„Ef allir væru jafn góðir og skemmtilegir og þessi yndislega kona var, væri heimurinn sannarlega betri.“

Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi, er látin. Hún lést á gamlársdag og var banamein hennar krabbamein. Guðrún var einstök kona og í miklum metum höfð meðal samferðarmanna sinna. Eiginmaður hennar, Gísli Víkingsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, greindi frá andláti hennar í gær og hafa síðan fjölmargir minnst hennar á samfélagsmiðlum og víðar á netinu.
Guðrún var fyrst kjörin til setu í borgarstjórn fyrir Kvennalistann árið 1992 og fyrir Reykjavíkurlistann 1994-1998. Hún var kjörin í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Samfylkinguna árið 2018. Guðrún var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi árið 1999 og sat á þingi til ársins 2007. Hún gegndi auk þess fjölda trúnaðarstarfa fyrir fyrir stjórnvöld og félagasamtök.
Fjölmargir landsmenn hafa minnst Guðrúnar og sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á síðu sinni.
„Ef allir væru jafn góðir og skemmtilegir og þessi yndislega kona var, væri heimurinn sannarlega betri.“
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar segir Guðrúnu hafa verið ljósbera.
„Allsstaðar þar sem hún kom birti til og hún færði fólki ljóstýru með baráttu sinni. Minnist hennar með hlýju og þakka fyrir vináttuna á meðan ég held baráttunni fyrir bættum heimi áfram með manngæsku hennar að leiðarljósi.“
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segist enn ekki hafa fundið nægilega stór orð til að lýsa því hve mikill missir sé af Guðrúnu.
„Ráðagóð og risastór hjartahlý og hreinskilin. Ég samhryggist fjölskyldu hennar svo því það tómarúm sem skapast er einhvernvegin svo risastórt fyrir okkur öll sem samfélag en þeirra missir er mestur. Gunna elskaði sitt fólk mest um leið og hún elskaði alla og sýndi öllum virðingu og kærleika. Betri samstarfskonu og fyrirmynd er erfitt að finna.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir Guðrúnu hafa tekist á við veikindin eins og aðra baráttu, það er að segja með lífsgleði, sjarma, jákvæðni og smitandi bjartsýni auk þess sem húmorinn hafi aldrei verið langt undan.
„Og baráttukona var Gunna alltaf. Hún ruddi brautina á ótalmörgum sviðum og skildi eftir sig djúp spor í samfélaginu og hjörtum fjölmargra. Hvar sem einstaklingar eða hópar sem áttu undir högg að sækja þurftu stuðning eða rödd var Gunna mætt með eldmóð og óbilandi baráttuhug í bland við klókindi og málafylgju. Eftir allan sinn magnaða feril var gríðarlegur fengur að fá hana aftur inn í borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar vorið 2018 og að sama skapi er það mikill missir að sjá á eftir henni, ekki aðeins sem stjórnmálakonu heldur ekki síður þeirri mögnuðu og sönnu manneskju sem hún var. Það urðu allir ríkari af því að kynnast Gunnu Ö. Engum hef ég kynnst sem hafði jafn mikið og djúpt innsæi í samskipti fólks og hópa. Gunna var örlát á ráð og reynslu og varð hvarvetna „límið“ í þeim félagsskap sem hún gekk til liðs við – og oftar en ekki sjálfskipaður veislustjóri – því enginn var meiri stemmningsmanneskja eða skemmtilegri á góðri stund. Mér þykir ótrúlega vænt um myndina sem ég læt fygja frá síðustu gleðigöngu en hún var jafnframt síðasta opinbera þátttaka Gunnu sem borgarfulltrúi áður en hún fór í veikindaleyfi. Ég votta Gísla og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Guðrúnar Ögmundsdóttur.“
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segist hreinlega aldrei hafa kynnst skemmtilegri konu en Guðrúnu.
„Fólk varð held ég bara almennt betra með því að umgangast hana – alla vega náði hún alltaf að koma auga á það góða í fólki og leggja rækt við það. Og það ætla ég að reyna að hafa í huga hér eftir þegar við kveðjum þessa stórbrotnu konu.“
Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, segir að Guðrún hafi kunnað að tala við fólk af virðingu og um fólk af fólk af virðingu.
„Það mættu sem flestir taka hana sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Þín verður sárt saknað, kæra samstarfskona og granni.“
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður samtakanna ’78, segir að það séu margir sem eigi Guðrúnu svo margt að þakka.
„Stórkostleg kona, fyrirmynd og einn alöflugasti bandamaður hinsegin fólks á Íslandi.“
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, þakkar Guðrúnu fyrir sterka vináttu og stuðning í meira í en 40 ár.
„Takk fyrir allan hláturinn, dansinn, fjörið, matinn, heilræðin, ullarsokkana, skammirnar, örlætið, grátinn, trúnaðarsamtölin, yndisstundirnar og erfiðu stundirnar líka. Góða ferð í sumarlandið elsku vinkona.“
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segist minnast Guðrúnar fyrir einstaka nærveru, réttsýni, húmor og næmi.
„Örlát á stuðning og hvatningu, faðmlög og skilaboð löng og stutt. Svo ótrúlega dýrmæt manneskja.“
Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir að Guðrún hafi verið ein af þessum einstöku mannverum, mannvinum
„sem lét manni alltaf verða hlýtt í hjartanu þegar maður hitti hana og á sama tíma fyllast baráttumóð til handa öðrum. Blessuð sé minning hennar um alla tíð. Votta aðstandendum hennar djúpstæða samúð við fráfall hennar.“
Frekari minningarorð um Guðrúnu má meðal annars lesa hér:
Vísir – Með gleðina í lífinu sem ferðafélaga
RÚV – Manneskja með stórt hjarta sem gerði heiminn betri
Árið 2010 kom út saga Guðrúnar Ögmundsdóttur, Hjartað ræður för, skráð af Höllu Gunnarsdóttur.