Móttaka og meðferð kvartana vegna eineltis og áreitni
Við minnum á að Samfylkingin hefur mótað stefnu og verklag til að takast á við tilkynningar um einelti og hvers kyns áreitni eða ofbeldi. Auk þess hafa siðareglur flokksins verið uppfærðar. Ráðist var í þessa vinnu til að geta komið til móts við ákall samfélagsins um breytingar í kjölfar #metoo-byltingarinnar.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar kynnti varaformaður okkar, Heiða Björg Hilmisdóttir, nýtt verklag og er það afrakstur mikillar vinnu sem hefur farið fram frá landsfundi, þar sem ákveðið var að endurskoða siðareglur og að móta stefnu flokksins svo hægt sé að bregðast við tilkynningum með skilvirkustum hætti.
Trúnaðarnefnd hefur tekið til starfa ásamt trúnaðarmönnum Samfylkingarinnar sem skipaðir voru af framkvæmdastjórn auk aðila sem kosnir voru á flokksstjórnarfundi. Tekið er á móti erindum til trúnaðarnefndar með hverjum þeim hætti sem málshefjandi velur. Í gegnum tölvupóst á netfang nefndarinnar, munnlega, skriflega, á formlegum fundi eða í óformlegu samtali. Allt í samræmi við siðareglur flokksins.
Öllum fulltrúum flokksstjórnarfundarins var gert að skrifa undir yfirlýsingu um að þau heiti því að sýna ætíð háttvísi og virðingu í samskiptum hvert við annað, við umbjóðendur flokksins og samstarfsfólk.
Þarna erum við komin með verklag til að taka við umkvörtunum eða ábendingum um ótilhlýðilega háttsemi á framfæri og setja þær þar með í formlegan, málefnalegan farveg sem leiðir til réttlátrar niðurstöðu.
Við í Samfylkingunni getum verið stolt af því að við erum búin að svara kalli um að vera flokkur sem tekur þessi mál alvarlega.
Nánari upplýsingar má finna hér.