Frelsi eða fátækt?

Oddný banner

Grein eftir Oddnýju G. Harðardóttur þinflokksformann Samfylkingarinnar sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Í Bandaríkjunum er það kallað að „ameríski draumurinn“ hafi ræst,  þegar fátækt fólk brýtur af sér hlekki fátæktar og tryggir sér og sínum góða afkomu, menntun og bætta stöðu í samfélaginu. Rannsóknir sýna hins vegar að sá draumur er mun líklegri til að rætast á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum.

Eftir fund Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, með forsætisráðherrum Norðurlandanna vorið 2016 sagði hann þetta:

„Heimurinn væri öruggari og farsælli ef fleiri bandamenn væru eins og Norðurlöndin.“

Norræna módelið sem Obama vildi líta til féll ekki af himnum ofan. Það byggir á jöfnuði, samhjálp og félagslegu öryggi og hefur skotið norrænu ríkjunum á topp allra lista yfir ríki þar sem best er að búa. Grunn norræna módelsins og stoðirnar sem undir því standa byggðu jafnaðarmenn í samstarfi við sterka verkalýðshreyfingu og stéttarfélög og hafa staðist ágang frjálshyggjunnar.

Stoðirnar þrjár, góð hagstjórn, velferð fyrir alla og skipulagður vinnumarkaður, standa saman eins og fætur undir þrífættum stól: ef ein stoðin brotnar fellur allt.

Á Íslandi, einu ríkasta ríki heims, þrífst fátækt. Þúsundir barna búa hér við sárafátækt eins og greiningar hafa því miður ítrekað sýnt. Öryrkjar og aldraðir með litlar tekjur eru fastir í fátæktargildru. Þau eiga allt sitt undir stjórnvöldum, að greiðslurnar sem þau fá frá hinu opinbera dugi fyrir mannsæmandi lífi. Svo er ekki nú um stundir.

Og nú í heimsfaraldri bætast við öll þau sem misst hafa vinnuna.  

Grunnatvinnuleysisbætur eru langt undir lágmarkslaunum og þeir fjölmörgu sem nú þurfa að framfleyta sér og sínum á slíkri hungurlús ná ekki lágmarkstekjutryggingu nema að þau séu með þrjú börn eða fleiri á framfæri. Við þeim blasir fátækt og í kjölfarið minnka möguleikarnir sem fólk hefur í lífinu – fátæktin er í sjálfu sér frelsisskerðing.

Þetta þarf ekki að vera svona en er það vegna rangra pólitískra ákvarðana. Vegna þess að stjórnarþingmenn hafa ítrekað fellt tillögur okkar jafnaðarmanna um hærri lífeyrisgreiðslur, hærri greiðslur til barnafjölskyldna og hærri atvinnuleysisbætur.

Hættan á að verða atvinnulaus eða lenda í veikindum og örorku vegna starfsins er mest meðal verkafólks og lágtekjuhópa. Til þess að allir njóti frelsis er ekki nóg að opna einum og einum einstaklingi leið til að brjótast út úr fátækt. Það þarf að sjá til þess að enginn þurfi að búa við fátækt. Til þess að útrýma henni þarf einbeittan pólitískan vilja og aðgerðir sem beinast gegn því sem skapar fátæktina.

Við eigum að horfa til norræna módelsins og vinna af heilum hug að því að jafna leikinn.

Við í Samfylkingunni stöndum fyrir mannúð, jafnrétti og samhjálp af því að við getum ekki annað, af því að það er það sem jafnaðarmenn gera.

Við í Samfylkingunni stöndum fyrir mannúð, jafnrétti og samhjálp af því að við getum ekki annað, af því að það er það sem jafnaðarmenn gera.