Ræða Ágústs Ólafs á eldhúsdegi

Ágúst Ólafur Ágústsson flutti ræðuna sem finna má hér á eldhúsdegi á Alþingi 23. júní 2020.
Góðir Íslendingar
Ég ætla ekki að tala um heimsfaraldur Covid-19. Ég ætla hins vegar að tala um annan faraldur, sem veldur mun fleiri dauðsföllum en þessi veira. Þetta er faraldur sem ekki er mikið rætt um.
Þetta er faraldur vanlíðunar og fíknar.
Vegna þessa faraldurs deyr einn Íslendingur á um 12 daga fresti en það eru sjálfsvígin. Síðan deyr annar Íslendingur eftir aðra 12 daga vegna ofneyslu, og er það dapurt Norðurlandamet sem við eigum.
Þessi fjöldi er svo mikill að það væri eins og flugvél í innanlandsflugi milli Reykjavíkur og Akureyrar myndi hrapa á hverju einasta ári.
Þar að auki eiga Íslendingar heimsmet í neyslu þunglyndis- og kvíðastillandi lyfja. Þá stunda hundruð íslenskra ungmenna sjálfsskaða af einhverju tagi.
Við sem samfélag erum núna að kljást saman við veiru. En við þurfum líka að berjast saman gegn vanlíðan, þunglyndi, einmannaleika og fíkn.
Þessir sjúkdómar drepa líka.
Það er tómt mál að tala um hagvöxt, landsframleiðslu og kaupmátt ef okkur líður illa. Og það svo illa að á 6 daga fresti deyr einhver af okkur úr vanlíðan og fíkn.
Við í stjórnmálunum eigum því að ræða þessi mál miklu oftar en ég held að fá mál séu stærri en einmitt þau sem snerta sjálfa lífshamingjuna.
Í svona ástandi skiptir einnig máli að hafa framtíðarsýn. Eitthvað sem við getum horft til með eftirvæntingu í hjarta.
Núna eru erfiðir tímar í atvinnumálum og hefur það líka áhrif á andlega velferð landsmanna. Atvinnuleysi hefur aldrei verið meira og það stefnir í að hækka með haustinu.
Það skortir hins vegar á framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn. Eftir síðasta hrun samþykkti Samfylkingin sérstaka græna fjárfestingaráætlun.
Ekkert bólar á slíku hjá þessari ríkisstjórn sem setur nánast allan sinn kraft, eða 75% af aðgerðum sínum vegna veirunnar, í tvær niðurdrepandi aðgerðir, það er atvinnuleysisbætur og niðurgreiðslu á uppsögnum.
Hugsið ykkur, að einungis 5% af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fer í nýsköpun. Einungis 5% í nýsköpun til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár.
Þess væri óskandi að við hefðum núna ríkisstjórn sem myndi setja á oddinn tækniþróun, skapandi greinar og nýsköpun af öllu tagi.
Við þurfum núna ríkisstjórn sem mun skapa störf í stað þess að niðurgreiða einungis endalok þeirra.
Við þurfum núna ríkisstjórn sem setur listamenn á laun í stað þess að setja þá á atvinnuleysisbætur.
Við þurfum núna ríkisstjórn sem hækkar bætur til öryrkja og eldri borgara.
Og við þurfum núna ríkisstjórn sem borgar hjúkrunarfræðingum mannsæmandi laun en neyðir ekki þá og ljósmæður í verkfall.
Góðir Íslendingar
Ísland getur verið land tækifæranna. En það er það ekki í dag, að minnsta kosti ekki fyrir alla.
Á sama tíma og Rauði kross Íslands rekur sérstakan sjóð sem heitir: „Sárafátæktarsjóður“ birtist blaðafyrirsögn hér um að „Lúxusbílasala á Íslandi sé á við olíuríki“
Á sama tíma og eitt prósent ríkustu Íslendinganna á meiri eignir en 80% landsmanna, búa sex þúsund íslensk börn við fátækt.
Og á sama tíma og einn útgerðarmaður gengur út með 22 milljarða í vasanum vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, lækkar þessi ríkisstjórn veiðileyfagjöld um helming.
Þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn sem gætir hagsmuna hinna fáu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei farið leynt með það.
Framsókn er ánægð með stöðnun og óbreytt ástand.
Vinstri græn eru íhaldssamur flokkur en prinsippin virðast ekki að þvælast mikið fyrir þeim flokki enda fórna þau öllu fyrir 3 ráðherrastóla.
Við þurfum því nýja ríkisstjórn sem hugsar öðruvísi og starfar öðruvísi.
Við þurfum ríkisstjórn sem byggir upp öfluga byggðakjarna út á landi. Byggja á Akureyri upp sem öfluga miðstöð Norðurlands sem borg en ekki bæ, og byggja upp Ísafjörð, Reykjanesbæ, Vestmannaeyjar, Skagafjörð, Árborg, Fjarðarbyggð, Fljótsdalshérað og önnur bæjarfélög á austurlandi með fleiri opinberum störfum, öflugum samgöngum og tækifærum.
Við þurfum ríkisstjórn sem hugsar um litlu fyrirtækin, iðnaðarmennina, einyrkjana, listamennina og búðareigendur en ekki aðeins um stóru fyrirtækin og stórútgerðina.
Og við þurfum ríkisstjórn sem hættir að vísa börnum úr landi og sem klárar stjórnarskrármálið.
Þetta er allt saman hægt en þá þarf fólk að kjósa með hjartanu, kjósa með velferðinni, kjósa með frelsinu en ekki aðeins frelsi markaðarins og hins stóra, heldur einnig með frelsinu undan fátækt og vanlíðan.
Góðir Íslendingar
Gerum betur og hættum að skilja fólk út undan eins og þessi ríkisstjórn gerir.
Í samfélagi okkar jafnaðarmanna er enginn undanskilinn.
Góðar stundir