Ný atvinnustefna á Akureyri

Á fundi bæjarstjórnar á Akureyri 17. nóv. var samþykkt tillaga Hildu Jönu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, um að vinna að nýrri atvinnustefnu fyrir Akureyri. Nýjar nálganir sem skýra hlutverk bæjarins í málaflokknum.

"Atvinnulífið á Akureyri hefur farið í gegnum stórfelldar breytingar síðustu áratugina og mun að halda áfram að gera það í framtíðinni.

Tækniframfarir hafa og munu hafa veruleg áhrif á atvinnulíf heimsins næstu áratugina, þá ekki síst hröð innleiðing gervigreindar. Fjórða iðnbyltingin breytir stórum hluta atvinnulífsins eins og við þekkjum það í dag. Í þeim breytingum munu væntanlega áherslur á mennsku, sköpun, menningu og listir aukast.

Áskoranir tengdar hamfarahlýnun eru einnig aðkallandi en bæði hið opinbera og atvinnulífið þarf að mæta eðlilegum kröfum um félagslega og umhverfislega sjálfbærni,græna framtíð og jöfnuð í samfélagi sem skilur engan eftir.

Stærsti aðsteðjandi vandi samfélagsins og atvinnulífsins er kórónuveirufaraldur sem nú herjar á heimsbyggðina. Við erum í auga stormsins í ákaflega djúpri atvinnukreppu. Flest hagkerfi heims upplifa mikinn samdrátt og er Ísland þar engin undantekning. Af öllum Norðurlöndunum kemur þessi kórónuveirukreppa harðast niður á Íslandi, enda hefur ferðaþjónustan orðið ein af grunnstoðum atvinnulífs á Íslandi á tiltölulega skömmum tíma – og þar sjáum við nú svo gott sem algjört hrun. Þetta á að sjálfsögðu við ferðaþjónustuna hér á Akureyri líkt og annars staðar, þó er mikill styrkur fólginn í þeirri sterku stöðu sem bærinn hefur á innanlandsmarkaði.

Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni þá er einnig allt eins líklegt að viðsnúningurinn hér á landi verði hraður, að því gefnu að uppsafnaður ferðavilji sé hjá stórum hópi fólks og að kostir Íslands svo sem stærð lands og fámenni eigi eftir að vera styrkleiki í hugum ferðalanga eftir kórónuveirufaraldurinn. Sé þetta rétt, þá eigum við mikið undir því að þegar fólk fer að ferðast á ný að til séu sterk fyrirtæki og öflugir innviðir til þess að stuðla að eins miklum hagvexti og kostur er.

Atvinnulífið á Akureyri mun ekki vera undanskilið miklum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum, fjóðu iðnbyltingunni og auknum umhverfisáherslum. Þessar þrjár umfangsmiklu breytingar sáum við ekki alla tíð fyrir og er nær öruggt að alls konar ófyrirséðar áskoranir koma til með að hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf framtíðarinnar. Stundum með skyndilegum og afgerandi hætti líkt og með kórónuveirufaraldrinum og stundum með hægfara byltingum líkt og umhverfisáherslum og fjórðu iðnbyltingunni.

Horft um öxl

Þegar við horfum um öxl þá hafa ótrúlegar breytingar átt sér stað á atvinnulífi Akureyrar undanfarin ár. Akureyri var eins og við öll þekkjum iðnaðarbær og um tíma var hér m.a. fjölmennasti vinnustaður þjóðarinnar þegar hátt í 1000 manns störfuðu í verksmiðjunum. Segja má ákveðið atvinnuhrun hafi átt sér stað á Akureyri á árunum 1987-1993 þegar störfum fækkaði verulega, eða um nokkur hundruð.

