Hækkum greiðslur almannatrygginga!

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, mælti í dag fyrir frumvarpi flokksins um hækkun bóta almannatrygginga. Frumvarpið er eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar í haust.
Með frumvarpinu er lagt til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki í skrefum og nái 368 þúsund krónum árið 2022 í samræmi við lágmarkslaun skv. lífskjarasamningunum.
„Hækkun lífeyris almannatrygginga í samræmi við hækkun lægstu launa er prinsippmál. Nú er svo komið að það munar tugum þúsunda króna á lágmarkslaunum og örorku- og ellilífeyri. Um næstu áramót þegar hækkanir fyrirliggjandi fjárlaga koma til verður munurinn heilar 86 þúsund krónur. Þessu vill Samfylkingin breyta.” - sagði Logi á Alþingi í dag.
Framfærsluviðmið án heimilisuppbótar er í dag 255.834 krónur. Nái frumvarp Samfylkingarinnar fram að ganga kemur upphæðin til með að þróast með eftirfarandi hætti:
Frá 1. apríl 2019: 317.000kr á mánuði (afturvirk hækkun).
Frá 1. apríl 2020: 335.000kr á mánuði (afturvirk hækkun).
Frá 1. apríl 2021: 351.000kr á mánuði.
Frá 1. apríl 2022: 368.000kr á mánuði.
Í frumvarpinu er auk þess áréttað að dregið verði úr ósanngjörnum tekjuskerðingum líkt og Samfylkingin kynnti í Ábyrgu leiðinni.
Stór hópur aldraðra og öryrkja býr við fátækt. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt nýjustu rannsóknum Hagstofu Íslands. Síðustu fjárlög ríkisstjórnarinnar breikka enn frekar lífskjarabilið milli þeirra sem treysta á greiðslur almannatrygginga og launafólks.
Frumvarpið má lesa í heild sinni hér: https://www.althingi.is/altext/151/s/0025.html