Stjórnmálaályktun samþykkt á landsfundi

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar - jafnaðarmannaflokks Íslands samþykkt á landsfundi 2020.

Landsfundur Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands kallar eftir markvissum aðgerðum til að bregðast við verstu atvinnukreppu seinni tíma. Stíga þarf afgerandi skref í átt að grænni framtíð og sjálfbæru og réttlátu samfélagi. Við þær aðstæður sem nú eru uppi, hérlendis og á heimsvísu, verða aðgerðir vegna brýnustu úrlausnarefna samtímans og stærstu áskorana framtíðar að fara hönd í hönd. Þetta krefst þess að stjórnvöld setji fram skýra og útfærða áætlun um fjölgun starfa, efli velferð og ráðist í kraftmikla græna uppbyggingu um land allt.

Félagslegt réttlæti, heilbrigður vinnumarkaður og ábyrg efnahagsstjórn eru grunnstoðir jafnaðarstefnunnar og forsenda fyrir góðu samfélagi fyrir alla. Á tímum heimsfaraldurs og fjöldaatvinnuleysis getur almenningur á Íslandi reitt sig á leiðarljós jafnaðarmanna og þar skiptir raunveruleg samstaða mestu máli: Að samfélagið hlaupi undir bagga með þeim sem lenda verst í erfiðleikunum sem nú ganga yfir og þeim sem þurfa að færa mestar fórnir – að við dreifum byrðunum og verjum kjör þeirra sem veikast standa. Sama gildir í glímunni við loftslagsbreytingar. Sú efnahagslega viðspyrna sem nú verður að eiga sér stað þarf því ekki bara að vera þróttmikil og langvarandi heldur líka græn. Afdráttarlausar aðgerðir í loftslagsmálum þola enga bið.

Við eigum verk fyrir höndum

Nú er svo komið að um tíu prósent af vinnuafli í landinu, yfir tuttugu þúsund manns, er í þeirri stöðu að vilja vinna en fá ekki vinnu. Það er dýrt fyrir samfélagið allt en vitaskuld verst fyrir þau sem fyrir því verða, einstaklinga sem fjölskyldur. Fyrirtæki þurfa aukinn fyrirsjáanleika og mun markvissari stuðningsaðgerðir en stjórnvöld hafa veitt hingað til vegna efnahagsáhrifa veirunnar. Þá hafa smærri fyrirtæki, einyrkjar og listamenn orðið útundan í aðgerðum stjórnvalda. Á sama tíma hafa sveitarfélög orðið fyrir fordæmalausu tekjufalli og stórauknum útgjöldum sem kalla á uppsagnir og niðurskurð ef ekkert verður að gert af hálfu ríkisvaldsins. 

Undanfarin ár hafa kjör þeirra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga dregist langt aftur úr almennri launaþróun og er nú svo komið að grunnlífeyrir er langt undir lágmarkslaunum með þeim afleiðingum að fjöldi öryrkja og eldri borgara lifir við skort. Sveitarfélög boða niðurskurð í málefnum fatlaðs fólks vegna bágrar fjárhagsstöðu og sex þúsund börn á Íslandi búa við fátækt. Á sama tíma láta íhaldsöflin í landinu skína í niðurskurðarhnífinn sem dæmin sanna að bitnar verst á lágtekjufólki. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum er kolröng og hefur helst miðað að því að veikja mikilvæga skattstofna og verja kjör þeirra efnamestu, einmitt þegar þörfin á örvandi skattaaðgerðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki er hvað mest. Síðast en ekki síst er árangur Íslands í loftslagsmálum óviðunandi og markmið stjórnvalda langtum metnaðarminni en hjá nágrannaþjóðum.

Samfylkingin jafnaðarmannaflokkur Íslands er sá stjórnmálaflokkur sem er best til þess fallinn að leggja fram raunhæfar lausnir á þeim vandamálum sem hér er lýst og hrinda þeim í framkvæmd. Það gerum við á forsendum jafnaðarstefnu fyrir allt Ísland og lykilorðin eru vinna, velferð og græn framtíð.

