Jöfn og frjáls!
Grein eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur, varaformann Samfylkingarinnar og borgarfulltrúa, sem birtist fyrst á Vísi 19. júní
Á Kvenréttindadaginn minnumst við langrar og erfiðrar baráttu kvenna fyrir kvenfrelsi, kosningarétti og kjörgengi og dagurinn í ár var jafn hátíðlegur og hvetjandi og alltaf. Við gleymum nefnilega oft í dagsins önn að þakka þeim konum sem tóku slaginn fyrir kynsystur sínar og kröfðust þess að konur væru líka menn. Um leið og við fyllumst þakklæti og lítum til baka þá er líka mikilvægt að horfa fram og velta fyrir sér hvar erum við stödd.
Við eigum því miður enn langt í land að ná fullkomnu jafnrétti á Íslandi og birtingarmyndir þess samfélagsbundna óréttlætis eru margar og þekktar. Þar má nefna launamun kynjanna, kynbundið ofbeldi, kynbundin forystuhlutverk, hlutfall viðmælenda fjölmiðla og svo fleira og fleira. Við í Reykjavíkurborg höfum undir stjórn Samfylkingar tekið stór og mikilvæg skref í jafnréttisátt. Við höfum unnið markvisst að því að eyða launamun með þeim árangri að hann mælist varla.
Jafnréttisborgin Reykjavík
Á síðasta kjörtímabili settum við á fót ofbeldisvarnarnefnd sem hefur forgangsraðað aðgerðum hvað varðar heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Við höfum sett viðbragðsreglur um hvernig bregðast skuli við áreitni og ofbeldi starfsemi borgarinnar og við nýtum okkur verkfæri kynjaðrar fjárhagsáætlunar til að reyna að tryggja að áhrif aðgerða okkar og framkvæmda hafi ekki neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna eða jafnrétti almennt.
Til að mynda eiga skólar, íþróttafélög og aðrir að setja sér jafnréttisáætlanir og fylgja þeim. Á síðasta ári höfum við horft mikið til kvenna af erlendum uppruna, fatlaðra kvenna, heimilislausra kvenna, eldri kvenna og hinsegin fólks sem við þurfum að taka með okkur í baráttuna fyrir jöfnum rétti og tækifærum allra. Við erum öll jöfn, við höfum náð miklum árangri í kvennabaráttunni og ef við tökum öll höndum saman getum við náð fullu jafnrétti á Íslandi.