Fjársvelti og undirmönnun í heilbrigðiskerfinu óboðleg

Mánudaginn 13. janúar 2020 sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sér eftirfarandi ályktun:

 

Ályktun frá þingflokki Samfylkingarinnar

Lýsingar á aðstæðum sjúkra og vinnuumhverfi starfsfólks á bráðamóttöku og öðrum deildum Landspítalans sýna að ástandið þar er ekki sæmandi velferðarsamfélagi eða okkur sem þjóð.

Staðan á Landspítalanum er með öllu ólíðandi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Landspítalinn og heilbrigðiskerfið allt býr við langvarandi álag, undirmönnun og fjársvelti.  Starfsfólk lýsir neyðarástandi og á sama tíma krefst ríkisstjórnin milljarða niðurskurðar í rekstri. Það er skammarlegt.

Raunverulegt velferðarsamfélag lætur slíkt ekki gerast. Í heilbrigðismálum eru Íslendingar eftirbátar hinna norrænu ríkjanna, hvort sem litið er til fjármögnunar eða aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk.

Stjórnarflokkarnir hafa ítrekað fellt tillögur Samfylkingarinnar um aukin fjárframlög til heilbrigðismála.

Kjarasamningar fjölda heilbrigðisstétta hafa verið lausir í meira en níu mánuði. Í þeim hópi eru stórar kvennastéttir, svo sem hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraliðar, ljósmæður og annað starfsfólk sem heldur daglegum rekstri heilbrigðiskerfisins gangandi. Þessi seinagangur er óásættanlegur.

Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin bregðist strax við þessu ófremdarástandi.