Ögurstund

Heiða Björg,

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. október

Í dag eru um tuttugu og tvö þúsund samborgarar okkar á atvinnuleysisskrá, aðrir tvö þúsund fá fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sínu sveitarfélagi og þúsundir einyrkja, listafólks og ferðaþjónustuaðila berjast í bökkum vegna COVID-kreppunnar. Um helmingur þeirra sem nú leita vinnu og lífsviðurværis er ungt fólk sem margt hvert er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, fjölskyldufólk með ung börn á framfæri. Áður en COVID kom til sögunnar töldust tugþúsundir Íslendinga búa við fátækt, bilið á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna heldur áfram að breikka og tæplega sex þúsund eldri borgarar lifa undir fátæktarmörkum. Öllum ætti að vera ljóst, að með sömu stjórnarstefnu er verið að þrengja mjög harkalega að lífskjörum tug þúsunda Íslendinga og skapa hér aðstæður sem geta leitt af sér langvarandi skaðleg samfélagsáhrif og efnahagslegan ójöfnuð.

Ójöfnuður er skaðlegur samfélaginu öllu. Ójöfnuður leiðir til félagslegra og heilsufarslegra vandamála, eykur óöryggi og minnkar traust. Öllum líður verr í samfélagi ójöfnuðar, ekki bara hinum verr settu. Það fólk sem núna er að missa vinnuna og berst í bökkum, börn þess og fjölskyldur, verða að finna að þau tilheyra samfélagi sem ekki er sama. Samfélagi sem stendur með þeim í gegnum þennan tímabundna vanda, tryggir þeim afkomu og ný tækifæri til að láta til sín taka. Við þurfum að hækka atvinnuleysisbætur þannig að fólk geti haldið áfram með líf sitt, greitt af húsnæði og tryggt börnunum sínum góð lífsskilyrði, tómstundir eða annað það sem er þeim mikilvægast.

Á krepputímum blasir það við að gæfa einstaklingsins byggir ekki bara á hans eigin gjörðum eða dugnaði. Gæfa okkar allra byggist fyrst og fremst á því samfélagi sem við eigum saman og hvernig við kjósum að deila þeim gæðum sem við búum yfir og sköpum – saman. Ef samhjálp og jöfnuður verða okkar leiðarljós á næstu misserum, getum við hæglega komið út úr COVID-kreppunni sem betra og sterkara samfélag. Samfylkingin hefur lagt til aðgerðir í sveitarfélögum og á þingi sem vísa í átt að réttlátara og grænna samfélagi handan COVID-kreppunnar. Veljum þann veg saman.