Samfylkingin vill skilyrði fyrir stuðning frá ríkinu

Oddný G. Harðardóttir mælti fyrir breytingartillögum Samfylkingarinnar við uppsagnarleiðina á Alþingi í dag

Samfylkingin telur mikilvægt að ríkið styðji fyrirtæki í erfiðri stöðu en dregur í efa að uppsagnarleiðin tryggi réttindi launafólks og telur að hún geti í sumum tilfellum unnið gegn launafólki. Mikilvægt er að ráðningasamband haldist á milli atvinnurekenda og starfsmanna á meðan erfiðleikarnir ganga yfir. Því er hlutabótaleiðin svok allaða ákjósanlegur stuðningur þar sem ráðningasamband er tryggt þó greiðslur til launamanna  verði sambland af launum og atvinnuleysisbótum.

Með uppsagnaleiðinni fá atvinnurekendur beinlínis sérstakan stuðning til að segja upp fólki. Töluverðar líkur eru á því að hvatinn verði í þá átt að segja fólki upp frekar en að framlengja ráðningasamband með hlutabótaleiðinni.

Samfylkingin leggur til fjórar breytingartillögur sem snúa að endurgreiðslu, skattaskjólum, loftlagsmálum og launaviðmiðum uppsagnarleiðarinnar:

Fyrirtæki greiði til baka

Samfylkingin telur mikilvægt, bæði til að skapa hvata til að fyrirtæki velji frekar að halda ráðningasambandi við launafólk og einnig af réttlætisástæðum, að fyrirtækin endurgreiði stuðninginn til ríkissjóðs eftir því sem afkoma og afkomubati leyfir. Þannig greiði fyrirtæki tekjuskattsauka, fyrst 2023 og að hámarki næstu tíu ár.  Endurgreiðslan verði í formi tekjuskattsauka sem svari 10 prósentustigum til viðbótar núverandi tekjuskattsprósentu. Þá yrði tekjuskatturinn með álaginu svipað hlutfall og í mörgum öðrum nágrannalöndum.

Með þessari leið munu fyrirtækin sem standa best að vígi árin eftir að faraldurinn hefur gengið yfir, greitt stuðninginn hratt upp með tekjuskattsaukanum en þau hin sem ekki ná sér eins vel á strik, minna í krónum talið og ekkert eftir árið 2033 þegar tekjuskattsaukinn fellur niður. Aðferð þessi svipar til þess sem sex virtir hagfræðingar hafa lagt til við Evrópusambandið vegna stuðnings ESB ríkja tengdum COVID-19. Greinargerð hagfræðinganna má finna á þessari slóð: https://safe-frankfurt.de/fileadmin/user_upload/editor_common/Policy_Center/SAFE_Policy_Letter_84_final2.pdf

Skattaskjól

Engar hindranir standa í vegi fyrir því að aðilar sem hafa sagt sig frá samneyslu, með því að komast hjá skattgreiðslum í gegnum skattaskjól, geti nýtt sér uppsagnarleiðina. Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hefur áður lagt fram tillögu um að útiloka þá sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög fái stuðningi úr ríkissjóði vegna COVID-19. Sú tillaga var felld. Engu minni ástæða er nú en þá að leggja fram slíka tillögu og er það því gert að nýju með breyttu sniði en sama markmiði.

Skilyrði um áætlun í loftlagsmálum

Samfylkingin leggur til að sett verði skilyrði um áætlun í loftslagsmálum fyrir stuðningi samkvæmt frumvarpinu. Með skilyrðinu setja stjórnvöld loftslagsmál á dagskrá og krefjast þess um leið að fyrirtækin geri það einnig.

Krafan er sú að fyrirtæki taki stöðuna hjá sér á losungróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2019 og leggi fram áætlun um árlega minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda næstu fimm árin. Miðað er við að skilyrðið eigi við fyrirtæki sem segir upp 10 starfsmönnum eða fleiri í fullu starfi.

Mikilvægt er að stjórnvöld geri kröfur í loftslagsmálum samfara stuðningi við fyrirtæki. Glíman við loftslagshamfarir af mannavöldum stendur yfir og er vandinn sem henni fylgir óleystur. Þessi glíma er stærsta viðfangsefni mannkynsins og verður það áfram næstu misserin.

Skilyrðið er ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin og auðvelt í framkvæmd. Bókhald fyrirtækja fyrir árið 2019 liggur fyrir og nýta má þær upplýsingar til að færa losunarbókhaldið.

Launaviðmið

Eitt af skilyrðum við framlengingu hlutabótaleiðar er að þeir njóti ekki stuðning sem hafi greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins. Samfylkingin leggur til að þessi sömu skilyrði gildi fyrir uppsagnarleiðina.