Bryndís Friðgeirsdóttir tekur við formennsku kjördæmisráðs í NV-kjördæmi

Bryndís Friðgeirsdóttir hefur tekið við formennsku í kjördæmisráði Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi fram að næsta aðalfundi þess sem haldinn verður í haust. Bryndís hefur gegnt varaformennsku í ráðinu en tekur nú við sem formaður af Ólafi Inga Guðmundssyni, sem ákveðið hefur að draga sig úr stjórn vegna búferlaflutninga í annað kjördæmi.
Á fundi kjördæmisráðsins í gær þakkaði Ólafur stjórn fyrir gott og farsælt samstarf á liðnum árum.
„Flokkurinn hefur gengið í gegnum margt í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum í kjördæminu en ég tel að við getum vel við unað þegar litið er til baka. Þið getið alltat haft samband við mig eftir því sem þörf er á ef ég get eitthvað aðstoðað ykkur varðandi flokksmál eða annað,“ sagði Ólafur.
Hann hvatti jafnaðarmenn í kjördæminu að auki til þess að setja aukinn kraft í félagsstarfið fyrir komandi Alþingiskosningar á næsta ári og óskaði stjórn og öðrum flokksmönnum velfarnaðar.
Ólafur Ingi hefur verið í stjórn kjördæmisráðsins í rúman áratug, þar af átta ár sem formaður. Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands sendir Ólafi innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt og öflugt starf.