Ávarp formanns í tilefni 20 ára afmælis Samfylkingarinnar

Í dag fögnum við því að Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands er tuttugu ára.

Kæru félagar

Í dag fögnum við því að Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands er tuttugu ára. Við ætluðum vissulega að gera það með talsvert öðru sniði en þurfum að laga okkur að skrýtnum aðstæðum. Það bíður hentugri tíma að hittast og fagna áfanganum saman.

Tuttugu ár eru auðvitað ekki ekki ýkja hár aldur, jafnvel þó miðað sé við mannsævi – en flokkurinn á þó rætur mikið lengra aftur, allan fullveldistímann, jafnvel lengur en það. Og hann byggir á jafnaðarstefnunni, hugmyndafræði sem hefur legið til grundvallar mörgum af  farsælustu samfélögum veraldar.

Með nokkurri einföldun er hægt að líkja Samfylkingunni við straumþungt fljót sem sækir kraft sinn í ótal kvíslar, af öllum stærðum og gerðum en þar eru fjórar sterkastar.

Ein er gamli Alþýðuflokkurinn sem var stofnaður var 1916 um leið og Alþýðusambandið og var hugsaður sem þinglegur armur þeirrar hreyfingar og náði að leita til lykta á þeim vettvangi mörg af brýnustu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar á 20. öld. Önnur er svo Alþýðubandalagið sem varð til úr samruna margra þeirra sem stilltu sér upp til vinstri við Alþýðuflokkinn og vildu berjast gegn veru hersins hér.  Þriðja kvíslin kemur úr kvenfrelsishreyfingunni sem alltaf hefur verið öflug í flokknum okkar en hafði áður bylt Alþingi með tilkomu Kvennalistans, Fjórða kvíslin er svo Þjóðvaki þar sem margir landlausir jafnaðarmenn fylktu sér undir merki Jóhönnu Sigurðardóttur.

Allt þetta fólk og fleira til kom saman í Samfylkinguna til að láta drauminn rætast um að vinna saman að sameiginlegum hugsjónum en láta ekki ágreiningsmál sundra sér.

Jafnaðarstefnan er nefnilega bæði víð og skýr og byggir á á tveimur meginstoðum, sem mega ekki án hvor annarrar vera: félagslegu réttlæti og ábyrgri efnahagsstefnu: Báðar þessar stoðir þurfa að vera styrkar ef samfélaginu á að vegna vel.

Efnahagslegur stöðugleiki, mikil atvinnuþáttaka og eftirsóknarvert fjárfestingaumhverfi þarf til að ýta undir öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem getur þolað utanaðkomandi áföll. Kraftmikil og útsjónasöm fyrirtæki eru nauðsynleg til að halda uppi hagvexti, skapa nýja vöru og þjónustu og fjölga störfum.Það er eitt af höfuðmarkmiðum Samfylkingarinnar að stuðla að blómlegu íslensku atvinnulífi; að fyrirtæki á einkamarkaði skapi aukin verðmæti og fleiri störf.

Líklega er fátt jafn mikilvægt – nema kannski hin meginstoð jafnaðarstefnunar;

félagslegt réttlæti. Réttlæti er alltaf markmið í sjálfu sér en það er líka forsenda blómlegs atvinnulífs.Því öflugt velferðarkerfi og öryggisnet er nauðsynlegt til að allir hafi tækifæri til að þroska hæfileika sína og leggja af mörkum til samfélagsins. Jafnari tekjur og sómasamleg lífskjör allra eru nauðsynlegur partur af því að auka framleiðni, skilvirkni og verðmætasköpun.

Þó verkefnið sé ávallt að styrkja þessar megin stoðir, geta leiðirnar til þess þó tekið breytingum. Stjórnmálaflokkar þurfa alltaf að vera reiðubúnir til að laga sig að nýjum veruleika; verða fyrir áhrifum nýrra strauma og mega ekki læsast í tæknilegum lausnum eða kreddum.

Liður í þessari stöðugu endurmótun er öflug grasrót, með líflegu félagsstarfi, sem mótar grunnstefnu og sýnir kjörnum fulltrúum aðhald. Gæfa Samfylkingarinnar er að búa yfir slíkum mannauð. Grasrót sem mótar stefnu í anda kjörorða okkar um frelsi, jafnrétti og samstöðu og byggir á klassískum gildum jafnaðarstefnunnar um mannúð, umburðarlyndi og víðsýni.

