Gunna Ö. og RBG

Greinin birtist fyrst í Bakþönkum Fréttablaðsins 2. október

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir Framkvæmdastjóri Almannaróms og varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður

Þær eru margar fyrirmyndirnar í lífinu. Í mínu tilviki standa tvær fremstar meðal jafningja, fyrir óþreytandi mannréttindabaráttu alla sína starfsævi. Guðrún Ögmundsdóttir og Ruth Bader Ginsburg, betur þekktar sem Gunna Ö. og RBG. Báðar voru þessar merkiskonur lagðar til hinstu hvílu á árinu sem nú fer bráðum að ljúka – vonandi án frekari hamfara.

Rám röddin, óendanleg hlýjan og almenn skemmtilegheit gerðu Gunnu Ö. að uppáhaldi allra. Hvar sem hún staldraði við brást ekki að hún stóð vaktina sem óþreytandi baráttukona fyrir mannréttindum allra og veitti þeim sem þurftu aðstoð. Alls staðar tókst Gunnu Ö. að gera alla sem kynntust henni að betri manneskjum.

RBG dáðist ég að úr fjarlægð. Þrátt fyrir að útskrifast með hæstu einkunn úr laganámi gekk henni illa að finna vinnu við hæfi, hún var kona og árið 1959. Á tveggja ára tímabili, 1973-1975, flutti RBG sex mál sem vörðuðu jafnrétti kynjanna fyrir hæstarétti Bandaríkjanna og vann fimm þeirra. Eitt þeirra tryggði konum sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama. Seinna varð RBG dómari við þennan sama hæstarétt. Ef ykkur finnst þetta ekki nóg þá gat hún líka, á níræðisaldri, gert hliðarplanka.

Gunna Ö. og RBG náðu því í gegn sem þær ætluðu sér, þvert á flokkslínur og alltaf í þágu annarra. Þær gáfust aldrei upp heldur örkuðu áfram með hugsjónirnar, eitt skref í einu. Nú þurfum við hin að taka við og gæta réttinda þeirra sem þurfa okkar hjálp. Við skulum öll vera meira eins og Gunna Ö. og RBG.