Mótmælum aðhaldskröfu í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar

Samfylkingin kallar eftir fjármálastefnu sem mætir þeim aðstæðum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það þarf að hugsa stærra og lengra fram í tímann, draga úr aðhaldskröfum á opinberar stofnanir og verja fjárhag heimila. 

Hugsum stórt og verum djörf

Samfylkingin vill að ráðist verði í fjölbreyttar fjárfestingar eins og stórátak í nýsköpun og umhverfismálum, sjónvarps- og kvikmyndagerð, umfangsmikla grænmetisframleiðslu, eflingu liststarfsemi, hönnunar og rannsókna, tækniþróun í heilbrigðisþjónustu og stafrænum lausnum af ýmsum toga, öflugum iðnaði, og samgönguumbótum svo eitthvað sé nefnt.

Nú er ekki tíminn fyrir aðhaldskröfur

Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er haldið  í sérstaka aðhaldskröfu á þessu ári og næstu 2 árin á sjúkrahús, heilsugæslur, öldrunarstofnanir og skóla, sem eru allt stofnanir sem nú eru þandar til hins ítrasta. Einnig er gerð aðhaldskrafa á listafólk, menningu, nýsköpun, rannsóknir og aðra opinbera starfsemi sem ætti ekki að búa við aðhaldskröfu á þessum tímum. Samfylkingin leggur því til að fyrirhugaðaðar aðhaldskröfur á opinberar stofnanir verði lagðar af.

Verjum velferðina
Í fjármálastefnunni kemur einnig fram að ekkert verði bætt í bætur velferðarkerfisins á næstu árum „nema til komi samsvarandi lækkun útgjalda í öðrum tilfærslukerfum“ eins og þar segir. Það er öllum augljóst nema ríkisstjórnarflokkunum  að hér þarf sums staðar að bæta verulega í vegna ástandsins.

Á þessu ári hefur fækkað um 20.000 störf á íslenskum vinnumarkaði  en síðan eru önnur 20.000 manns atvinnulaus. Fjármálaráð segir í umsögn sinni: „Stærsta og alvarlegasta efnahagslega afleiðing núverandi ástands er mikið atvinnuleysi.“

Blóðugur niðurskurður 2022?

Gildistími stefnunnar er einungis til og með árinu 2022. Eftir 2022 stefnir, að öllu óbreyttu, í blóðugan niðurskurð þar sem þá munu hinar ströngu fjármálareglur Sjálfstæðisflokksins taka aftur gildi. Þær reglur gera t.d. ráð fyrir að afkoma hins opinbera verði jákvæð yfir fimm ára tímabil og mjög hröð lækkun ríkisskulda sem er engin leið að ná nema með niðurskurði á þjónustu þeirra sem nýta sér opinbera þjónustu, s.s. aldraða, námsmanna, sjúklinga, öryrkja og fátækra. Samfylkingin vekur sérstaklega athygli á stöðu sveitarfélaga en þau eru mörg hver í miklum vanda og skortir fjármagn til að sinna auknum verkefnum í grunnþjónustu eins og skólamálum og félagsþjónustu.

Í svona djúpri kreppu telja fræðimenn að í raun geti hið opinbera ekki gert of mikið. Séu mistök stjórnvalda í fyrri kreppum greind kemur í ljós að þau liggja helst í því að það hafi verið gert of lítið. Því er ljóst að bregðast verður við með að skapa störf og hækka atvinnuleysisbætur til þess að skapa ekki neyð á þúsundum heimila á Íslandi

Ágúst Ólafur Ágústsson Þingmaður