Stefnuræða Loga á landsfundi

Hér má finna stefnuræðu Loga á landsfundi Samfylkingarinnar 2020

 

Ágæti landsfundur -- kæru vinir.

Rúmlega þúsund félagar sækja nú rafrænan landsfund Samfylkingarinnar í fyrsta sinn en vonandi hittumst við aftur í persónu sem fyrst. Þetta eru erfiðar tímar fyrir marga. Og hugur minn og okkar í Samfylkingunni er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda eða þurfa að færa miklar fórnir þessi misserin. Við hugsum til ykkar.

Þið sem hafið misst ástvin og ég veit persónulega af nokkrum félögum okkar sem hafa lent í því við vottum ykkur samúð. Þið sem hafið veikst illa og eruð jafnvel enn að eiga við eftirköst, þið sem hafið einangrast félagslega, þið sem vinnið í framlínustörfum undir miklu álagi. Og síðast en ekki síst: þið sem hafið misst vinnuna eða berjist í bökkum með eigin atvinnurekstur.

Ég vil að þið vitið að Samfylkingin stendur með ykkur. Okkur er ekki sama, við viljum að þeim sé hjálpað sem lenda verst í því á þessum erfiðum tímum. Samfylkingin er þannig flokkur: Við verðum alltaf að vera til staðar og standa okkur í stykkinu fyrir fólkið sem við þjónum: Því við erum Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Og ábyrgð okkar er mikil. 

Við saman, almennir félagar, kjörnir fulltrúar, forysta flokksins við berum sameiginlega ábyrgð á framgangi mikilvægustu stjórnmálastefnunnar; þeirrar stjórnmálastefnu sem hefur lagt grunninn að bestu og blómlegustu samfélögum í heiminum, nokkru sinni.

Og við viljum hafa jafnaðarstefnuna okkar eins og húsgögn í hæsta gæðaflokki: helst klassíska og norræna.

Þó stefnan sé í stöðugri þróun og þurfi að svara kalli tímans hverju sinni þá missum við ekki sjónar á kjarnanum. Við viljum bara það sem virkar, það sem við vitum að virkar: Og það eru gömlu góðu gildin, klassísk jafnaðarstefna fyrir alla Íslendinga, fyrir Ísland allt.

Kæru vinir.

Við munum sigrast á veirunni, fyrr en seinna. Og þar reiðum við okkur á vísindamenn, þríeykið góða og svo auðvitað starfsfólk og bakverði í heilbrigðiskerfinu sem hafa unnið algjört kraftaverk á undanförnum mánuðum.

En hlutverk okkar sem erum í stjórnmálum er líka mikilvægt við þessar aðstæður.

Því það er undir okkur komið að takast á við allt hitt: Að draga úr óbeinum áhrifum veirunnar og koma í veg fyrir óþarfa þjáningu fólks, að milda efnahagslega höggið eins og hægt er og dreifa byrðunum.

Og þar er erindi jafnaðarmanna skýrt, sem er númer eitt, tvö og þrjú: Samstaða. Raunveruleg samstaða. Að tryggja að við förum saman í gegnum þetta að við dreifum byrðunum og hlífum þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.

Já, kæru félagar ábyrgð okkar er mikil.

Á tímum sem þessum þegar faraldur geisar og fjöldaatvinnuleysi ógnar lífskjörum fólks -- þá getur almenningur á Íslandi reitt sig á leiðarljós okkar jafnaðarmanna: Okkar grunngildi um frelsi, jafnrétti og samstöðu.

Við vitum sem er að Ábyrga leiðin út úr þessari atvinnukreppu og til móts við grænni framtíð. Hún snýst um vinnu og velferð: Bæði, ekki annað hvort.

Og þegar við stöndum frammi fyrir alþjóðlegum áskorunum af algjörlega nýjum toga og áður óþekktri stærðargráðu, þá vitum við í Samfylkingunni að svarið er ekki hik, íhaldssemi og einangrunarhyggja. Heldur þvert á móti áræðni, framsækni og aukin alþjóðleg samvinna.

