Hækkum atvinnuleysisbætur!

Frumvarpið snýst um dreifa byrðunum og láta ekki þá sem missa vinnunna í heimsfaraldri bera þyngstu byrðarnar.

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, mælti í dag fyrir frumvarpi flokksins um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa. Frumvarpið snýst um dreifa byrðunum og láta ekki þá sem missa vinnunna í heimsfaraldri bera þyngstu byrðarnar. Frumvarpið er eitt af forgangsmálum þingflokksins í haust.

Atvinnuleitendur og fjölskyldur þeirra eru sá hópur í samfélaginu sem lendir verst í þeim efnahagserfiðleikum sem nú ganga yfir. Það mun auka ójöfnuð til muna ef við komum ekki til móts við þau sem hafa misst vinnuna, með afgerandi hætti. Þau sem missa vinn­una þurfa aukinn stuðning og engin sátt er um að þau beri óstudd þyngstu byrðarnar. 

Með frumvarpinu er lagt til í fyrsta lagi að grunnatvinnuleysisbætur verði  hækkaðar í 95% af lágmarkstekjutryggingu og rétturinn til atvinnuleysisbóta lengdur um 12 mánuði. Í öðru lagi er lagt til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021 og að viðmiðið verði lækkað aftur í allt að 25% starfshlutfall, enda getur það skipt verulegu máli fyrir atvinnurekanda að halda ráðningarsambandi við fjóra starfsmenn í stað tveggja svo dæmi sé tekið, fái ákvæðið að standa óbreytt.

Í þriðja lagi að tryggt verði að allir sem voru atvinnulausir 1. september 2020 fái tekjutengdar bætur í sex mánuði enda illskiljanleg og órökstudd sú mismunun sem lengd tímabilsins felur í sér, standi óbreytt. Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456.404 kr. á mánuði. Jafnframt verði tekjutengda tímabilið lengt um þrjá mánuði fyrir alla og þar með verði því misrétti eytt sem frumvarp ríkisstjórnarinnar skapaði með lengingu fyrir suma. Í fjórða lagi er lagt til að framlag með hverju barni hækki varanlega. 

Frumvarpið má lesa í heild sinni hér: https://www.althingi.is/altext/151/s/0035.html