Vinna

Í miðri sögulegri atvinnukreppu er Samfylkingin eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur sett fram skýra og útfærða áætlun um hvernig fjölga megi störfum og ná niður atvinnuleysi. Einmitt þetta verður stærsta verkefni stjórnmálanna á næstu misserum. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er aðeins gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki um eitt prósentustig á árinu 2021 en hafa verður í huga að aðgerðir stjórnvalda geta ráðið miklu um þessa þróun. Við verðum að gera betur! Landsfundarfulltrúar skora á forystufólk ríkisstjórnarinnar og allra stjórnmálaflokka að leggja fram greinargóða stefnu um hvernig best sé að vinna bug á atvinnuleysi líkt og forysta Samfylkingarinnar hefur gert í nýútkomnu riti, Ábyrgu leiðinni – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Vinna verður gegn atvinnuleysi bæði karla og kvenna. Þá skal tekið undir eðlilega kröfu Ungra jafnaðarmanna um að ráðist verði í sértækar aðgerðir vegna vanda ungs fólks á vinnumarkaði í ljósi þess að nær helmingur atvinnulausra er á aldrinum 18 til 35 ára. Hættan sem stafar af langvarandi atvinnuleysi í þessum hópi er gríðarlegt áhyggjuefni og getur reynst samfélaginu dýrkeypt ef ekkert er að gert. Þörf er á átaki gegn atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara og svæðisbundnum aðgerðum þar sem atvinnuástandið er verst, svo sem á Suðurnesjum. Við viljum auk þess tryggja fjárhagslegt öryggi stúdenta og fjárfesta í menntun.  

Aðalatriðið er að fjölga störfum strax og í því skyni er brýnt að hið opinbera beiti öllum tiltækum ráðum. Fjölga þarf störfum með beinum hætti bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, svo sem með því að styðja við ráðningar fyrirtækja, efla virkar vinnumarkaðsaðgerðir, létta skattbyrði einyrkja og smærri fyrirtækja og draga úr vinnuletjandi skerðingum og jaðarsköttum. Þá er mikilvægt að efla endur- og símenntun sem aldrei fyrr. Auk þess er nú kjörið tækifæri til að nýta hagstæð vaxtakjör og auka fjárfestingar hins opinbera til að draga úr niðursveiflu hagkerfisins en fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að sveitarfélög neyðist til að draga úr fjárfestingu, sem vinnur beinlínis gegn markmiðum ríkisfjármálanna og eru því eins og bent hefur verið á – hagstjórnarmistök. Á sama tíma í nágrannalöndum okkar er ríkisvaldið að róa með sveitarfélögum, ekki gegn þeim, með því að bæta þeim tekjutap og aukin útgjöld með umfangsmiklum aðgerðum. 

Aukin fjölbreytni atvinnuvega er vænlegasta leiðin til vaxtar, og í því verður að horfa bæði til lengri og skemmri tíma, en ætla má að endurreisn ferðaþjónustu veiti snarpa viðspyrnu þegar faraldrinum lýkur. Áhersla á fjölgun starfa má þó aldrei grafa undan heilbrigðum vinnumarkaði, vinnuvernd og réttindum launafólks. Samfylkingin tekur heilshugar undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að launaþjófnaður verði gerður refsiverður.

Velferð

Í velferðarmálum er algjört forgangsatriði að hækka bætur atvinnuleysistrygginga til að létta undir með atvinnulausum og fjölskyldum þeirra. Börn eiga aldrei að búa við fátækt. Við tökum undir kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að grunnbætur atvinnuleysistrygginga hækki úr 289 þúsund krónum á mánuði fyrir skatt upp í að minnsta kosti 95 prósent af lágmarkstekjutryggingu. Sú aðgerð myndi kosta rétt um helming af því sem ríkisstjórnin hefur reitt af hendi í styrki til fyrirtækja fyrir að segja upp fólki.  

Um leið og við stöndum með fyrirtækjum í gegnum þessa erfiðu tíma verðum við að standa þétt með þeim sem vilja vinna en fá ekki vinnu. Það sama á auðvitað við um þá sem geta ekki unnið fullt starf vegna örorku af völdum veikinda, slysfara eða fötlunar. Ár eftir ár hefur verið grafið undan almannatryggingakerfinu og nú er svo komið, eins og Öryrkjabandalagið bendir réttilega á, að örorkulífeyrir er ekki nema ¾ af lægstu launum. Það er ekki sanngjörn sneið til öryrkja í augum jafnaðarmanna og verður að leiðrétta. Sama á við um kjör eldri borgara sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Að öðru leyti er átak gegn undirmönnun í almannaþjónustu mikilvægasta velferðarmálið, þar á meðal í heilbrigðiskerfi, menntastofnunum og félagsþjónustu, auk stuðnings við sveitarfélög í þröngri stöðu þar sem þau bera ábyrgð á stórum hluta velferðarkerfisins. Lögfesta þarf samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, líkt og Samfylkingin hefur barist fyrir og samþykkt var án mótatkvæða á Alþingi. Samfylkingin mun áfram halda á lofti réttindabaráttu jaðarsettra hópa, fagna fjölbreytileika samfélagsins og vera í forystu fyrir baráttu gegn hvers kyns ofbeldi. Við megum aldrei gefa afslátt af mannréttindum þó kreppi að í hagkerfinu. Eins er nauðsynlegt að Ísland axli ábyrgð sína gagnvart umheiminum með móttöku flóttafólks og í því samhengi þarf ætíð að huga sérstaklega að velferð barna.

