Helga Vala: „Fátækt er pólitísk ákvörðun“

Ræða Helgu Völu Helgadóttir þingmanns Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi þann 1. október 2020.  

Kæru Landsmenn.

Ég vil byrja á að fagna brennandi áhuga háttvirts samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins á stefnu Samfylkingarinnar um vinnu, velferð og græna framtíð. En slík framtíðarsýn birtist hvergi í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er ekki stutt við fólkið sem hefur misst vinnuna, áætlanir um uppbyggingu og fjölgun starfa eru í skötulíki og aukin útgjöld til umhverfismála milli ára eru rétt um 0,1 prósent af vergri landsframleiðslu. Á vakt forsætisráðherra sem talar um græna byltingu. Hæstvirtur ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson veit jafn vel og við í Samfylkingunni að við gætum gert svo miklu miklu betur. En mögulega er hann bara í röngum félagsskap. 

Hæstvirtur forsætisráðherra nefndi það í ræðu sinni hér fyrr í kvöld að einhverjum tilgreindum ákvæðum, sem hún metur að geti komist í gegnum nálarauga ríkisstjórnarflokkanna, skuli breytt en þó þannig að hugnist þeim sem helst engu vilja breyta. Þá sérstaklega þurfa breytingar að hugnast þeim sem engu vilja breyta varðandi nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

Það er með hreinum ólíkindum að þjóðin, sem saman þarf að standa straum af öllum kostnaði við rekstur samfélagsins, skuli dæmd til að láta arðinn af auðlindum sínum renna nánast óskertan í vasa örfárra notenda eða afkomenda þeirra. Í frumvarpi forsætisráðherra eru hvorki tímamörk á einkanýtingu auðlinda né skýr ákvæði um að greiða skuli eiagndanum, sem erum við öll, fullt gjald fyrir afnot hennar. Það er ekki í lagi.

Alþingi á einfaldlega að fara að vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Annað er fásinna í lýðræðisríki og algjör falleinkunn á störfum Alþingis.

En það eru fleiri ákvæði stjórnarskrár sem ég vil, með leyfi forseta, flytja,  til dæmis 3. mgr. 76. gr. sem hljóðar svo: 

Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Þarna eru engin börn undanskilin, ekki börn á flótta, ekki börn með fötlun, ekki börn sem hafa verið beitt ofbeldi, ekki fátæk börn.

Fyrir skömmu síðan tókst, með eindreginni seglu lögmannsins Magnúsar D Norðdal og óbreyttra borgara sem hættu ekki að hafa hátt, að stöðva brottvísun stjórnvalda á fjórum börnum í leit að vernd. Ríkisstjórnin gerði því miður ekkert þeim til bjargar heldur vísaði á kerfið eins og það væri sjálfstætt óbreytanlegt bákn sem enginn réði við. Kerfið er mannanna verk og ríkisstjórninni ber skylda til að gera kerfið bæði skilvirkt og mannúðlegt, þannig að það brjóti ekki á réttindum borgaranna.  

Tökum annað dæmi úr kerfinu - 1.193 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum vanda. Hvernig má þetta vera?

Og hvernig sinnum við börnum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni? 19 börn sem orðið hafa fyrir slíku ofbeldi bíða áfallameðferðar hjá Barnahúsi. Bíða þess að kerfið virki sem skyldi.

Herra forseti – biðlistar eru ekki náttúrulögmál heldur ákvörðun stjórnvalda um að fjármagna ekki og manna með fullnægjandi hætti nauðsynlegar stofnanir. Kerfi sem virkar ekki sem skildi er heldur ekki náttúrulögmál. Þetta eru mannana verk, þetta er pólitísk ákvörðun og á því bera þeir ábyrgð sem fara með valdið hverju sinni.

Nú er atvinnuleysi að aukast hratt í kjölfar heimsfaraldurs. Þá þarf að hugsa hratt og grípa þá sem helst þurfa á björginni að halda. Við í Samfylkingunni höfum lagt fyrir þingið tillögur um hækkun grunnatvinnuleysisbóta til verndar fjölskyldum í landinu sem nú hafa misst lífsviðurværið. En nei, ríkisstjórnarflokkarnir treysta sér ekki til þess, jafnvel ekki tímabundið eins og við lögðum til.

Nei, herra forseti, fátækt er heldur ekki náttúrulögmál. Fátækt er pólitísk ákvörðun. Við þurfum hugrökk stjórnvöld sem þora að grípa til sértækra aðgerða til bjargar nauðstöddu fólki. Til þess voru þau kosin.