Með leyfi forseta vil ég vitna í leiðara tímaritsins Dags árið 1995 en þar segir. „Tvö ár í röð hefur atvinnuleysi farið yfir 600 manns yfir vetrarmánuðina, ástand sem er með öllu óviðunandi. Þetta ástand hefur skapað Akureyri neikvæða ímynd, sumir hafa á orði að bærinn væri draugabær þar sem ekkert jákvætt gerist.“ En í leiðaranum birtist þó einnig jákvæður tónn, með leyfi forseta segir. „Staðreyndin er sú að burðarrásir í atvinnulífinu á Akureyri hrundu eða lentu í miklum tímabundnum þrengingum og það var vitaskuld erfitt…Iðnaðarbærinn á Akureyri hefur á liðnum áratug breyst í þjónustubæinn, sjávarútvegsbæinn og ekki síst skólabæinn Akureyri. Mörg störf hafa tapast, en það hafa líka ný störf skapast í öðrum atvinnugreinum.“

Við þetta getum við vel samsamað okkur nú, breytingar og þróun verður til þess að sum störf tapast og önnur verða til. Þó er einnig ljóst að í miðjum breytingum vitum við ekki alltaf nákvæmlega hvað verður. Síðar í þessum sama leiðara sem skrifaður var árið 1995 segir, með leyfi forseta: „ Í allri atvinnuleysisumræðunni má ekki gleyma því að endurreisn Íslensks skinnaiðnaðar tókst vel, hann skilar nú góðri rekstrarafkomu og horfur eru góðar. Í Strýtu hf. er bullandi atvinna og jákvæð teikn á lofti og rekstrarhorfur fyrir Slippstöðina eru betri en þær hafa verið að gera um nokkurt skeið.“ Sex árum síðar varð Skinnaiðnaðurinn  gjaldþrota og 120 manns misstu vinnuna. Með táknrænum hætti er nú verslunarmiðstöðin Glerártorg á þeim stað sem Skinnaiðnaðurinn var áður.
Þessi litli gluggi inn í fortíðina minnir okkur á að allt er breytingum háð, jafnvel þó svo að við vitum ekki hvernig eða hvenær. Fyrst og fremst verðum við, samfélagið og atvinnulífið, að vera sífellt reiðubúin að aðlaga okkur að nýjum og breyttum veruleika. Áhersla á fjölbreytt atvinnulíf skiptir einnig sköpum, enda telst það töluverður veikleiki í síbreytilegu umhverfi að vera með öll eggin í sömu körfunni.

Atvinnustefna Akureyrarbæjar

Gildandi atvinnustefna Akureyrarbæjar tók gildi árið 2014 og gildir fram á næsta ár. Þegar við rýnum í stefnuna þá má finna þar ýmislegt sem hefur reynst verðmætt og tekist vel til, á sama tíma og aðrir þættir stefnunnar úreltust hratt, var ekki fylgt markvisst eftir eða ábyrgðin of óskýr.

Það er til marks um það hvað viðhorf og þróun breytist hratt að skoða þær áherslur sem voru hafðar í huga þegar stefnan var gerð, fyrir um 7 árum, en þá voru miklar væntingar um olíuvinnslu á Drekasvæðinu og þjónustu við Grænland.

Í stefnunni voru tilgreind bæði markmið og aðgerðir. Ágætlega virðist hafa gengið að fylgja eftir þeim aðgerðum þar sem eftirfylgnin var í höndum Akureyrarbæjar, á meðan minna hefur þokast áfram í aðgerðum þar sem eftirfylgnin átti að vera í höndum annarra, eða í samstarfi við aðra. Enda má rökræða það hvaða heimildir sveitarfélag hefur til þess að gera stefnu og fela stofnunum á vegum ríkisins eða jafnvel atvinnulífinu að fylgja aðgerðum og stefnu sveitarfélagsins eftir.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra

Atvinnulífið á Akureyri, líkt og annars staðar, virðir ekki að öllu leyti bæjarmörk og því skiptir uppbygging á stærra svæði og efling landshlutans í heild miklu máli. Það var því að mínu mati mikið heillaskref sem stigið var með því að sameina krafta AFE, AÞ og Eyþings í SSNE.

Hlutverk SSNE felst í því sem fram kemur í stofnsamþykktum félagsins, áherslum ársþinga/aukaþinga og sóknaráætlun landshlutans – sem er leiðarljós SSNE í öllu starfi.

Atvinnuráðgjafar SSNE leggja áherslu á að styðja við nýsköpun innan starfandi fyrirtækja, skapa frumkvöðlasamfélag, efla ráðgjöf og þjónustu SSNE til starfandi fyrirtækja sem og að auka fjármagn inn á svæðið í gegnum styrktarsjóði svo eitthvað sé nefnt.