Við þurfum líka að haga stefnu okkar þannig að við aukum líkurnar á að hún nái fram að ganga. Í fjölflokka lýðræði getur verið vafasamt að keppa eingöngu um afdráttalausustu stefnuna. Hún þarf líka að taka mið af því, að það þarf oftast að hrinda henni í framkvæmd í samvinnu við aðra flokka: Þannig hafa mörg helstu baráttumál okkar Jafnaðarmanna náð fram með ára-, jafnvel áratuga baráttu.

Þrátt fyrir þetta hins vegar líka mikilvægt að við séum staðföst og gefum ekki grunngildin eftir fyrir stundarvöld sem skila okkur kannski litlu.

Stjórnmál eru ekki spretthlaup, heldur langhlaup sem krefst úthalds og æðruleysis.

Í augnablikinu stendur samfélag okkar frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni, samfara baráttunni við veiruskrattann.

Eins öruggur og ég er að við sigrumst á honum – er líka ljóst að uppbyggingin í kjölfarið verður prófsteinn á það hvernig samfélag við viljum byggja hér upp í framhaldinu.

Veiran hefur fært okkur heim sanninn um nauðsyn þess að hafa sterkt velferðarkerfi og öfluga samneyslu, þó vissulega ættum við að dreifa byrðunum jafnar.

Þá hefur erfiður vetur kennt okkur að við verðum að gera betur, svo við getum tryggt nægilega sterka og vel fjármagnaða grunninnviði sem þjóna öllum landsmönnum frá degi til dags – en geta líka þolað áraun;  staðið af sér hörð vetrarveður eða skæðan faraldur sem við upplifum nú. Þetta á við um samgöngurnar okkar, fjarskiptin, rafmagnið – en líka menntun og heilbrigðisþjónustu.

Í ljósi þessarar nýlegu reynslu er það því beinlínis furðulega einfölduð heimsmynd, sem birst hefur í ummælum stjórnmálafólks og talsmanna einstakra hagsmunasamtaka, sem fullyrða að verðmætin skapist fyrst og fremst hjá einkafyrirtækjum en ekki hjá hinum opinberu.

Í þessu samhengi er ágætt að skoða eina af okkar mikilvægustu atvinnugreinum, sjávarútveginn.

Vissulega hafa harduglegir og framsýnir sjómenn lagt þungt á lóðarskálar almennrar velsældar hér á landi – en það það væri gróf einföldun að álykta að veiði, vinnsla og sala væri upphaf og endir á verðmætasköpuninni: Þótt hún sé vissulega mikilvægur partur af henni.

Án skóla sem skapa þekkingu og efla hugvit, heilbrigðiskerfis, hafrannsókna, nýsköpunarsjóða, eftirlits, útfærslu landhelgi og alþjóðlegra viðskiptasamninga, er ég hræddur um að hver fiskur dreginn úr sjó væri nokkuð verðminni en ella.

Þetta á að sjálfsögðu við um alla vöru sem framleidd er. Verðmætin eru tilkomin vegna flókins gangverks samfélagsins, sem við tökum öll þátt í að skapa, með einum eða öðrum hætti.

Það er því mikilvægt að víðtæk sátt náist um sanngjarna skiptingu arðsins og réttláta skiptingu gæða. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar við siglum inn í spennandi en ógnvænlega framtíð byltingarkenndra breytinga.

Við stöndum nefnilega frammi fyrir tækniþróun sem er að gjörbreyta samfélaginu. Tæknin mun ekki eingöngu koma í stað vöðvaafls, heldur líka hugarafls að einhverju marki. Gervigreind mun gefa vélum áður óþekkta hæfni og innan fárra áratuga verður þátttaka mannsins í samfélaginu með allt öðrum hætti en við höfum þekkt hingað til.

Í þessu felast vissulega mikil tækifæri, ef við höfum jafnaðarstefnuna að leiðarljósi.

Framleiðni getur aukist, sem er forsenda þess að við getum tekist á við breytta aldurssamsetningu mannkyns. Möguleikar skapast til vistvænni framleiðslu, sem eru nauðsynleg viðbrögð við loftslagsógninni og síðast en ekki síst getur hún nýst til að jafna stöðu milli ríkari og fátækari hluta heimsins. Allt þetta er svo forsenda fyrir langþráðum friði í heiminum.

