Heiða hlaut félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, tók við félagshyggjuverðlaunum Ungra jafnaðarmanna á landsþingi hreyfingarinnar nú um helgina. Hlaut Heiða Björg verðlaunin vegna óþreytandi baráttu hennar gegn kynbundnu ofbeldi og frumkvæði í tengslum við #MeToo-byltinguna.

Í tilkynningu frá Ungum jafnaðarmönnum segir meðal annars. „Heiða Björg hefur staðið í forsvari fyrir #MeToo-byltinguna hér á landi, en hún hafði frumkvæði að stofnun Facebook-hóps þar sem íslenskar stjórnmálakonur deildu sögur af kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Í kjölfarið komu í dagsljósið sögur fjölmargra hópa kvenna úr öllum stigum samfélagsins.“

Heiða hefur einnig lagt mikla áherslu á baráttu gegn kynbundnu ofbeldi í starfi sínu í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún átti frumkvæði að stofnun Ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur og varð formaður hennar árið 2015.

Í starfi sínu í borgarstjórn Reykjavíkur og í forystu fyrir #MeToo hefur Heiða Björg átt þátt í að setja kynbundið ofbeldi á dagskrá íslenskra stjórnmála. Þrotlaus barátta hennar hefur breytt íslenskri jafnréttisumræðu til frambúðar og eiga íslenskar konur og samfélagið allt henni mikið að þakka.

Nánar á síðu Ungra jafnaðarmanna.