Grænt samfélag
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kallar eftir metnaðarfyllri loftslagsaðgerðum og varar við skammtímalausnum.
Mannkynið hefur sjaldan staðið frammi fyrir jafn stórum áskorunum og nú. Afleiðingar kórónaveirunnar kalla á hugmyndaauðgi og nýsköpun á flestum sviðum samfélagsins, ekki síst í stjórnmálum. Aðstæður krefjast þess að við hugsum til langs tíma og séum skapandi. Setjum okkur skýr markmið og séum nógu djörf til að tefla fram lausnum sem gera samfélagið réttlátara og sjálfbærara að loknum þessum tímabundnu hremmingum.
Nú er kallað eftir því að hið opinbera stígi fast til jarðar og styðji við atvinnulífið; og það er nauðsynlegt, bæði til að verja störf og tryggja að fyrirtækin verði áfram vel rekstrarhæf. Samhliða því verður líka að tryggja að aðgerðir leiði til meiri velsældar og jafnari lífskjara fyrir fólk og leiði til betri umgengni okkar um jörðina.
„Nokkurra vikna barátta við veiruskrattann hefur ekki breytt neinu um það að við erum í kapphlaupi við tímann hvað varðar loftslagsbreytingar“
Við þessar aðstæður er nefnilega mikil hætta á að stjórnmálamenn freistist til að grípa til skyndilausna: ráðist í örvæntingafullar skammtímaaðgerðir sem vinna gegn langtímamarkmiðum. Nokkurra vikna barátta við veiruskrattann, þar sem athygli okkar hefur beinst eingöngu að honum, hefur ekki breytt neinu um það að við erum í kapphlaupi við tímann hvað varðar loftslagsbreytingar. Jafnvel nú, þegar við horfumst í augu við versta efnahagshrun í 100 ár, er nauðsynlegt að muna að það eru engin störf á dauðri plánetu.
En hvað getum við þá gert?
Við þurfum að loftslagsmeta allar aðgerðir ríkisins vegna kórónaveirunnar og hefja undirbúning að grænum fjárlögum. Nú sem aldrei fyrr verður að ráðast í aðgerðir sem miða að hraðari orkuskiptum, m.a. með uppbyggingu á skilvirkum almenningssamgöngum og forgangsraða fjármagni í vegaframkvæmdir sem stytta leiðir. Flýta uppbyggingu á dreifikerfi rafmagns um allt land, í sátt við samfélag og náttúru, byggja fleiri rafhleðslustöðvar og rafvæða hafnir. Með útfösun jarðefnaeldsneytis fæst umtalsverður efnahagslegur og umhverfislegur ávinningur; útblástur minnkar og gjaldeyrir sparast samfara minni innflutningi á olíu. Við verðum að sjálfsögðu að temja okkur skynsamlegri neyslu en ekki síður að búa minna og nær hvert öðru. Bygging á hagkvæmu húsnæði í þéttri, blandaðri byggð er stór liður í því. Loks þarf að eyrnamerkja fjármagn úr sameiginlegum sjóðum, til þeirra fyrirtækja sem sýna metnað og árangur í loftslagsmálum og þeim sem sérhæfa sig í grænum lausnum. Allt þetta er atvinnuskapandi, á tímum þar sem þörf er á slíku, en þetta skapar einnig langtíma verðmæti.
Við í Samfylkingunni höfum einnig talað fyrir því að lögbinda tímasetta og magnbundna áætlun um samdrátt gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir lok árs 2030. Og að þörf sé á að ná víðtækri sátt um grænan samfélagssáttmála (e. Green new deal) í nánu samstarfi við almenning, aðila vinnumarkaðarins, og fræðasamfélagið. Eins konar umbreytingasáttmála sem færir okkur í átt að grænni framtíð, án þess að hinir efnaminni líði fyrir vandasamar breytingar, samfara tilfærslu yfir í kolefnislaust samfélag.
Við þurfum að gera allt þetta og vissulega meira til ef okkur á að farnast vel. Stórar áskoranir eins og loftslagsbreytingar, tæknibyltingin, ójöfnuður og ófriður hurfu ekki með veirufaraldrinum og við megum ekki missa sjónar af þeim í aðgerðunum fram undan.
Greinin birtist fyrst í Stundinni 15. maí