Þessum breytingum fylgja þó líka ógnir, ef höldum ekki rétt á spilunum: Sundurlyndi þjóða gæti aukist, með vaxandi ófriði og minni möguleikum til að samhæfa nauðsynlegar, róttækar, loftlagsaðgerðir. Loks gæti bilið milli þeirra efnameiri og snauðu, náð áður óþekktum hæðum.

Við erum lánsöm að hér á landi ríkir meiri jöfnuður en víða annars staðar, en samt þarf að gera miklu betur og vera vakandi gagnvart tilhneigingum til aukins ójöfnuðar. Ójöfnuður á sér nefnilega fleiri birtingarmyndir en tekjur eða auðsöfnun.

Ójöfnuður birtist til dæmis í heilsu fólks: Ungur karlmaður með grunnskólapróf getur vænst þess að lifa heilum fimm árum skemur en karlmaður með háskólapróf.

Í skólakerfinu sjálfu er ein birtingarmynd ójafnaðar meira brottfall efnaminni nemenda og barna innflytjenda.

Á húsnæðismarkaði birtist ójöfnuðurinn í því að sum geta sennilega aldrei vænst þess að kljúfa útborgun og eignast eigið húsnæði.

Loks er byggðaójöfnuður orðið alþjóðlegt vandamál. Börn sem fæðast í dreifbýli hafa færri tækifæri til að rækta hæfileika sína en börn í borgum. Fólk hefur heldur ekki jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, menningu eða jafnvel raforku!

Já, ójöfnuðurinn finnst víða – og þar sem hann þrífst gegna jafnaðarmenn mikilvægu hlutverki.

Ójöfnuður sogar mátt úr samfélögum.

En samfélög með miklum jöfnuði, sem gera öllum einstaklingum innan þeirra kleift að þroska hæfileika sína og nýta þá með einum eða öðrum hætti í þágu samfélagsins, eru hins vegar bæði kraftmeiri og friðsamari en önnur. Þar ríkir einfaldlega meiri hagsæld, samkvæmt öllum mælikvörðum.

Okkar bíða ærin verkefni kæru félagar og það mikilvægasta í dag er að koma í veg fyrir það að ójöfnuður aukist í núverandi kreppu.

Við þurfum þó líka að hafa kjark og framsýni til þess að horfa til framtíðar, jafnvel nú á þessum skrítnu tímum.

Í fyrsta lagi þarf. að gera róttækar breytingar á skattkerfinu, til að hindra að ágóðinn af tækniþróuninni verði ekki allur eftir hjá alþjóðlegum risafyrirtækjum. Slíkt mundi leiða til þess að stjórnvöld réðu ekki við að halda upp öflugu velferðarkerfi

Í öðru lagi verður að fjárfesta miklu meira í menntun. Byggja á hugviti og leggja meiri áherslu á fjölbreytt atvinnulíf: Skapa ný og spennandi störf í grænu hagkerfi.

Í þriðja lagi eigum við að leggja meiri rækt við gildi og siðvit. Framtíðin ber nefnilega einnig með sér siðferðilegar hættur, og gildi eins og samhjálp – umburðarlyndi og víðsýni verða að vera leiðarstef okkar inn í spennandi en óræða framtíð.

Því er það mikilvægt að Samfylkingin sameini umbótaaöflin og leiði ríkisstjórn sem er fær um að takast á við framtíðina; ráðast í þessar nauðsynlegu breytingar og gera betur fyrir fólkið í landinu.

Þetta er skylda okkar, því hið sögulega hlutverk Samfylkingarinnar er að fylkja saman fólki og knýja fram breytingar til hins betra. Hvort sem það er gert í einum stórum flokki eða góðu samstarfi margra flokka

Kæru jafnaðarmenn. Ég hlakka til að hitta ykkur augliti til auglitis og ræða við ykkur um sóknarfæri flokksins, takast mögulega á um leiðir og sammælast að lokum um aðgerðir sem þjóna hugsjónum okkar og hagsmunum almennings.

Kæru vinir, ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með daginn!

Logi Einarsson Þingflokksformaður