Samstaða og réttlæti

Í fyrsta skipti í nær hundrað ár, kemur íslenskt launafólk ekki saman í kraftmiklum kröfugöngum á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. 

Í fyrsta skipti í nær hundrað ár, kemur íslenskt launafólk ekki saman í kraftmiklum kröfugöngum á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.  

En þótt samtakamáttur launafólks verði kannski ekki jafn sýnilegur á götum úti víðsvegar um landið í dag, heldur baráttan svo sannarlega áfram. 

Veiran hefur fært okkur heim sanninn um nauðsyn þess að hafa sterkt velferðarkerfi og öfluga samneyslu, þó vissulega ættum við að dreifa byrðunum jafnar. Þá hefur öflugt öryggisnet á vinnumarkaði skipt höfuðmáli í baráttunni við heimsfaraldurinn. Það náðist ekki af sjálfu sér. Staðan væri allt önnur á Íslandi, ef ekki væri fyrir samtakamátt launafólks og þrotlausa baráttu þess í þágu félagslegs réttlætis og bættra lífskjara. 

En erfiður vetur kennt okkur að betur má ef duga skal, svo við getum tryggt nægilega sterka og vel fjármagnaða grunninnviði sem þjóna öllum landsmönnum frá degi til dags – en geta líka þolað áraun og staðið af sér hörð vetrarveður eða skæðan faraldur sem við upplifum nú. Þetta á við um samgöngurnar okkar, fjarskiptin, rafmagnið – en líka heilbrigðisþjónustu og menntun. 

Nú þegar við upplifum þennan skógarbruna sem orðið hefur er mikilvægt að við höfum framsýni til að taka meðvitaða ákvörðun um hvers konar gróður við viljum rækta þegar hann er genginn yfir. Þar verðum við að huga að því að upp spretti lágreist, fjölbreytt flóra frekar en örfá háreist tré sem skyggja á rest.  

Nú þarf að eiga sér stað lýðræðisleg umræða um grundvallargildi, skipulag og skiptingu gæða í samfélaginu. Með skapandi hugsun að vopni, jöfnuð og fjölbreytni að leiðarljósi, höfum við raunverulegt tækifæri til að betra samfélag rísi upp úr brunarústunum. 

Sú umræða verður að eiga sér sér stað á þeim forsendum að innan fárra áratuga verður þátttaka mannsins í samfélaginu með allt öðrum hætti en við höfum þekkt hingað til. Tækniþróunin, sem er í veldisvexti, mun gjörbreyta samfélaginu okkar. 

Framleiðni getur aukist gríðarlega, sem er forsenda þess að við getum tekist á við breytta aldurssamsetningu mannkyns. Möguleikar skapast til styttri vinnuviku og fjölskylduvænna samfélags, til vistvænni framleiðslu, sem eru nauðsynleg viðbrögð við loftslagsógninni og síðast en ekki síst getur hún nýst til að jafna stöðu milli ríkari og fátækari hluta heimsins. Allt þetta er forsenda fyrir langþráðum friði í heiminum. 

Þessum breytingum fylgja þó líka ógnir, ef ekki er rétt haldið á spilunum: sundurlyndi þjóða gæti aukist, með vaxandi ófriði og minni möguleikum til að samhæfa nauðsynlegar loftlagsaðgerðir. Loks gæti bilið milli þeirra efnameiri og snauðu stóraukist. 

Baráttu launafólks fyrir réttlátara samfélagi er því hvergi nærri lokið – og Samfylkingin mun halda áfram að styðja þá baráttu af alefli sviði stjórnmálanna. 

Til hamingju með daginn! 

Logi Einarsson Þingflokksformaður