Á dögunum kynntum við í þingflokki Samfylkingarinnar efnahagsáætlun til næsta árs, Ábyrgu leiðina, sem snýst um að gera þrennt: Fjölga störfum, efla velferð og leggja grunn að nýjum stoðum undir íslenskt hagkerfi, undir útflutning og verðmætasköpun framtíðar með því að ráðast í metnaðarfulla græna uppbyggingu um land allt, græna atvinnubyltingu.

Ábyrga leiðin er skýr, útfærð áætlun sem fjölgar störfum um allt að sjö þúsund á árinu 2021 og minnkar þannig atvinnuleysi í landinu um þriðjung: Með beinum aðgerðum, átaki gegn undirmönnun í almannaþjónustu, með því að styrkja ráðningar en ekki uppsagnir, eins og ríkisstjórnin gerir og efla virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Aðalatriðið er að við þurfum að fjölga störfum strax, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Enda blasir við að versta atvinnukreppa á Íslandi frá upphafi mælinga er ekki rétti tíminn til að karpa um hlutfallslegt vægi hvors fyrir sig.

Við þurfum að fjölga störfum með öllum tiltækum ráðum. Með því til dæmis að létta skattbyrði af einyrkjum og smærri fyrirtækjum og lækka vinnuletjandi jaðarskatta á barnafólk og lífeyrisþega. Þannig sköpum við hvata til ráðningao og vinnu á sama tíma og við drögum úr fjárhagsvanda hjá barnafjölskyldum og leysum öryrkja og eldri borgara úr fátæktargildru.

Þarna kristallast líka munurinn á skattastefnu Samfylkingarinnar annars vegar og skattastefnu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar hins vegar, sem gerir lítið annað en blása upp tölurnar á bankabókum þeirra allra ríkustu. Á meðan við leggjum áherslu á atvinnuskapandi skattalækkanir og að jafna kjörin þá leggur ríkisstjórnin mesta áherslu á minnka álögur á stórútgerðina og boðar núna lækkun erfðafjárskatts og sérstaka vernd fyrir fjármagnseigendur gegn verðbólgu. Fyrstu skattalækkanir stjórnarinnar til að bregðast við COVID, það var annars vegar lækkun bankaskatts og hins vegar sérstök lækkun stimpilgjalds vegna kaupa á stórum skipum sem segir sína sögu.

Þetta er Ábyrga leiðin!

Við höfum sett fram okkar áætlun , okkar plan út úr þessari kreppu. En það undarlega er að enginn annar stjórnmálaflokkur hvorki í stjórn né í stjórnarandstöðu, hefur sett fram nokkuð þessu líkt. Hugsið ykkur, yfir tuttugu þúsund manns sem vilja vinna en fá ekki vinnu en samt er Samfylkingin eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur sett fram einhverja útfærða áætlun um það hvernig á að fjölga störfum og ná niður atvinnuleysi. Ótrúlegt, en samt staðreynd.

Ábyrga leiðin er vegvísir út úr atvinnukreppunni og fjallar um fyrstu skrefin í átt að grænni framtíð.

En kæru félagar, hvað svo?

Hvernig samfélag viljum við sjá eftir faraldurinn? Stóra verkefnið á næsta kjörtímabili verður að reisa Ísland við eftir veiruna og það verður að gerast á forsendum félagslegs réttlætis, ábyrgrar hagstjórnar og heilbrigðs vinnumarkaðar. Nú er uppi óvenjulegt undantekningarástand, þar sem nær allir eru nokkurn veginn sammála um nauðsyn þess að reiða fram stórkostlegar upphæðir úr ríkissjóði til að bjarga því sem bjargað verður. En stóru spurningarnar sem þarf að svara á komandi árum snúa að því hvernig byrðunum verður dreift, hvernig við náum niður hallanum á rekstri ríkissjóðs, hversu hratt og hvort við erum tilbúin að gera það sem þarf til að halda uppi öflugri almannaþjónustu fyrir fólkið í landinu.

Hvernig tryggjum við tækifæri þeirrar kynslóðar sem var að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði þegar veiran setti allt á hvolf? Hvernig náum við viðunandi árangri í loftslagsmálum?