Græn framtíð

Loftslagsváin er stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir og kallar á að ríki heims, stór og smá, taki höndum saman um róttækar breytingar á framleiðslu og lifnaðarháttum. Samfylkingin kallar eftir því að Ísland setji sér markmið um 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 eins og Evrópuþingið hefur samþykkt og bindi markmiðið í lög. Jafnframt tekur landsfundur undir kröfu alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar um „réttlát umskipti“ því engin samfélagssátt mun nást um hröð orkuskipti og aðrar nauðsynlegar breytingar nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi og tryggt að kostnaður falli ekki á herðar tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra.  

Auðlindir þjóðarinnar og stjórnarskrá

Samfylkingin tekur undir með þeim 43.423 manns sem skrifuðu undir kröfuna um að þjóðaratkvæðagreiðslan frá því í október 2012 um nýja stjórnarskrá verði virt. Sam­fylkingin hefur lengi barist fyrir auð­linda­á­kvæði í stjórnar­skrá sem tryggir ís­lensku þjóðinni rétt­látan arð af sam­eigin­legri auð­lind hennar og fyrir því að þjóðar­vilji sé virtur og hið lýð­ræðis­lega ferli sem samning nýrrar stjórnar­skrár var sett í eftir hrun verði klárað. Við viljum að ný stjórnar­skrá, byggð á til­lögum Stjórn­laga­ráðs, taki gildi sem fyrst. Stjórnarskrá sem Íslendingar geta verið stoltir af.

Samfylkingin mun aldrei samþykkja auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem virðist sérhannað fyrir stórútgerðina til að ekkert breytist. Sameign þjóðarinnar má ekki meðhöndla sem séreign fárra.

Sérstakar þakkir

Landsfundur Samfylkingarinnar sendir öllu framlínufólki í baráttunni við veiruna kærar þakkir og öðrum sem þurft hafa að færa fórnir á þessum erfiðu tímum.

Þá viljum við færa erlendum starfsmönnum á Íslandi sérstakar þakkir fyrir framlag þeirra til margvíslegra mikilvægra verkefna, einkum á vettvangi heilbrigðiskerfisins en einnig við byggingastörf og víðar. Þessi þáttur þeirra í uppbyggingu hins íslenska samfélags er mikilvægur og verðmætur og hefur auk þess skapað auð og betra líf fyrir borgara sem háðir eru þjónustu á öldrunar- og hjúkrunarstofnunum.

Markmið Samfylkingarinnar um að fjölga störfum, efla velferð og að ráðast í græna uppbyggingu um land allt stangast ekki á heldur styðja hvert annað. Svo dæmi séu nefnd mun græn uppbygging fjölga störfum, markviss fjölgun starfa draga úr útgjöldum til velferðarmála og efling velferðar auka ráðstöfunartekjur fólks sem ver háu hlutfalli tekna til neyslu, sem glæðir aftur heildareftirspurn í hagkerfinu eins og æskilegt er á krepputímum. Allt þetta þarf að gera fljótt og af festu – ekki sumt núna og annað seinna – til að bregðast við mest knýjandi vandamálum dagsins á Ísland og mæta um leið loftslagsvánni, okkar stærstu áskorun til framtíðar. Það mun borga sig þegar upp er staðið.

Fyrr en seinna verður veirukreppan á bak og burt en að ýmsu er að huga í efnahagsmálum þegar til lengri tíma er litið. Í þeim efnum leggur Samfylkingin áfram höfuðáherslu á stöðugri gjaldmiðil með upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu, aukna framleiðni í fjölbreyttara hagkerfi, nýsköpun og græna fjárfestingu, líflegri samkeppni og sanngjarnara skattkerfi, svo talin séu upp nokkur af helstu hagsmunamálum almennings á Íslandi. Sóknarfærin eru svo sannarlega til staðar og Samfylkingin hefur verk að vinna.