Saman um róttækar aðgerðir í loftslagsmálum
Í gær fór fram leiðtogafundur norrænna jafnaðarmanna (SAMAK) í forsætisráðherrabústaðnum Marienborg, Danmörku. Þema ráðstefnunnar voru lausnir og aðgerðir í loftslagsmálum.
Logi Einarsson, sækir fundinn fyrir hönd Samfylkingarinnar. Aðrir leiðtogar sem sækja fundinn eru m.a. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Store, formaður norska verkamannaflokksins og Antti Rinne, formaður jafnaðarmanna í Finnlandi.
Sérstakir gestir fundarins eru Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs – stundum kölluð móðir sjálfbærrar þróunar – og Nicolas Schmit, framkvæmdarstjóri félags- og vinnumarkaðsmála Evrópusambandsins.
„Fundurinn að þessu sinni var allur helgaður loftlagsmálum. Við ræddum róttækar aðgerðir til að minnka losun en um leið nauðsyn þess að aðgerðir bitnuðu ekki á þeim hópum sem höllum fæti standa í samfélaginu. Þetta var mjög gott samtal og samtakamátturinn augljós.”” sagði Logi eftir fundinn.
Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt á fundinum:
Saman um róttæka og réttláta loftslagsstefnu
Staðan er alvarleg. Norðurskautið bráðnar, skógareldar og flóð verða sífellt tíðari, þurrkar og afleiðingar þeirra s.s. hungursneyð verða til þess að fleiri leggjast á flótta. Þetta gerist á okkar vakt, við berum ábyrgð sem einstaklingar og samfélag.
Norræna jafnaðarmannahreyfingin mun vera í fararbroddi róttækrar loftslagsstefnu og knýja fram réttlátt og grænt samfélag.
Til að ná markmiðum okkar þarf víðtækan stuðning og samtakamátt á öllum Norðurlöndunum. Aðgerðirnar verða að vera réttlátar. Engin önnur leið er möguleg. Það væri með öllu óásættanlegt ef að þeir sem minnst eiga í samfélaginu þyrftu að leggja mest af mörkum til grænni og öruggari framtíðar.
Við getum notað norræna módelið sem skapalón; víðtækt samstarf stjórnmála og aðila vinnumarkaðarins, á landsvísu og í nærumhverfi. Stjórnmálin bera höfuðbyrgð. En verkalýðshreyfingin og atvinnulífið munu spila risastórt hlutverk ef við eigum að geta dregið nægilega úr kolefnislosun og skaðlegum áhrifum iðnaðar og framleiðslu á náttúruna. Neysla og framleiðsla orku þarf að verða grænni.
Í þessu liggja spennandi tækifæri til nýsköpunar í tækni og fjölbreyttara atvinnulífs. Öll getum við búist við að verða fyrir áhrifum, frá og með deginum í dag. Nauðsynlegt er að umbreyta hvernig við lifum, búum og ferðumst um. Áskoranir hvað varðar loftslagsvá og náttúruvernd eru nátengdar; við verðum að standa vörð um fjölbreytileika náttúrunnar og lífríki hafs og vatna. Við verðum að minnka plastneyslu og matarsóun – og svo margt fleira. Til þess þurfum við að breyta hugarfari okkar, hvert og eitt.
Norðurlöndin verða að taka forystu. Við eigum að gera allt til að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna.
Við höfum bæði styrk og vilja til þess að tryggja að Norðurlöndin verði brautryðjendur í loftslagsmálum. Jafnaðarmannaflokkar og verkalýðshreyfingar Norðurlandanna munu vinna saman að lausnum fyrir réttláta loftslagsstefnu.
Mette Frederiksen, formaður Socialdemokratiet (DK)
Stefan Löfven, formaður Socialdemokraterna Sverige
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar
Jonas Gahr Støre, formaður Arbeiderpartiet (NO)
Antti Rinne, formaður Socialdemokratiska Parti (FI)
Karl-Petter Thorwaldsson, formaður LO Sverige
Jarkko Eloranta, formaður Fackförbunds Centralorganisation (FI)
Hans-Christian Gabrielsen, formaður LO Norge
Lizette Risgaard, formaður Fagbevægelsens Hovedorganisation Danmark
Logi Einarsson og Stefan Löfven fyrir framan Marienborg.