Yfirlýsing vegna brottvísana barna á flótta

Yfirlýsing frá Samfylkingunni:

Samfylkingin fordæmir ómannúðleg vinnubrögð í útlendingamálum á Íslandi og krefst þess að stöðvuð verði brottvísun þeirra barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og nú stendur til að senda úr landi. Þá gagnrýnir Samfylkingin harðlega þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt á útlendingalögum og þrengja að réttindum fólks sem sækir hér um skjól – og auðvelda jafnvel brottvísanir til landa eins og Grikklands.

Talsvert fleiri börnum er vísað úr landi en fá hér alþjóðlega vernd. Á síðustu fimm árum hefur 317 börnum verið neitað um alþjóðlega vernd og vísað burt. Sumum jafnvel fylgdarlausum og börnum sem hafa fest hér rætur. Bara á þessu ári hefur 75 börnum verið neitað um vernd. Meðal þeirra eru Mahdi, Ali, Zainab og Amir sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu.

Það er pólitísk ákvörðun að grípa ekki í taumana og koma í veg fyrir brottvísanir sem þessar – ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar.

Samfylkingin skorar á ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að endurskoða útlendingalög og framkvæmd þeirra frá grunni, með sérstöku tilliti til barna og fólks í viðkvæmri stöðu – og tryggi að mál þeirra séu skoðuð efnislega og einstaklingsbundið. Samfylkingin skorar á ríkisstjórnina að hætta að skýla sér á bak við Dyflinnarreglugerðina og annað alþjóðlegt samstarf við framfylgd harðlínustefnu í útlendingamálum.

Stjórn Samfylkingarinnar