Loftslagsmál og kjaramál í forgrunni á flokksstjórnarfundi

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram í Austurbæ í dag. Hátt í 200 jafnaðarmenn af öllu landinu tóku þátt. Fjórar ályktanir voru lagðar fyrir fundinn. Þar af voru þrjár ályktanir samþykktar og einni vísað til málefnanefnda flokksins til frekari vinnslu. Þar má nefna metnaðarfulla ályktun um aðgerðir í loftslagsmálum og einnig lýsir flokksstjórn stuðningi við kjarabaráttu opinbera starfsmanna og styður kröfu þeirra um styttingu vinnuvikunnar. Þá var gerð breyting á skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista.

Tillögur sem hlutu samþykki:

Ályktun um loftslagsmál

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar tekur undir kröfur skipuleggjenda loftslagsverkfallanna og skorar á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og ráðist í aðgerðir af þeirri stærðargráðu að dregið verði úr losun gróðurhúslofttegunda um a.m.k. 55% fyrir árið 2030. Ísland setji stefnuna til framtíðar á að verða grænt velsældarhagkerfi með jöfnuð að leiðarljósi

Ályktunin felur í sér í 18 aðgerðir þar sem t.d er lagt til að sett verði metnaðarfyllri markmið um kolefnishlutleysi og þau fest í lög, útfösun jarðefnaeldsneytis verði tímasett og lagt er til að vinnuvikan verði stytt í þágu loftslags og sérstakt embætti loftslagsráðherra verði komið á fót.

Ályktun um jöfnuð og kjaramál

Í hálfa öld hefur vinnuvikan miðast við 40 stundir. Það er löngu tímabært að stíga nauðsynleg skref í átt til fjölskylduvænna samfélags með því að fækka vinnustundum launafólks hér á landi. Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar tekur heils hugar undir kröfur BSRB og BHM um styttingu vinnuvikunnar.

 

Ályktun um skipan rannsóknarnefndar

Flokksstjórn Samfylkingarinnar krefst þess að Alþingi skipi rannsóknarnefnd um rannsóknaraðferðir og meðferð lögreglu, ákæruvalds og dómstóla á fyrrum dómþolum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Það er nauðsynlegt fyrir trúverðugleika réttarríkisins og traust til stjórnvalda til framtíðar að slík rannsókn fari fram.

Samþykkt breytingartillaga:

Breytingatillögur á skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista

„Breytingartillaga á skuldbindandi reglum flokksstjórnar um aðferðir við val á framboðslista, sem í stuttu máli snýst um að breyta kynjakvótaákvæðum sem gilda um uppstillingu framboðslista okkar í kvennakvóta. Það er að segja, að fáist þessi breyting samþykkt, mun körlum ekki lengur lyft upp um sæti vegna ákvæða um kynjakvóta, aðeins konum.“ Þetta er meðal þess sem kom fram i ræðu Þórarins Snorra Sigurgeirssonar sem flutti tillöguna en hann benti á að kynjakvótar hefðu verið hugsaðir til að jafna hlut kvenna i stjórnmálum og þar sem enn hefði ekki náðst jafnvægi milli kynja a Alþingi væri mikilvægt að huga að tilgangi þeirra sem hefði ekki snúist um að jafna hlut karla gagnvart konum. TIllagan væri þvi liður í því að sjá til þess að kynjakvótar gegndu áfram sínu hlutverki.

Eftirfarandi ályktun var vísað til málefnanendar flokksins:

Ályktun um veggjöld