Tillögur í þágu almennings

Þingflokkur Samfylkingarinnar leggur til fjórar breytingar á frumvarpi félagsmálaráðherra um breytingar á ýmsum lögum til að mæta efna­hagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Helga Vala Helgadóttir þingmaður er flutningsmaður breytingartillaganna.

Áhrif kreppunnar í kjölfar COVID-19-faraldursins bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Til að dreifa byrðum og draga úr tekjufalli heimila landsins er mikilvægt að hækka atvinnuleysisbætur. Leggur þingflokkur Samfylkingarinnar því til að þær hækki í að minnsta kosti eitt ár. Fátækt er pólitísk ákvörðun sem stjórnvöld geta og eiga að koma í veg fyrir. Samfylkingin  leggur einnig til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021. Hlutabótaleiðin var vel heppnuð aðgerð sem fyrst og fremst gekk út á að að viðhalda ráðningarsamningi í ástandi þegar atvinnuleysi eykst mikið. Stjórnvöld tóku því miður þá ákvörðun sl. vor að beina fyrirtækjum frekar í það úrræði að segja upp fólki með stuðningi stjórnvalda í uppsagnarfresti en að liðka til fyrir fyrirtæki að viðhalda ráðningarsambandi. Samfylkingin leggur til að heimild til greiðslu launa í sóttkví nái einnig til þeirra tilvika þegar foreldrar geta ekki sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiða til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns undir 18 ára aldri sem hann hefur forsjá með en þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þó að barnið hafi ekki sætt sóttkví. Samfylkingin ítrekar nauðsyn þess að stjórnvöld komi til móts við námsmenn. Lánshæfi miðast við nám að lágmarki 22 ETCS einingar á önn. Þannig liggur fyrir að þeir námsmenn sem stunda nám undir þeim einingafjölda eigi ekki rétt á námslánum. Leggur Samfylkingin því til að einingaviðmið verði hækkað að 22 einingum svo komið sé til móts við þá námsmenn sem ekki geta verið í fullu námi og þeim veitt heimild til töku atvinnuleysisbóta.

Nálgast má nefndarálit með breytingartillögum hér.