Ríkisstjórnin hafnar skýrum skilyrðum um skattaskjól

Ríkisstjórnin hafnaði í dag tillögum Samfylkingarinnar um að sett yrðu sérstök skilyrði vegna fjárstuðnings við fyrirtæki vegna COVID-19.

Ríkisstjórnin hafnaði í dag tillögum Samfylkingarinnar um að sett yrðu sérstök skilyrði vegna fjárstuðnings við fyrirtæki vegna COVID-19.  Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í efnahags og viðskiptanefnd mælti fyrir nefndaráliti og breytingartillögunni í dag. Skilyrðin sem Samfylkingin vill setja eru þau að aðilar sem stundað hafa einhverskonar skattaundanskot og skattasniðgöngu eigi ekki rétt á stuðningi úr ríkissjóði.

Fyrirtækin í landinu þurfa enn betri stuðning, en það þurfa að vera skýr skilyrði fyrir þeim stuðningi.

Það er algjörlega óásættanlegt að rétta þeim fjármuni úr ríkissjóði sem hafa ekki greitt sinn sanngjarna skerf til samfélagsins heldur sett upp fléttur og flóknar millifærslur beinlínis til að komast hjá því. Á þessum erfiðu tímum, þegar glímt er við heimsfaraldur með tilheyrandi tekjufalli og erfiðleikum heimila, fyrirtækja, ríkissjóðs og sveitarsjóða kemur ekkert annað til greina en að setja skýr skilyrði í lögum um skattaskjól.

Þau skilyrði sem sett eru fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar eru innihaldslaus að áliti Indriða H. Þorlákssonar fyrrverandi Ríkisskattstjóra. Indriði segir: „Skattundanskot og skattasniðganga með aðstoð aflandssvæða felst í því að skattaaðili með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ hér á landi flytur tekjur sem hér er aflað til félags utan skattalögsögu Íslands, oftast skúffufyrirtækis á lágskattasvæði. „Full og ótakmörkuð skattskylda“ kemur ekki í veg fyrir það.

Notkun skattaskjóla og aflandsfélaga grefur undan velferðarkerfinu. Þá starfsemi á ekki að styjða með almannafé. Samfylkingin mun áfram ítreka mikilvægi þess að undanskilja stuðning ríkisins við alla þá sem eru með tengsl við lágskattaríki og halda áfram að leggja til tillögur eins og þessa sem var felld í dag. Til þess að fá stuðning ríkissjóðs verður lágmarks krafan að vera sú að aðilar hafi lagt sitt til í samneyslu landsins.

Þeir sem nýta sér skattaskjól og setja upp fléttur og flóknar millifærslur til að komast hjá því að greiða sinn sanngjarna hlut til samfélagsins, eiga ekki að fá stuðning ríkisins. Það er algjörlega óásættanlegt og þeir fái fjármuni úr ríkissjóði.

Oddný G. Harðardóttir Þingflokksformaður Samfylkingarinnar