Græn atvinnubylting: Setjum markið miklu hærra í loftslagsmálum 

Samfylkingin vill að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum verði endurskoðuð og að Ísland setji sér loftslagsmarkmið sambærileg þeim sem Evrópusambandið styðst við. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í riti sem þingflokkur Samfylkingarinnar gaf út í gær, Ábyrga leiðin: úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar.

Til þess að ná árangri í loftslagsmálum þarf að stórefla stjórnsýslu loftslagsmála, skerpa á sjálfstæði og aðhaldshlutverki loftslagsráðs og lögbinda markmið um minnst 55 prósenta samdrátt gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. 

Nú þegar heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt af sér framleiðsluslaka og fjöldaatvinnuleysi þarf að forgangsraða þeim loftslagsaðgerðum sem hafa örvandi áhrif á eftirspurn og atvinnustig í landinu. Við þessar aðstæður er ábyrgt og skynsamlegt að ríkið nýti góð vaxtakjör og fjárfestingasvigrúm til að ráðast í kraftmikla uppbyggingu almenningssamgangna og fjárfestingar sem auka verðmætasköpun og framleiðslugetu þjóðarbúsins til langframa og undirbyggja nýjar og umhverfisvænar útflutningsstoðir. 

Á meðal þeirra fjölmörgu aðgerða sem lagðar eru til í Ábyrgu leiðinni eru eftirfarandi:

  • Stofnum grænan fjárfestingasjóð í eigu hins opinbera með fimm milljarða stofnfé sem styður við uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi og græns hátækniiðnaðar.
  • Styðjum við skipulega uppbyggingu iðngarða á Íslandi þar sem afgangsstraumar úr orkuverum nýtast til fjölbreyttrar atvinnu- og verðmætasköpunar. 
  • Hröðum orkuskiptum og lýsum því yfir að óheimilt verði, að meginreglu, að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi frá og með árinu 2025.
  • Styðjum við uppbyggingu rafhleðslustöðva, tryggjum að hleðslustöðvar verði aðgengilegar við allar bensínstöðvar fyrir árið 2023 og eflum flutnings- og dreifikerfi rafmagns til að kerfið standi undir auknu álagi vegna rafvæðingar hafna. 
  • Ráðumst í skógræktarátak með stórauknum framlögum til málaflokksins á næsta ári. 
  • Eflum almenningssamgöngur, styðjum við landsbyggðarstrætó og flýtum Borgarlínuframkvæmdum. Felum nýju félagi um fjármögnun samgönguframkvæmda, Betri samgöngum ohf., að undirbúa flýtingu þeirra framkvæmda í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem skila mestum loftslagsávinningi. 

Markaðsöflin munu ekki leysa loftslagsvandann upp á eigin spýtur. Þetta gildir jafnt um aðgerðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að binda og farga kolefni. Til að Ísland geti dregið með markvissum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýtt sóknarfærin sem felast í sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu þarf hið opinbera að taka frumkvæði með miklu markvissari hætti en gert hefur verið fram að þessu. 

Hér má lesa rit Samfylkingarinnar í heild.