Þingflokkur Samfylkingarinnar styður framkomnar skattahugmyndir ASÍ
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sér yfirlýsingu um stuðning við skattahugmyndir ASÍ.
Þingflokkur Samfylkingarinnar styður framkomnar skattahugmyndir Alþýðusambands Íslands, enda eru þær í takti við stefnu flokksins. Þingflokkurinn hvetur til þess að unnið verði eftir þessum hugmyndum við útfærslu breytinga á skattkerfinu. Með því mun draga úr ójöfnuði á Íslandi og allt samfélagið mun hagnast af réttlátara skattkerfi, lægri húsnæðiskostnaði almennings og stuðningi við ungar barnafjölskyldur.
Á undanförnum árum hafa þeir efnameiri hagnast á breytingum á skattkerfinu sem hafa að sama skapi bitnað á launafólki með lágar- og meðaltekjur. Þúsundum saman hafa fjölskyldur dottið út úr barna- og vaxtabótakerfinu á síðastliðnum sex árum. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur undir þá kröfu ASÍ að þessari þróun verði snúið við.
Við útfærslu slíkra hugmynda væri hægt að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og tryggja að 95% launafólks standi betur en áður.