Ræða Albertínu á eldhúsdegi

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir flutti ræðuna sem finna má hér á eldhúsdegi á Alþingi 23. júní 2020.

Ágætu Íslendingar,

 

Að segja að þessi vetur hafi verið í þyngra lagi væru engar ýkjur. Þannig má segja að stormar vetursins hafi afhjúpað hversu varnarlaus við erum og vakið okkur til umhugsunar um hvað raunverulega skiptir máli í lífinu.  

Er það að eiga dýrasta bílinn eða stærsta hjólhýsið?

Nei, það er tíminn sem við verjum með vinum og fjölskyldu.

Kæru Íslendingar. Má segja að þessi vetur hafi sömuleiðis neytt okkur að hugsa út fyrir kassann. Allt í einu gátu fundir farið fram í gegnum fjarfund og fjöldi vinnustaða fluttust inn á heimili landsins. Í framhaldinu hafa fjölmargir vinnustaðir ákveðið að bjóða starfsfólki sínu aukinn sveigjanleika hvað varðar staðsetningu vinnunnar. Þetta mun vonandi opna augu atvinnulífsins og ekki síst hins opinbera fyrir að mögulegt er að auka frjálsræði í búsetuvali.

Við eigum að nota þessi spörk ársins 2020 til að breyta hlutunum og skapa það samfélag sem við viljum búa til framtíðar. Samfélag jöfnuðar þar sem kerfislæga mikilvægum stéttum eins og heilbrigðisstarfsfólki, kennurum og lögregluþjónum eru greidd laun í samræmi við þá miklu ábyrgð sem þau bera.

Ágætu Íslendingar. Við stöndum einnig frammi fyrir öðru risavöxnu verkefni sem hamfarahlýnunin er. Samdrátturinn sem varð á útblæstri í Covid sýndi að við getum enn gert margt til að vinna á þeim vanda, en til þess þurfum við að sýna þessa sömu samstöðu og finna nýjar leiðir til að gera hlutina.

Staðan er grafalvarleg eins og sjá má á hitameti á norðurslóðum sem átti ekki að sjást fyrr en um árið 2100.

Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag aðeins ári á eftir áætlun uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má finna ýmislegt jákvætt sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir lengi eins og ákveðin skref í orkuskiptum og aukna innlenda grænmetisframleiðslu, en kolefnisgjald því miður enn sett í bið og enn skortir á tímasett markmið. 

Það fer sömuleiðis ekki saman hljóð og mynd. Ríkisstjórnin eyrnamerkir aðeins 9 milljarða loftslagsmálunum, en er á að undirbúa kaup á losunarheimildum fyrir allt að 10 milljarða vegna losunar umfram heimildir Íslands 2013-2020 eða 21%.

Þá spyr ég. Ef við erum raunverulega til í 40% samdrátt, og jafnvel meira – af hverju sömdum við þá ekki um það við Evrópusambandið? Er það vegna þess að ríkisstjórnin er í raun og veru ekki tilbúin til að skuldbinda sig til svo mikils samdráttar, þó hún veifi þeirri tölu hérna heima? Bæði Noregur og Evrópusambandið hafa sett markið mun hærra með 55% samdrætti.

Þá hefur þessi ágæta vinna því miður ekki skilað sér inn í stór mál hér í þinginu eins og samgönguáætlun, ekki frekar en þau markmið sem voru í fyrri áætlun. Það er full ástæða til þess að virkja þingið betur í þeirri vinnu sem þarf að vinna til þess að ná raunverulega árangri í loftslagsmálunum.

Ágætu Íslendingar. Á síðustu áratugum hafa lifnaðarhættir okkar breyst og við gerum æ meiri kröfur til samfélagslegra innviða. Á alla þessa innviði hefur reynt síðustu vikur og mánuði og ýmsir brestir komið í ljós.

Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að stuðla að velferð og öryggi fólks með eflingu innviða um allt land. Samhliða því þurfum við að vinna að uppbyggingu kjarnasvæða um landið. Það heppnaðist vel að byggja upp borg í Reykjavík – nú þurfum við að byggja upp fleiri borgir til að skapa aukið jafnvægi í landinu, líkt og vísir er að á Akureyri. Lykilorðið hér er enn og aftur aukinn jöfnuður. Við þurfum að taka djarfar ákvarðanir og auka jöfnuð milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðanna.

Kæru Íslendingar. Munum að heimurinn er ekki svart-hvítur heldur er hann litaður öllum regnbogans litum. Staðreyndin er að þó að við eigum okkur ef til vill uppáhaldslit þá er enginn einn litur betri en annar. Alveg eins og við höfum ólíkan hörundslit, erum af ólíkum kynjum, veljum okkur maka af ólíkum kynjum og veljum okkur ólíkar leiðir í lífinu – þá eigum við öll að vera jöfn í augum samfélagsins og laganna og hafa tækifæri til að lifa því lífi sem við sem við veljum að lifa, hvar sem við veljum að lifa því.

Okkur ber að tryggja það.

Njótið sumarsins.