Gjörbylting í málefnum heimilislausra hjá Reykjavíkurborg

Heiða Björg,

Ný smáhýsi bylting í málefnum heimilislausra

Fyrstu smáhýsin, sem ætluð eru heimilislausum með vímuefna- og geðvanda, hafa nú verið sett upp og munu von bráðar vera tekin í notkun. Fyrstu íbúarnir munu geta flutt inn í nóvember. Húsunum hefur verið komið fyrir í Gufunesi og munu íbúar hafa góðan aðgang að þjónustu og stuðningi frá borginni. Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkur (VoR) mun sinna virkri vettvangþjónustu fyrir íbúana en teymið starfar eftir humyndafræðinni "húsnæði fyrst" sem hefur gefst mjög vel t.d. í Belgíu, Finnlandi og Svíþjóð. Árangur slíkrar vinnu hjá örðum borgum hefur sýnt sig og sannað og er Reykjavíkurborg að byggja á sömu hugmyndafræði sem bætir stöðu heimilislausra til muna í borginni.

Húsin í Gufunesi eru þau fyrstu af mörgum sem munu rísa víðvegar um borgina. Tekið er tillit til óska íbúa um hvar þau vilja búa og félagslegrar tenginga við svæðin. Húsin eru fyrst sinnar tegundar á Íslandi og eru góð og mikilvæg viðbót í húsnæðiskosti sem standa heimilislausum til boða.

Þetta er gríðarlega mikilvægt því húsnæði er oft fyrsta skrefið til að ná fótfestu í lífinu. Húsnæði fyrst stefnan hefur skilað meiri árangri víða um heim en áður hefur náðst til að draga úr langtímaheimilisleysi. Jafnframt leiðir þjónustan til betri lífsgæða þjónustuþega og aðstandenda og dregur úr álagi á nærsamfélag, stofnanir ríkis og sveitarfélaga og dregur þar með úr kostnaði

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarnefndar Reykjavíkur og varaformaður Samfylkingarinnar