Innan SSNE og landshlutasamtakanna á landsvísu er einnig töluverð umræða um tölfræði og gögn. Landshlutasamtökin vinna nú í samstarfi við Byggðastofnun að gerð mælaborðs, en grunnur þess mælaborðs varð til hjá SASS. Í vor tók Byggðastofnun verkefnið hins vegar að sér og vinnur nú að mælaborði á landsvísu, byggt á grunni frá SASS. Unnið er með gögn frá Hagstofunni og úr könnunum líkt og íbúakönnun sem Vífill Karlsson gerði fyrir landshlutasamtökin svo dæmi séu tekin. Markmiðið er að greina upplýsingar eftir landshlutum og sveitarfélögum eftir atvinnugreinum. Ekki er komin dagsetning á það hvenær mælaborðið verður tilbúið, en það ætti að gagnast okkur þegar það lítur dagsins ljós.

Innan SSNE hefur verið lögð sérstök áhersla á verkefni tengd kórónuveirufaraldrinum sem nú steðjar að og eitt af því mikilvæga sem gert hefur verið er að gera reglulega stöðumat atvinnulífs á Norðurlandi eystra og koma viðeigandi áherslum á framfæri til sveitarstjórna og ríkis. Auk þess að bjóða fram stuðning og aðstoð við starfandi fyrirtæki.

Eitt af því sem mikilvægt er nú er aðkoma SSNE að endurskoðun byggðaáætlunar,fylgja verkefnum Sóknaráætlunar úr hlaði og aðkoma að áfangastaðastofum landshlutanna. Ákaflega mikilvægt er að mínu mati að áfangastaðastofur verði öflugt samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.

Nú er að hefjast gerð starfsáætlunar 2021 sem taka mun mið af Sóknaráætlun og áherslum sem fram komu á ársþingi SSNE í október. Ljóst er að ákall er um áherslu á umhverfismál, nýtingu orku, velferðartækni og heilbrigðismál. Einnig að áhersla verði á matvælaframleiðslu og tengja við atvinnu, nýsköpun, umhverfissjónarmið og sjálfbærni o.fl. Í þessu samhengi er rætt um áherslur á að vinna faglega að samgöngustefnu sem feli í sér  faglega forgangröðun landshlutans miðað við samfélagslegar- og efnahagslegar forsendur. Ræða þarf einnig mögulega atvinnustefnu landshlutans þá ekki síst með tilliti til nýtingar aukinnar raforku inn á svæðið. Fjölmörg tækifæri eru til sóknar.

Ríkisvaldið gegnir veigamiklu hlutverki í því að skapa umhverfi og jarðveg þar sem atvinnulíf fær tækifæri til þess að blómstra. Sveitarfélög bera ábyrgð á því að sú nærþjónusta við íbúa sem ríkið hefur falið þeim sé öflug og styðji við íbúa og atvinnulíf. Sveitarstjórnarfulltrúar bera þó að mínu mati auk þess ábyrgð á því að vera talsmenn svæðisins gagnvart ríkinu, eiga í virku samstarfi við sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki á þeirra atvinnusóknarsvæði og leitast við að skapa umhverfi og benda á farsælar leiðir til framtíðar.

Á fundi SSNE með þingmönnum kjördæmisins sem ég sat á dögunum, lögðum við áherslu á það sem ríkisvaldið gæti gert til að styðja við svæðið i þeirri auknu sókn sem heimamenn hafa hug á. Þar lögðum við sérstaka áherslu á: aukið fjármagn í gegnum Sóknaráætlanir landshlutans, skýr svör þingsins um framtíð úrgangsmála, styrkar stoðir MN, markaðssetningu Akureyrarflugvallar, raforkumál, aðkomu sveitarstjórna að klasastefnu, skýrum svörum um málefni nýsköpunar á landsbyggðunum nú þegar Nýsköpunarmiðstöðvar verða lagðar niður um áramótin, flutning ríkisstarfa/stofnana og störf án staðsetningar – auk fjármála sveitarfélaga.

