Stefna sem eflir fólk af erlendum uppruna samþykkt á Alþingi

Tillaga Samfylkingarinnar um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna var samþykkt á Alþingi.

Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu Guðjóns S. Brjánssonar þingmanns Samfylkingarinnar. Með henni felur Alþingi félags- og barnamálaráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra að móta stefnu fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna sem hafi það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Sérstaka áherslu verður lögð á félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnuþátttöku þannig að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir lífi án mismununar.  Ráðherra skal kynni stefnuna fyrir Alþingi í upphafi 151. Löggjafarþings.

Vinnum að því að gera það hluta af samfélagssáttmála okkar að vera þjóðin sem veit og skilur hvað innflytjendur skipta miklu máli.

Guðjón S. Brjánsson Þingmaður Samfylkingarinnar

Ísland er nú statt í innflytjendamálum þar sem mörg nálæg lönd voru fyrir mörgum árum eða áratugum og stjórnvöld ættu að geta dregið lærdóm af reynslu og uppbyggilegri þróun á ýmsum sviðum þessa málaflokks hjá öðrum þjóðum. Bætt staða innflytjenda á Íslandi og stefnumótun á þessu sviði er réttlætismál en líka mikilvægur þáttur í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags sem eflir mannauð, eykur fjölbreytni og hagsæld. Hvoru tveggja stuðlar að meiri sköpun, víðsýni og virkjun hugvits samfélaginu til góðs. Jöfnuður, velferð og virk þátttaka allra eru aðalsmerki farsællar samfélagsgerðar og forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs.