Jóhanna Vigdís: Tryggjum jafnan aðgang að góðri menntun
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur tekið sæti á Alþingi. Hún kemur inn í fjarveru Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.
Jóhanna er framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni sem hefur það meginhlutverk að tryggja að íslenskan verði gjaldgeng í samskiptum sem byggja á tölvu- og fjarskiptatækni.
„Hagvöxtur samfélaga byggir á nýsköpun, og nýsköpun byggir á menntun og rannsóknum. Menntun er líka besta leiðin sem við þekkjum til að stuðla að félagslegum hreyfanleika, vegna þess að aðgengi að menntun óháð efnahag, gerir öllum kleift að bæta hag sinn. Mikilvægasta verkefni okkar, hvort sem við erum við upphaf fjórðu iðnbyltingarinnar eða í henni miðri, er að tryggja jafnan aðgang allra að gæðamenntun. Þá þarf að líta sérstaklega til þess að efla endurmenntun, í samhengi við atvinnustefnu til framtíðar. Aðeins þannig munum við geta nýtt möguleikana sem framtíðin býður okkur, okkur öllum til góðs,“ segir Jóhanna Vigdís.
Áður hefur Jóhanna Vigdís starfað sem framkvæmdastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík og meðal annars staðið fyrir uppbyggingu tengsla á milli háskóla og atvinnulífs í því starfi. Jóhanna Vigdís hefur jafnframt gegnt stjórnendastöðum við Listahátíð í Reykjavík, hjá Straumi fjárfestingarbanka, Deloitte og Borgarleikhúsinu.
Fyrir áramót tók Ellert B. Schram sæti á Alþingi sem varamaður Ágústs Ólafs. Jóhanna Vigdís var þá stödd í Suður-Afríku, heimalandi eiginmanns hennar. Eiginmaður hennar er Riaan Dreyer og eiga þau saman fjögur börn.
Jóhanna Vigdís lauk AMP gráðu hjá IESE Business School í Barcelóna árið 2015, MBA námi frá HR 2005 og meistaraprófi frá Háskólanum í Edinborg árið 2003. Jóhanna Vigdís útskrifaðist með BA gráðu í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1998.