Hækkum atvinnuleysisbætur!

Oddný banner

Grein eftir Oddnýju G. Harðardóttur þinflokksformann Samfylkingarinnar sem birtist fyrst í Kjarnanum 13. ágúst.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Um það bil 16.000 manns eru nú atvinnu­lausir og um 6.700 til við­bótar á hluta­bóta­leið­inni með  minnk­uðu starfs­hlut­falli. Hver sá sem lendir í því að missa vinn­una verður fyrir miklu áfalli og það getur dregið dilk á eftir sér. Lang­tíma atvinnu­leysi hefur ekki aðeins slæmar fjár­hags­legar afleið­ingar heldur einnig félags­leg­ar. Atvinnu­leit­endur í árang­urs­lausri atvinnu­leit þurfa því ekki aðeins fjár­hags­legan stuðn­ing heldur einnig and­legan stuðn­ing. Gæta þarf sér­stak­lega að börnum atvinnu­lausra.

Við sjáum ekki fyrir end­ann á afleið­ingum far­ald­urs­ins vegna COVID-19. Von­andi gengur hann yfir sem allra fyrst. Eitt vitum við þó. Þau sem missa vinn­una og fara á atvinnu­leys­is­bætur verða að fá auk­inn stuðn­ing frá stjórn­völd­um. Stjórn­völd virð­ast hafa mik­inn skiln­ing á stöðu fyr­ir­tækja í vanda og á að þau þurfi að búa við ein­hvern fyr­ir­sjá­an­leika í formi stuðn­ings frá rík­inu. Það þurfa heim­ilin líka þó minna hafi borið á skiln­ingi rík­is­stjórn­ar­innar á þeirri þörf.

Töl­urnar tala sínu máli

Strax þegar fólk fer af upp­sagn­ar­fresti og á atvinnu­leys­is­bætur sér það fram á fjár­hags­vanda og erf­ið­leika við að ráða við skuld­bind­ing­ar, t.d. í formi hús­næð­is­lána. Það sér líka fram á að eiga erfitt með að leyfa börnum sínum að taka þátt í félags­starfi sem kostar pen­inga. Þegar þriggja mán­aða launa­tengdu tíma­bili lýkur magn­ast vand­inn.

Ari Skúla­son hjá hag­deild Lands­bank­ans tók saman tölu­legar upp­lýs­ingar um þetta og birti á vefnum lands­banki.­is. Þar segir að með­al­laun séu um 800.000 kr á mán­uði. Tekju­tengdu atvinnu­leys­is­bæt­urnar sem fólk á rétt á í þrjá mán­uði verða ekki hærri en 456.404 kr. á mán­uði og grunnatvinnu­leys­is­bætur sem taka við eru 289.510 kr. á mán­uði. Aug­ljóst er að heim­ili atvinnu­lausra verða fyrir gríð­ar­legu tjóni, með til­heyr­andi afleið­ing­um. Þetta hefur svo marg­feld­is­á­hrif í sam­fé­lag­inu því að um leið verður eft­ir­spurn í hag­kerf­inu minni.

Dreifum byrð­unum

Eigum við að láta þau sem voru svo óheppin að missa vinn­una vegna far­ald­urs­ins taka allt tjónið á sig? Eiga fjöl­skyldur þeirra að líða fyrir far­ald­ur­inn? Nei auð­vitað ekki. Við eigum að dreifa byrð­un­um.  Þannig sam­fé­lagi viljum við búa í.

Við þurfum strax að lengja rétt­inn til tekju­tengdra atvinnu­leys­is­bóta. Við þurfum líka að lengja rétt­inn til grunnatvinnu­leys­is­bóta og hækka þær um leið. Að lág­marki ætti að lengja launa­tengda tíma­bilið í 6 mán­uði og rétt­inn til atvinnu­leys­is­bóta um ár til bráða­birgða. Grunnatvinnu­leys­is­bætur ættu að hækka í 318 þús­und kr núna strax og fara í 333 þús­und kr 1. jan­úar 2021, og verða þannig 95% af lág­marks­laun­um.

Tíma­bundnar ein­greiðslur

Ef þau sem treysta á líf­eyr­is­greiðslur frá Trygg­inga­stofnun og ein­stak­lingar á atvinnu­leys­is­bótum fengju hærri greiðslur frá rík­inu myndi eft­ir­spurnin í hag­kerf­inu aukast um leið, enda ekki rými fyrir sparnað á þeim bæj­un­um. 

Rík­is­stjórn Ástr­alíu ákvað strax þegar áhrif COVID-19 komu fram þar í landi að líf­eyr­is­þegar og atvinnu­lausir fengju sér­staka ein­greiðslu ofan á lög­bundnar greiðsl­ur. Þetta eru 550 ástr­alskir doll­arar hálfs­mán­að­ar­lega til 24. sept­em­ber í ár og 250 doll­ara frá 25. sept­em­ber -31. des­em­ber. Þetta gera Ástr­a­lar til að bæta stöðu heim­ila í fjár­hags­vanda en einnig til að auka eft­ir­spurn­ina í hag­kerf­inu.

Tökum Ástr­ali okkur til fyr­ir­myndar í þessum efn­um.