Ný atvinnustefna Akureyrarbæjar

En ef mögulega á að vinna atvinnustefnu í landshlutanum með SSNE, þar verði unnið að gagnaöflun og mælingum og lögð áhersla á að styðja við atvinnulífið á svæðinu, er þá einhver þörf á sérstakri atvinnustefnu fyrir Akureyrarbæ? Ég tel að svarið sé já. Ég tel að árið 2022 ætti að taka gildi ný atvinnustefna sem þó yrði töluvert ólík fyrri stefnum. Sú stefna myndi fyrst og fremst horfa til ábyrgðarsviðs Akureyrarbæjar og byggja á þremur lykilþáttum sem yrðu: lífsgæði, þjónusta og markaðssetning.

Lífsgæði

Eitt það mikilvægasta fyrir atvinnulíf framtíðarinnar er að tryggja lífsgæði íbúa. Ein megin breyta atvinnuuppbyggingar mun fara eftir því hvar fólk vill búa. Akureyrarbær
mun ekki tryggja öll almenn lífsgæði enda slíkt einnig á forræði ríkisins og atvinnulífsins. Akureyrarbær ber þó töluverða ábyrgð t.d. á sviði fræðslumála, velferðarmála, skipulagsmála, mannvirkja, samganga, umhverfismála, menningar, æskulýðsmála og íþrótta. Gæði þeirrar þjónustu sem Akureyrarbær veitir hefur áhrif á lífsgæði íbúa og þar með vilja fólks til búsetu í sveitarfélaginu. Því ætti í atvinnustefnu Akureyrarbæjar að draga fram á hverju sviði þá mikilvægu þætti sem stuðla að góðum lífsgæðum auk þess að draga fram hvar við þurfum að gera betur. Á árinu 2021 horfum við til þess að gera mikilvæga samkeppnisgreiningu á íbúa- og atvinnumarkaði. Sá grunnur mun gagnast við gerð atvinnustefnu, verði það vilji bæjarstjórnar.

Þjónusta við atvinnulíf

Akureyrarbær einsetur sér nú þegar að veita framúrskarandi þjónustu og eru þjónustugildi bæjarins í mannauðsstefnu: fagleg – lipur -traust. Í íbúkönnunum fáum við reglulega endurgjöf frá íbúum sem gagnast í öllu starfi. Meta ætti sérstaklega ánægju atvinnulífsins með þjónustu bæjarins. Slíkt væri hægt að gera bæði með samtölum og könnunum. Leita ætti reglulega eftir sjónarmiðum og þörfum atvinnulífsins og í kjölfarið meta hvort og hvernig Akureyrarbær getur mætt þeim þörfum. Í því samhengi er hægt að horfa til afgreiðslu erinda, framboð lóða, gæða þjónustu almennt, upplýsingagjafar, leiðbeiningaskyldu o.s.frv.

Markaðssetning á íbúa- og atvinnumarkaði

Þriðji grunnþáttur stefnunnar þarf síðan að vera markaðssetning á íbúa- og atvinnumarkaði, byggða m.a. á þeim gögnum sem fást með áðurnefndri samkeppnisgreiningu á íbúa- og atvinnumarkaði. Mikilvægt er að vekja áhuga og eftirspurn eftir búsetu og rekstri fyrirtækja á svæðinu með markvissum og skýrum hætti. Hið opinbera mun ekki segja atvinnulífinu hvernig það á að þróast enda munu lögmál um framboð og eftirspurn halda áfram að vera meginbreyta í þróun atvinnulífs. Hið opinbera hefur þó það mikilvæga hlutverk að hámarka farsæld og draga úr hagsveiflum og á það bæði við ríki og sveitarfélög. Akureyrarbær ætti að taka ábyrgð sína er varðar atvinnulíf alvarlega og hefja strax á næsta ári undirbúning að nýrri atvinnustefnu sem myndi taka gildi árið 2022.

Ég legg því fram eftirfarandi tillögu „Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkir að hefja
undirbúning að nýrri atvinnustefnu sem tekur gildi árið 2022.“

Ræða flutt á bæjastjórnarfundi 17. nóvember 2020.

Fleiri fréttir frá Akureyri má finna á heimasíðu félagsins þar í bæ.