Ungt fólk til þátttöku

Tryggjum áhrif og sýnileika ungs fólks á landsfundi Samfylkingarinnar.

Ný stjórn Ungra jafnaðarmanna hefur tekið til starfa sem kjörin var á fjölsóttu landsþingi hreyfingarinnar 5. september þar sem yfir 300 einstaklingar tóku þátt. Landshreyfingin vill beita sér fyrir því að ungt fólk alls staðar á landinu sé áberandi í starfi Samfylkingarinnar og að ungt fólk hafi sterka rödd innan stjórnmálaflsins. Sömuleiðis hefur ný stjórn það að markmiði að endurvekja aðildarfélög Ungra jafnaðarmanna um land allt - og er sú vinna hafin.
Nú líður senn að Landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn verður 6. og 7. nóvember næstkomandi og er skráning á fundinn í fullum gangi. Ég vil fyrir hönd Ungra jafnaðarmanna biðla til aðildarfélaga sem sjá um kjör fulltrúa á Landsfund, að hlutfall ungs fólks (á aldrinum 16-35 ára) verði ekki minna en hlutfall þeirra í hverju aðildarfélagi.
Bið ég ykkur að tryggja þetta við kjör landsfundarfulltrúa. Allar upplýsingar um aldursdreifingu innan aðildarfélaga eiga að vera aðgengilegar í félagatölum þeirra.
Stjórnmálahreyfingar hafa undanfarið verið gagnrýndar fyrir það að vera ekki opnar ungu fólki. Sýnum í verki að þetta eigi ekki við um Samfylkinguna - jafnaðarmannaflokk Íslands og tryggjum rétt hlutföll, áhrif og sýnileika ungs fólks á Landsfundi hreyfingarinnar.
Þau sem gegna formennsku í aðildarfélögum eru hvött til að senda Ungum jafnaðarmönnum upplýsingar um hvar og hvernig er best að skrá sig hjá félögunum.
Tölvupóstur - [email protected]