Til framtíðar fyrir fólkið í landinu

Stjórnmálaályktun: Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að staðið verði við þau fyrirheit að endurreisn velferðarkerfisins skuli vera algjört forgangmál. Þess sjást lítil merki í áherslum núverandi ríkisstjórnar. Í því sambandi er algjört forgangsatriði að tryggja samfélagslegan arð af auðlindum þjóðarinnar þar sem fullt gjald komi fyrir afnotin.
Það hefur sjaldan verið eins ljóst að þörf er á miklum breytingum í kvótakerfinu þar sem hagsmunir þjóðarinnar verði hafðir að leiðarljósi. Hópur útgerðarmanna hefur á liðnum árum fengið að nýta sameiginlega auðlind okkar allra í sína eigin þágu og m.a. til að styðja hið afturhaldssinnaða málgagn sitt sem hefur tapað hundruðum milljóna á liðnum árum.
Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og hverfa frá núverandi, ótímabundnum sérleyfum í viðráðanlegum skrefum með útfærslu kerfis sem tekur tillit til byggðasjónarmiða, kemur í veg fyrir samþjöppun og virðir sérstöðu minni útgerða. Á þann hátt eru hagsmunir hinna dreifðu byggða landsins betur tryggðir og útgerðarmönnum er gert skylt að skila auknum hluta arðsins aftur til samfélagsins.
Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi fagnar áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum og hvetur stjórnvöld til þess að stuðla að frekari rannsóknum og skynsamlegri nýtingu á lífríkinu í fjörðunum þar sem það stuðlar að auknum atvinnumöguleikum á svæðinu. Það er undirstaða þess að sporna gegn fólksfækkun og auka lífsgæði í byggðunum, samfélaginu öllu til heilla.
Margvíslegar úttektir leiða í ljós að ójöfnuður eykst og eignir og fjármunir færast á stöðugt færri hendur á meðan stórir hópar í samfélaginu ná ekki endum saman. Það er krafa Samfylkingarinnar að þessu linni og snúið verði af braut sérhagsmunagæslu.
Tryggja þarf eftir megni jöfn tækifæri fólks, hvar sem er á landinu, til framfærslu, bóknáms-, verknáms- og símenntunar, grunnþjónustu, atvinnuþátttöku, samfélagslegrar virkni og fjölþættra tækifæra til nýsköpunar. Krafa er um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Þess er jafnframt krafist að snúið verði af braut sveltistefnu gagnvart hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum.
Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi leggur þunga áherslu á tafarlausar umbætur í samgöngumálum. Kjördæmið hefur setið eftir árum saman að þessu leyti og umferðaþungir vegakaflar eru orðnir lífshættulegir eins og dæmin sanna. Hefja þarf framkvæmdir eins og við endurgerð vegakaflans um Kjalarnes að Borgarfjarðarbrú með styttingu leiða milli byggðarkjarna í huga og umhverfisvæna kosti í samræmi við baráttuna um bætt loftslag. Einnig er löngu orðið tímabært að vegaumbætur við Vatnsnesveg og Skagastrandarveg fari að komast af stað eftir langa bið. Þá er þjóðarskömm að enn skuli framkvæmdum í Gufudalssveit ekki vera lokið eftir áratuga þref.
Full ástæða er til að fagna því að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng sé að ljúka. Þar með hillir undir langþráð markmið um samtengingu norður- og suðurhluta Vestfjarða. Krafa er gerð um að vegaframkvæmdum á Dynjandisheiði og í Arnarfirði verði hraðað þannig að nýr vegur geti stutt við ný Dýrafjarðargöng. Þá er fyllilega tímabært að jarðgangaframkvæmdir undir Mikladal og Hálfdán og við Súðavík verði strax settar í nýja jarðgangaáætlun.
Mikilvægt er að á Íslandi fái þrifist öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sem er undirstaða þess að fólk geti haft lífsviðurværi á landsbyggðinni og þess samhliða gætt að réttindi verkafólks séu virt í hvívetna. Þá er það skýlaus krafa að málefni innflytjenda og flóttafólks fái réttláta og sanngjarna meðferð í stjórnkerfinu.
Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi telur mikilvægt að viðhalda góðum árangri sem náðst hefur víða um land með áframhaldandi stuðningi við grasrótarstarf í samvinnu við íþrótta- og æskulýðssamtök. Einnig þarf að halda áfram að styðja við lista- og menningarstarf á landsbyggðinni sem er undirstaða öflugs félagsstarfs víða um land.
