Manngæskan í ótal myndum

Kveðja frá formanni og varaformanni Samfylkingarinnar

Kæru vinir,

Um þessar mundir líður mörgum eins og þau séu föst í hliðarveruleika eða skrýtnum draumi. Þótt allt virðist eins og það var á yfirborðinu er tilveran gjörbreytt og erfitt að sjá það sem framundan er. Við Íslendingar erum eins og aðrar þjóðir að fást við smitsjúkdóm sem kallar á viðbrögð sem við töldum okkur aldrei þurfa að grípa til. Covid-19 er fjölþættari ógn en sú sem við tókumst á við sem samfélag eftir fjármálahrunið 2008. Staðan nú vekur ekki aðeins hjá okkur afkomuótta heldur erum við mörg líka hrædd um heilsu okkar og ástvina. Það gerir stöðuna svo enn erfiðari að við erum mörg hver einangaðri en við eigum að venjast vegna nauðsynlegra sóttavarna.

Manngæskan í ótal myndum

Stundirnar nú minna okkur samt líka á allt það sem skiptir okkur máli og hverjar hinar raunverulegu stoðir samfélagsins okkar eru. Við sjáum skýrt að íslenska þjóðin er ekki bara samansafn af einstaklingum heldur erum við samfélag. Án stuðnings annarra megum við okkar lítils en sameinuð getum við áorkað miklu. Samstaða og samhjálp hafa gert íslenskt samfélag sterkt þó að það sé fámennt. Við höfum byggt upp öflugt velferðarkerfi sem er grundvöllur verðmætasköpunar og þetta samfélag viljum við verja og efla. Við sjáum líka manngæskuna í ótal myndum um þessar mundir og hvað fólk og fjölskyldur um land allt er tilbúið að færa miklar fórnir – fyrir hvert annað, fyrir samfélagið okkar.

Við sjáum líka skýrar hvað skiptir okkur raunverulega máli, þetta eru oft athafnir sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut daglegs lífs. Kvöldverður með vinum eða stórfjölskyldunni, íþróttaæfingar hjá börnunum, heimsóknir til ættingja og vina, gönguferðir og kóræfingar svo dæmi séu tekin. Við finnum hversu samveran og nándin er dýrmæt. Hana verðum við að reyna að rækta áfram þrátt fyrir erfiðar aðstæður, með símtölum, fjarfundum og samfélagsmiðlum.

Verkefni af nýrri stærðargráðu

Í svona ástandi sjáum við líka skýrt hvaða störf það eru sem binda samfélagið okkar saman og gerum okkur enn betur grein fyrir mikilvægi fólksins sem starfar í framlínunni; í skólunum, við félagsstarf, umönnun, hjúkrun, við þrif og afgreiðslu og þannig mætti áfram lengi telja.

Samfylkingin vill koma á framfæri djúpu þakklæti til þessa fólks og allra Íslendinga sem sýna samstöðu og samhjálp í verki á þessum tímum.

Við erum sem samfélag að takast á við verkefni af stærðargráðu sem við höfum ekki fengist áður við. Í því umhverfi er mikilvægt að fólk víki til hliðar ýtrustu flokkapólitík en leggist saman á árarnar. Við þurfum að vera gagnrýnin og uppbyggileg í senn.

Rík­is­stjórnin kynnti á dög­unum aðgerða­pakka sem var því miður ekki unn­inn í sam­ráði stjórnar og stjórn­ar­and­stöðu. Und­an­tekn­ingin frá því er hluta­bóta­leiðin svo­kall­aða, sem batn­aði mjög í með­förum vel­ferð­ar­nefndar og jókst að umfangi, en það er stærsta og mik­il­væg­asta aðgerðin í pakk­an­um. Eftir nauð­syn­legar breyt­ingar nær hluta­bóta­leiðin niður í 25 pró­sent starfs­hlut­fall og er með sér­stöku gólfi þannig að laun fólks hald­ast óskert undir 400 þús­und krónum á mán­uði. Þar náðum við breyt­ingum til hins betra.

Verjum velferðina

Það er mjög mikilvægt að koma atvinnulífinu til aðstoðar en útkoman má ekki verða sú að rík­is­stuðn­ingur miði helst við þá stóru og sterku en kaldur kap­ít­al­ismi ríki fyrir alla hina. Sam­fylk­ingin leggur höf­uð­á­herslu á þetta – ekki aðeins með árangur aðgerð­anna og vel­ferð almenn­ings í huga, heldur líka vegna þess að það skiptir máli fyrir traust í sam­fé­lag­inu og trú fólks á að lýð­ræðið virki sem skyldi þegar á reyn­ir. Þess vegna viljum við að fólk í við­kvæmri stöðu fái þá hjálp sem þarf og að smærri fyr­ir­tæki hafi jafnan aðgang að aðstoð, eða jafn­vel enn betri, en þau sem eru stærri og sterkari. Hægt er að fara betur yfir gagnrýni okkar Samfylkingarfólks á aðgerðir ríkisstjórnarinnar hér.

Verkefnin framundan mæða þó sannarlega á fleiri en þingmönnum. Víða um land fást sveitarstjórnir við vaxandi atvinnuleysi og mikinn tekjusamdrátt á sama tíma og sjaldan hefur verið mikilvægara að verja nærþjónustu og velferð. Velferðarþjónusta er forsenda góðs samfélags og verðmætasköpunar, þess vegna verðum við jafnaðarmenn að kappkosta við að verja hana og efla af kappi á næstu misserum.

 

Viðkvæmari og hljóðlátari hópar mega ekki gleymast

Covid-19 útheimtir margs konar viðbrögð sem munu hafa víðtækar afleiðingar á samfélag okkar. Að mörgu þarf að huga til að verja velferð fólks og grunnstoðir samfélagsins fyrir frekari skakkaföllum. Þegar mikið gengur á er hætta á að viðkvæmari og hljóðlátari hópar samfélagsins gleymist. Við ákvarðanatöku á næstunni er því mikilvægara en áður að fá sem flesta að borðinu. Við í Samfylkingunni viljum að ákvarðanir um framtíðina séu teknar í samvinnu sem flestra en ekki í þröngum hópi.

Við biðjum ykkur að vera í sambandi. Á næstunni mun Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, standa fyrir opnum fundum á netinu sem ætlunin er að hafa vikulega til að fá innsýn í mikilvæg verkefni almennings og upplýsa um stöðuna í sveitarstjórnum og á þingi.

Við gerum okkur þegar grein fyrir því að 20 ára afmæli flokksins sem fyrirhugað var halda upp á þann 9. maí verður með öðru sniði en lagt var upp með. Við sjáum hverju fram vindur áður en ákvarðanir verða teknar og biðjum ykkur að sýna skilning á stöðunni.

Í myndbandi hér að neðan fer svo Logi yfir áherslur Samfylkingarinnar gagnvart aðgerðum ríkisstjórnarinar. Kórónuveiran mun ganga yfir og með réttum viðbrögðum og samvinnu getum við lágmarkað samfélagslegan kostnað sem af henni hlýst.

Okkar kærustu jafnaðarmannakveðjur,

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar