Þingslályktunartillaga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks samþykkt á Alþingi
Alþingi tók nú í dag risastórt sögulegt skref og samþykkti þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með þessu verður Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta samninginn og mun það stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi.
Málið er lagt fram að frumkvæði Samfylkingarinnar en Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrsti flutningsmaður málsins.
Í íslenskri lagatúlkun þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu alþjóðasamnings og fullgildingu hans. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema samningurinn hafi verið lögfestur. Stangist ákvæði alþjóðasamnings, sem hefur einungis verið fullgiltur eins og hér hefur verið gert, við íslensk lög víkja ákvæði samningsins.
Einungis þrír meginalþjóðasamningar hafa verið lögfestir á Íslandi og eru það Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall.