Logi: „Mynda þarf græna félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar“

Logi, UJ, formaður, landsþing,

Ræða Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 1. október 2020.  

Á þessum skringilegu tímum verður gangverk samfélagsins nánast áþreifanlegt. Hvert tannhjól hefur áhrif á það næsta og lítil bilun - jafnvel í því minnsta - slævir allt gangverkið.

Sjaldan hefur mikilvægi ríkisvaldsins og sterkrar almannaþjónustu birst jafn skýrt og nú – Aldrei augljósara að heilbrigt samfélag þarf öfluga samneyslu, jöfnuð, fjölbreytni og þátttöku allra.

Fullyrðingar hægrimanna um að reglulítill markaður greiði sjálfur úr öllum vandamálum og skili réttmætum gæðum til almennings dæma sig nú endanlega sjálfar.

Nú eru lausnir jafnaðarstefnunnar - sem byggja á heilbrigðu samspili opinberra umsvifa og einkaframtaksins - mikilvægastar í baráttunni við heimsfaraldurinn: Og ríkisstjórnir um allan heim - jafnt til vinstri og hægri – líta til þeirra kinnroðalaust.

Í heimsfaraldri - og sögulegu atvinnuleysi - getur almenningur á Íslandi líka reitt sig á jafnaðarstefnuna. Einnig í baráttunni gegn hamfarahlýnun.

Með samtakamætti getum við sigrast á þeim áskorunum sem blasa við.  En til þess þarf pólitískan kjark og skýra framtíðarsýn.

Á næstu dögum mun Samfylkingin leggja fram heildstæða áætlun um hvernig Ísland getur brotist út úr atvinnuleysiskreppunni - til móts við grænni framtíð. 

Hún byggir á þremur stoðum: Vinnu – velferð – og grænni uppbyggingu.

Ábyrga leiðin út úr atvinnuleysiskreppunni felst í því að fjölga störfum hratt - bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera um allt land - efla velferð og reisa nýjar grænar stoðir, undir verðmætasköpun framtíðar.

Við þurfum að ráðast í miklu markvissari vinnumarkaðsaðgerðir, taka vel utan um atvinnuleitendur og gera fyrirtækjum kleift að ráða fleiri til starfa.

Koma til móts við sveitarstjórnir landsins; verja mikilvæg störf en umfram allt vernda nærþjónustu fólks. Fjárfesta í heilbrigðisþjónustu og menntun: Hefja stórátak gegn undirmönnum almannaþjónustunnar, það mun borga sig margfallt. 

Síðast en ekki síst þurfum við að stíga miklu fastar til jarðar í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Við núverandi aðstæður dugar nefnilega ekkert minna en – raunveruleg  græn atvinnu bylting!

Það er ódýrt að heyra forsætisráðherra tala um „græna byltingu“ þegar hún leggur sama dag fram fjárlög og fjármálaáætlun sem gefa engin fyrirheit um slíkt.

Það er ekki græn bylting þegar Ísland setur sér veikari loftslagsmarkmið en Danmörk og Noregur.

Ekki græn bylting þegar losun eykst ár frá ári á vakt þessarar.

Og það er ekki græn bylting þegar ríkið ver minna en einu prósenti af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða.

Abraham Lincoln sagði að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri að skapa hana –  og nú þurfum við að hafa kjark til þess.  Átök íslenskra stjórnmála næsta árið munu - og þurfa – að snúast um hvert skal stefna.

Rétta leiðin - ábyrga leiðin - felst í því að ráðast strax í kraftmikla græna fjárfestingaráætlun, aðgerðir sem vinna gegn hamfarahlýnun en skapa um leið atvinnu og verðmæti fyrir okkur öll.

Græn atvinnubylting er rétta svarið við atvinnuleysinu sem hefur svo lamandi áhrif á samfélagið okkar.

Lánakjör ríkisins eru hagstæð – og nú er tíminn til að fjárfesta myndarlega í hugviti, nýsköpun, þróun, umhverfisvænni atvinnustarfsemi og grænni matvælaframleiðslu; hraða orkuskiptum og stórefla almenningssamgöngur. Þetta þarf að gerast strax!

Ég er sannfærður um að við getum skapað betra og sterkara velferðarsamfélag á Íslandi.

Þar sem ekkert barn fer svangt að sofa - þar sem húsnæðisöryggi er jafn sjálfsagt og aðgangur að vatni og lofti. Þar sem gjaldmiðillinn er stöðugri og matarkarfan ódýrari. Þar sem atvinnulausir, öryrkjar og fátækt fólk búa ekki við nístandi óvissu frá degi til dags.

Þar sem hvers kyns mismunun er hafnað, velferð innflytjenda tryggð og börnum á flótta veitt skjól.

Samfélag sem einkennist af mannúð og sjálfbærni, jöfnuði og frelsi.

Þannig samfélag sköpum við ekki nema með réttlátari skattbyrði, minni ójöfnuði, heilbrigðari og fjölbreyttari vinnumarkaði.

Ekki heldur nema við virðum niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá, aukum alþjóðasamvinnu og tryggjum að þjóðin fái réttmætan arð af auðlindum sínum.

Og aldrei nema við sýnum meiri metnað í loftlagsmálum.

Kæru landsmenn.

Við stöndum andspænis gríðarlega flóknum verkefnum sem verða ekki öll leyst á stuttum tíma. En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri og hrista af okkur gamaldags kreddur um það hvernig ríkisfjármál virka og hvernig verðmæti verða til.

Á svona tímum höfum við ekki efni á því að leyfa hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og fjármálastefnu hægrimanna að ráða för, - Það er einfaldlega alltof mikið í húfi.  

Og þessvegna er mikilvægara en nokkru sinni að við - sem höfum önnur gildi –trúum á aðra leið - séum ábyrg, staðföst og snúm bökum saman.

Það er hlutverk Samfylkingarinnar að leiða saman þau öfl sem eru tilbúin að fylkja sér um vinnu, velferð og græna framtíð – og mynda græna félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar.