Saman hámörkum við gæðin 

Helga Vala,

Grein eftir Helgu Völu Helgadóttur þingmann Samfylkingarinnar sem birtist fyrst í Grafarvogsblaðinu, september útgáfunni.

Helga Vala Helgadóttir Þingmaður

Fjölskyldan, vinahópurinn, gatan, hverfið, íþróttafélagið, stjórnmálaflokkurinn, þjóðin, álfan og heimurinn. Þetta er lítill hluti þeirra mengja, eða hópa,  sem við getum tengt okkur við, þar sem þeir sem rúmast innan hópanna deila einhverju sameiginlegu og geta staðið með. En til þess að samstaðan virki sem best þurfum við að finna það í verki að allir standi jafnfætis í hópnum. Að allir í hópnum fái sömu tækifæri. Þannig fáum við alla í hópnum til að hlaupa í sama takti að sama markmiði.  

Markmið okkar sem störfum í stjórnmálum hlýtur að vera að tryggja einmitt þetta. 

Jafnræði og þar af leiðandi samstöðu hópsins um að bæta lífsskilyrði flestra. 

Ef íbúarnir upplifa misrétti kemur fljótlega í ljós hvati til að reyna að komast framar í röðina á kostnað þeirra sem lengur hafa beðið og eiga erfiðara um vik. Á tímum eins og þeim sem við upplifum núna, þar sem harðnar í ári nánast um allan heim, þarf sérstaklega að vera vakandi og gæta að jöfnuði og jafnrétti. Þá er brýnt að vekja stjórnvöld til meðvitundar um að tryggja hag alls almennings og þá fyrst og fremst vernda þá sem höllustum fæti standa og þurfa stuðning.  

 

Við á Íslandi eru heppin, því við erum gott og vel stætt samfélag. Við erum rík af mannauði og rík af auðlindum. Við búum vissulega við magnaða og á köflum hættulega náttúru sem getur haft mikil áhrif á líf okkar en hún er líka okkar auðlind sem gerir okkur gott. Okkar ríka samfélag er því tilvalið til að jafna kjörin, minnka neyðina og koma með öllum tiltækum ráðum í veg fyrir fátækt barna og fullorðinna. Það er ótækt í jafn ríku samfélagi að hér búi þúsundir barna við sára fátækt. Saman ættum við öll að krefjast úrbóta því fátækt bitnar harkalega á samfélaginu öllu. Það er ekki svo að þessi staða sé eitthvert náttúrulögmál og að ef hlutfall fátækra í samfélagi minnki þá skerðist ríkidæmi annarra. Það er alls ekki svo því fræðin sýna einmitt að þar sem jöfnuður er meiri, þar er meiri hagvöxtur og samfélagið allt græðir.  

 

Til þess að auka jöfnuð á Íslandi þurfum við öll, íbúar landsins að láta okkur málið varða. Það getum við gert með fjölmörgum hætti, inni í okkar hópum, hvort sem um er að ræða inni í foreldrafélögum í skólunum, hverfisráðum, íþróttafélögum, stjórnmálaflokkum eða mannræktarsamtökum þá getum við látið gott af okkur leiða. Með samfélagsvitund verðum við meðvitaðri um stöðu hvers annars. Við höfum náð að standa saman og mynda almannavarnir gegn veiru, við eigum líka að geta staðið saman að góðum kjörum allra landsmanna til framtíðar. Ekki einn hópur gegn öðrum heldur einmitt saman til að jafna lífsskilyrði eins margra og okkur er unnt. Saman hámörkum við gæðin, en þá þurfa leikreglurnar að vera útfærðar á jafnræðisgrundvelli.