Albertína ræðir þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðinni

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var málshefjandi í sérstakri umræðu á Alþingi um þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðinni. Ræðu Albertínu má finna hér.
Ég vil byrja á að þakka hæstvirtum heilbrigðisráðherra fyrir að taka sér tíma til að ræða þetta mikilvæga mál og bregðast jafn skjótt við beiðni minni um þessa umræðu og raun ber vitni, það er sannarlega til fyrirmyndar.
Síðustu vikur og raunar ár og hefur verið mikil umræða um þjónustu sérgreinalækna við íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Staðreyndin er að flestir sérgreinalæknar búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu sem gerir það að verkum að íbúar sem búa utan þess þurfa yfirleitt að sækja þjónustu til höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi kostnaði og vinnutapi.
Enn meira áhyggjuefni er að þessi staða virðist hafa þau áhrif að íbúar utan höfuðborgarsvæðisins nýta sér síður þjónustu sérgreinalækna. Þannig sýna tölur til dæmis að íbúar Austurlands nýti sérfræðiþjónustu lækna þrisvar sinnum sjaldnar en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það segir sig því sjálft að í því felst sú hætta að íbúar Austurlands fari á mis við jafnvel lífsnauðsynlega þjónustu.
Mig langaði því að spyrja hæstvirtan ráðherra eftirfarandi spurninga:
Hver er stefna ráðuneytisins varðandi veitingu þjónustu sérgreinalækna um land allt?
Er ráðherra sammála forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um að hagkvæmara væri að semja við sérgreinalækna um að veita aukna þjónustu í heimabyggð?
Ef svo, hvaða leið telur ráðherra að sé vænlegust til að tryggja þjónustu sérgreinalækna í heimabyggð? Kæmi til greina að skilgreina ákveðna sérgreinalæknaþjónustu sem nærþjónustu sem á að veita í öllum heilbrigðisumdæmum landsins?
Kæmi til greina að semja við Landspítalann um að veita slíka þjónustu?
Hvenær stendur til að ljúka samningum við sérgreinalækna sem hafa verið lausir frá áramótum?
Telur ráðherra að gert sé nægjanlega ráð fyrir kostnaði við að veita þessa þjónustu í fjárlögum?
Herra forseti,
íslensk löggjöf er í raun alveg skýr með það að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli ýmissa þátta gagnvart heilbrigðisþjónustu, þar á meðal búsetu. Hins vegar er alveg ljóst að okkur hefur að mistekist að veita þjónustu sérgreinalækna um allt land.
Þó að vissulega fái fólk stuðning til að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur, þ.e. greiðslu ferðakostnaðar tvisvar á ári – þá dugar það skammt til að bæta upp annan kostnað sem fylgir, svo sem gistingu, vinnutap, uppihald og svo framvegis.
Í viðtali við Maríu Heimisdóttur forstjóra Sjúkratrygginga Íslands á RÚV nýverið kom fram að Sjúkratryggingar Íslands endurgreiddu 546 milljónir króna í ferðakostnað á síðasta ári þannig að það er ljóst að það eru heilmiklir fjármunir undir.
Myndi maður ætla að það væri í raun mun hagkvæmara fyrir ríkið að færa þjónustuna til fólksins í stað þess að færa allan þennan fjölda íbúa suður til að sækja þjónustuna. Þannig sparast líka vinnutap o.s.frv. sem einnig er bót fyrir ríkið þegar uppi er staðið. Í stuttu máli sagt þá er ljóst að þetta er ekki hagkvæm nýting á fjármunum eins og við höfum staðið að málum fram að þessu.
Það var því má segja fagnaðarefni þegar fram kom að forstjóri SÍ virðist vera sammála þessu. En það er ljóst að það þarf einhverja hvata inn í kerfið til að fá sérgreinalækna til að starfa utan höfuðborgarsvæðisins, eða í það minnsta heimsæki svæðin mjög reglulega.
Það er ekki ásættanlegt að tilviljanir ráði því hvort sérgreinalæknar veiti þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins – við þurfum einhvern veginn að byggja upp þó ekki sé nema grunn sérgreinaþjónustu um landið sem treysta má á.
Þannig tel ég að mikilvægt væri að skilgreina ákveðna sérgreinalæknaþjónustu sem nærþjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins, t.d. augnlækna, geðlækna, kvensjúkdómalækna, öldrunarlækna og barnalækna.
Þá erum við að tala um stöðuga viðveru eða a.m.k. mjög reglulegar heimsóknir slíkra lækna, enda ekki boðlegt að aðeins sé hægt að nálgast þjónustuna tvisvar á ári og þar með oft erfitt fyrir sjúklinga að komast að, auk þess sem ýmislegt getur komið upp á og sjúklingar enda þá með að bíða í hálft eða jafnvel heilt ár eftir að komast til læknis.
Við höfum dæmi um þar sem það hefur heppnast vel að koma á reglubundnum heimsóknum sérgreinalækna. Þannig koma til að mynda læknar frá Landspítala reglulega á Sjúkrahúsið á Akureyri og þá hefur verið í gangi tilraunaverkefni í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Austurlands sem hefur nú fengið varanlegt fjármagn til að tryggja þjónustu sérgreinalækna við íbúa heilbrigðisumdæmisins með samningum við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala.
Það verkefni hefur til dæmis sannað sig en á 12 mánaða tímabili sinntu læknarnir 850 komum einstaklinga sem hefðu annars sótt þjónustuna utan landshlutans og því má fagna því að það hafi tekist að tryggja það verkefni áfram. En betur má ef duga skal og ljóst að við þurfum að gera mun betur.
Herra forseti, það er ekki boðlegt að fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins hafi ekki sambærilegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðrir og við verðum að laga það. Ég vona að hæstvirtur ráðherra sé sammála mér um það.