Stefnu­mót um vel­ferð

Grein eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur, varaformann Samfylkingarinnar og borgarfulltrúa, sem birtist fyrst á Vísi 22. september.

Heiða Björg Hilmisdóttir Borgarfulltrúi og formaður Velferðaráðs Reykjavíkurborgar

Hvernig við viljum sjá Velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar þróast á komandi árum og áratug er til umræðu í dag á fjölmennu málþingi þar sem saman koma yfir 300 manns, notendur, hagsmunaaðilar, fagfólk, stjórnmálafólk og starfsfólk. Þetta er liður í stefnumótun sem hófst með því að Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti að móta heildstæða velferðarstefnu fyrir Reykjavík til ársins 2030. Áskoranir í velferðarþjónustu á 21. öldinni eru margar og framundan eru miklar samfélagsbreytingar, breytingar í tækninni, í umhverfinu í kröfum til þjónustu og samfélaginu. Við þurfum því að sameinast um sýn á það hvert við viljum stefna og hvaða skref við viljum taka til að ná þangað.

Gerum þetta saman

Eitt af markmiðum stefnumótunarinnar er að flétta inn notendasamráð á öllum stigum og það kallar á grundvallarbreytingar í samskiptum, viðmóti og samráði við notendur og aðstandendur þeirra. Við ákváðum því að hefja stefnumótunina á því að kalla eftir sögum af velferðarþjónustu borgarinnar frá borgarbúum, skoðunum og ábendingum notenda, hagsmunaaðila og starfsmanna. Við höfum lagt ríka áherslu á að ræða við sem flesta, fá fram sjónarmið ólíkra aðila, hlusta, heyra hvað ólíkir hópar hafa að segja og nú þegar hafa yfir 700 einstaklinga og hagsmunaaðilar haft aðkomu sem er bæði gleðilegt og þakkarvert. Skýrt merki um það að velferðarþjónusta skiptir borgarbúa svo sannarlega miklu máli.

Horfum til framtíðar

Með allt þetta í farteskinu leggur stýrihópur um velferðarstefnu, sem ég fer fyrir, nú fram drög að stefnu sem við munum ræða og dýpka á málþinginu og það er von mín að samstað náist þó málaflokkarnir séu ólíkir og umræðuefnið víðfeðmt. Velferðarráð hefur á undanförnum árum samþykkt stefnu í flestum þeim málaflokkum sem heyra undir sviðið, ss. í málefnum aldraðra, fatlaðs fólks, barnavernd, húsnæðismálum og velferðartækni. Stefnt er að því að velferðarstefnan muni rúma þessar stefnur auk þess að setja fram leiðarljós, gildi, markmið og verk- og tímaáætlun til 5-10 ára.