Til að halda landinu öllu í byggð þarf að styrkja dreifikerfi rafmagns. Samfylkingin krefst þess jafnframt að samræmt raforkuverð til neytenda um allt land verði að veruleika. Nauðsynlegt er að þrýsta á stjórnvöld um að hraða lagningu þriggja fasa rafmagns og ljósleiðara, en það skiptir mörg fyrirtæki og landbúnað í kjördæminu gríðarlega miklu máli. Sérstaklega þarf að hafa í huga átak í ljósleiðaravæðingu smærri þéttbýlisstaða.
Stuðla þarf að sjálfbæru landbúnaðarkerfi sem eykur hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarafurða og tryggir þannig aukna verðmætasköpun. Til þess þarf að minnka miðstýringu tengda framleiðslukvótum og niðurgreiðslum framleiðenda. Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera hverjum og einum fært að einbeita sér að enn grænni búskap sem með hæfni þeirra og kostum jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör.
Síendurskoðuð fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna staðfestir að engra breytinga er að vænta varðandi fólk sem höllustum fæti stendur í samfélaginu og við það verður ekki unað. Eldri borgarar, öryrkjar, fatlaðir og margir aðrir þjóðfélagshópar hafa setið eftir í viðjum fátæktar og dæmt til að sækja sér aðstoð til hjálparsamtaka. Á þessum fordæmalausu tímum er atvinnulausum einstaklingum svo boðið upp á rúmar 240 þúsund krónur eftir skatt undir forystu Vinstri grænna. Hjálparhöndin getur verið langt undan þegar ráðherrastólar og félagsskapur íhaldssamra afla eiga í hlut.
Krafan um lýðræðisumbætur og auðlindir í þjóðareigu með nýrri stjórnarskrá er enn í fullu gildi. Virða skal lýðræðislegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem var gerð fyrir fólkið í landinu af hópi fólks sem var ekki bundinn af eigin hagsmunum. Gera þarf breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum leikreglum sem nýtast samfélaginu og atvinnugreininni. Sjálfbærni og virðing fyrir náttúru og umhverfi eiga að vera forsenda við nýtingu auðlinda landsins og grundvöllur heildstæðrar auðlindastefnu.
Réttlæti, sanngirni, trúverðugleiki og heilindi eru forsenda heilbrigðra stjórnarhátta. Jafnaðarmenn eiga nú sem fyrr að fylkja sér um velferðina, samneysluna og ábyrgð í stjórnmálum undir merkjum Samfylkingarinnar.
Samantekt á stjórnmálaályktun
Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi telur algjört forgangsatriði að tryggja samfélagslegan arð af auðlindum þjóðarinnar þar sem fullt gjald komi fyrir afnotin. Heppilegasta leiðin til að ákvarða gjald fyrir ótímabundin sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og hverfa hið fyrsta frá núverandi kerfi í viðráðanlegum skrefum og útfæra nýtt kerfi með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Lögð er áhersla á áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum og stjórnvöld eru hvött til þess að stuðla að skynsamlegri nýtingu á lífríkinu í fjörðunum þar sem það stuðlar að auknum atvinnumöguleikum á svæðinu.
Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi leggur þunga áherslu á tafarlausar umbætur í samgöngumálum. Kjördæmið hefur setið eftir árum saman að þessu leyti og umferðaþungir vegakaflar eru orðnir lífshættulegir eins og dæmin sanna. Hefja þarf framkvæmdir eins og við endurgerð vegakaflans um Kjalarnes að Borgarfjarðarbrú. Vatnsnesveg, Skagastrandarveg, Dynjandisheiði og í Arnarfirði. Þá er fyllilega tímabært að jarðgangaframkvæmdir undir Mikladal og Hálfdán og við Súðavík verði strax settar í nýja jarðgangaáætlun.
Stuðla þarf að sjálfbæru landbúnaðarkerfi sem eykur hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarafurða og tryggir þannig aukna verðmætasköpun. Til þess þarf að minnka miðstýringu tengda framleiðslukvótum og niðurgreiðslum framleiðenda. Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera hverjum og einum fært að einbeita sér að enn grænni búskap sem með hæfni þeirra og kostum jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör.
Krafan um lýðræðisumbætur og auðlindir í þjóðareigu með nýrri stjórnarskrá er enn í fullu gildi. Virða skal lýðræðislegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem var gerð fyrir fólkið í landinu af hópi fólks sem var ekki bundinn af eigin hagsmunum.
Stjórnmálaályktun
kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi
Borgarnesi, 13. september 2020