Formenn jafnaðarmanna á Norðurlöndum: ræða Loga

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sótti ársfund SAMAK 2019 í Helsinki á dögunum. SAMAK er samstarfsvettvangur norrænu jafnaðarmannaflokkanna og heildarsamtaka launafólks – á Íslandi eru Samfylkingin og ASÍ aðilar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar á ráðstefnu voru Logi Einarsson, formaður, og Karen Kjartansdóttir, framkvæmdarstjóri. Logi tók þátt í pallborði leiðtoga um framtíð jafnaðarstefnunnar í Evrópu. Auk leiðtoga jafnaðarmanna á Norðurlöndunum tók Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins þátt og undirstrikaði mikilvægi samvinnu frá miðju- til vinstri um gervalla Evrópu.


Logi hélt auk þess formannaræðu á norsku um íslensk stjórnmál og hlutverk jafnaðarmanna á alþjóðavettvangi;

Farsæl framtíð er háð því að mannkynið átti sig á því að við erum öll systkin og eigum allt undir því að vinna saman. Tilbúin landamæri, trú eða litarháttur fá engu um það breytt. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar sterk öfl, jafnvel stjórnvöld í okkar heimshluta, sjá sér enn hag í því að sundra, draga í dilka og viðhalda óstöðugleika.

Gæðum jarðarinnar er einfaldlega of ójafnt skipt. Á meðan helmingur barna býr við örbirgð og mörg þeirra fá hvorki menntun né aðgang að hreinu vatni, þegar milljónir manna eru á flótta undan styrjöldum og kúgun, í veröld sem flokkar menn eftir litarhætti, og jafnrétti kynjanna á langt í land, höfum við mikið verk að vinna – og jafnaðarmenn verða að leiða vinnuna.

Ræðuna má lesa í heild sinni hér á norsku og íslensku.


Meira um fundinn hér: http://samak.info/norden-og-fremtidens-europa/