Norðurlandaráði í Nuuk þessa dagana. Við bjóðum Njörð hjartanlega velkominn og óskum honum góðs gengis. Í dag flutti hann Jómfrúarræðu og spurði í henni Mennta- og menningarmálaráðherra um RÚV.

Herra forseti

Síðastliðinn miðvikudag kynnti hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra á blaðamannafundi hugmyndir sínar um stuðning ríkisins við einkarekna fjölmiðla og þar með talið aðgerðir til að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði um 560 mkr. Hugmyndin virðist vera að með því að draga úr auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins skapist meira svigrúm fyrir einkarekna fjölmiðla til tekjuöflunar. Viðleitni hæstvirts ráðherra til að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla er góðra gjalda verð. Það er mikilvægt að til séu fréttamiðlar, sem vinni vandaðar fréttaskýringar, sinni rannsóknarblaðamennsku, séu vettvangur fyrir umræðu í samfélaginu og gæti þannig almannahagsmuna. Það er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi.

 

Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur ekki komið skýrt fram hvort og hvernig Ríkisútvarpinu verði bættar þær 560 mkr. sem tillögur hæstvirts ráðherra gera ráð fyrir að tekjur stofnunarinnar dragist saman um. Því vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra hvort að hann hafi í hyggju að bæta Ríkisútvarpinu þessar 560 mkr. Og ef svo er hvernig hann hyggst gera það? Verður það með hækkun útvarpsgjaldsins eða á annan hátt?

 

Í kynningu hæstvirts ráðherra kom jafnframt fram að hann hefði í hyggju að 400 mkr. færu í einkarekna fjölmiðla og þær greiðslur úr ríkissjóði ættu að hefjast strax á árinu 2019. Við skoðun á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er þó hvergi að finna neitt um þetta. Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra, þar sem ekkert er um þetta í fjárlögum sem ræður fjárveitingum ríkisins, hvaðan fjármagnið eigi að koma?