Samfylkingin hefur skýr svör við öllum þessum spurningum en ríkisstjórnin hefur engin svör. Enda mynduð í miklum makindum, um pólitísk þægindi og ráðherrastóla, varðstöðu um úrelt kerfi og auðvelda útgjaldaaukningu.
En nú vandast hins vegar málið fyrir ríkisstjórnina þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir -þá er þetta ekki jafn þægilegt og áður. Þá þarf raunverulega pólitíska stefnu, forystu og framtíðarsýn.

Já, kæru vinir:

Það sem er Ísland fyrir bestu er að við myndum sterka félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar.

Og sterk Samfylking, sterkur jafnaðarmannaflokkur er, og verður áfram, algjör lykilforsenda þess að hægt verði að mynda slíka stjórn með skýra sýn í atvinnumálum, velferðarmálum og loftslagsmálum.

Og við verðum tilbúin um leið og kallið kemur þá verðum við tilbúin að taka við stjórnartaumunum og leiða slíka stjórn.

Undir þeim formerkjum göngum við, bjartsýn og ákveðin, til þingkosninga að ári.

Og vitiði til: Samfylkingin mun uppskera, Samfylkingin mun uppskera ríkulega.

En kæru félagar.

Við berum ekki bara ábyrgð á jafnaðarstefnunni. Samfylkingin hefur líka ákveðnu sögulegu hlutverki að gegna.

Hlutverk okkar er og verður alltaf að fylkja saman jafnaðarmönnum og öðrum umbótaöflum í samfélaginu til að vinna sigra fyrir íslenskan almenning. Brjóta á bak aftur klíkukerfi hinna fáu og umbylta þeim í þágu fjöldans.

Við uppfyllum þetta sögulega hlutverk best með því að leiða saman ólíka flokka í góðu samstarfi, ekki með yfirgangi og gamaldags frekjupólitík heldur með samvinnu og breiðum lausnum.

Við eigum góðar fyrirmyndir og höfum náð glæsilegum árangri á sveitarstjórnarstiginu, allt frá samvinnu og sigrum Reykjavíkurlistans og nú vítt og breitt um landið:

Á sveitarstjórnarstiginu er Samfylkingin í meirihlutastjórnum fyrir hönd fleiri Íslendinga en nokkur annar flokkur.

Staðan hjá stjórnarflokkunum er hins vegar ekki sérlega beysin þessa dagana: Vinum okkar í Vinstri grænum hefur mistekist að koma sínum málum í framkvæmd, því miður og það eru engin illindi í þessum orðum það er bara þannig að árangurinn er engan veginn ásættanlegur. Loftslagsmálin eru enn í lamasessi þrátt fyrir miklar yfirlýsingar, ríkisstjórnin rekur ójafnaðarstefnu í skattamálum og mannfjandsamlega stefnu í málefnum flóttafólks.

Framsóknarfólk sem skreytir sig gjarnan með félagshyggjufjöðrum þegar líður að kosningum -- er með laskaða sjálfsmyndin eftir nær samfellt 30 ára samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Það færi félögum okkar í Framsókn miklu betur að koma aftur heim inn á miðjuna og líta til vinstri! 

Sjálfstæðisflokkurinn er sundraður og klofinn sem er reyndar hætt að sæta tíðindum.

Þau íhaldssömustu ganga nú í Miðflokkinn, eitt af öðru og hörðustu markaðssinnarnir eru farnir í Viðreisn. Það eru engin prinsipp eftir bara varðstaða um þrönga sérhagsmuni. Millitekjufólk og smærri atvinnurekendur eiga enga málsvara þarna lengur hvað þá tekjulægstu hóparnir.

En höfum hugfast öll, bæði flokksfélagar og aðrir áheyrendur að stuðningur við Samfylkinguna er eina leiðin að ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki að vera með fingurna í fjármálum ríkisins. Okkar gildi, okkar stefna, okkar forysta er skýrasti valkosturinn fyrir þau sem vilja fara aðra leið.

En hvað er fleira á dagskrá.

 Af ýmsu eru að taka en mig langar að fara yfir nokkur vel valin mál.

Auðlindamálin eru eitt.

Við í Samfylkingunni viljum skýra þjóðareign tímabundinn nýtingarrétt og eðlilega gjaldheimtu. Það er okkur mikið hjartans mál.

Spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012 var einföld .

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign?“

Og svar þjóðarinnar var skýrt: 83 prósent sögðu já aðeins 17 prósent sögðu nei.

Það er erfitt að ímynda sér aðra hápólitíska spurningu sem gæti fengið eins afgerandi svar!

En æ síðan hafa íslensk stjórnvöld hunsað þennan skýra vilja þjóðarinnar. Og nú boðar forsætisráðherra frumvarp um auðlindaákvæði sem gengur allt of skammt, tímabundinn nýtingarréttur er ekki skilyrtur og þar er ekkert um eðlilega gjaldheimtu.

Samfylkingin mun aldrei samþykkja auðlindaákvæði sem virðist sérhannað fyrir stórútgerðina til að tryggja að ekkert breytist.
Samfylkingin muna aldrei samþykkja ákvæði sem eykur líkurnar á því að sameign þjóðarinnar verði áfram meðhöndluð sem séreign fárra.

Annað mál, sem hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu, er kjör þeirra Íslendinga sem geta ekki unnið fullt starf vegna örorku vegna veikinda, slysfara eða fötlunar.

Ár eftir ár hefur verið grafið undan almannatryggingakerfinu. Og nú er svo komið, eins og Öryrkjabandalagið bendir réttilega á, að örorkulífeyrir er ekki nema 3/4 af lægstu launum.

Er það sanngjörn sneið til öryrkja? Jafnaðarmenn vita svarið við þeirri spurningu: nei, það er ekki sanngjarnt. 

Þegar Samfylkingin settist fyrst í ríkisstjórn, árið 2007, var okkar fyrsta verk að hækka grunnbætur almannatrygginga upp að lágmarkslaunum. En síðan þá hefur dregið rækilega í sundur.

Stundum var Samfylkingin kölluð öryrkjaflokkur og það var sagt með fyrirlitningartóni.

En við erum stolt af því að standa með öryrkjum og öðrum hópum sem bera of lítið úr bítum.

Síðast en ekki síst vil ég leyfa mér að horfa lengra fram í tímann og víðar yfir sviðið. 

Þátttaka Íslands í alþjóðasamstarfi skiptir sköpum fyrir íslenskan almenning: Þaðan höfum við fengið mikilvægar kjarabætur og umbætur á samfélaginu.

Og það vitum við vel. Enda eigum við rætur í alþjóðahreyfingu jafnaðarmanna - og erum stolt af okkar sögu sem helstu talsmenn norrænnar samvinnu, Evrópusamstarfs og alþjóðatengsla hér á landi.

Hvert skref sem Ísland hefur stigið í aukinni alþjóðasamvinnu hefur styrkt okkur sem samfélag. Góð utanríkispólitík felur í sér mikil tækifæri til að auðga mannlíf, bæta lífshamingju og lífskjör í landinu.

Núverandi ríkisstjórn hefur enga heildstæða stefnu í utanríkismálum! Við þurfum grænni utanríkisstefnu: Land eins og Ísland á að vera í fararbroddi í aðgerðum gegn hamfarahlýnun á alþjóðavettvangi ekki hjáróma rödd. Við þurfum miklu sterkari hagsmunagæslu í Evrópumálum og mun meiri metnað og ástríðu þegar kemur að því að tala fyrir friði, öryggi og mannréttindum.

Hvað varð um jafnréttiskyndilinn í utanríkismálum sem okkar fólk hélt svo hátt á lofti? Hvar stendur forystufólk ríkisstjórnarinnar þegar þarf að takast á við popúlisma og aðför stjórnvalda að réttindum fólks hvort sem er í Póllandi, Hvítarússlandi já eða Bandaríkjunum? Af hverju heyrist ekki hærra í okkur?!

Áskoranir okkar tíma, hvort sem horft er til tæknibreytinga, hamfarahlýnunar, ófriðar og nú síðast heimsfaraldurs -- lúta engum landamærum! Og verða ekki leystar nema í nánu samstarfi þjóða.

Ísland er evrópsk þjóð, menningarrætur okkar liggja í Evrópu. Og Samfylkingin er Evrópuflokkur því við teljum að Íslandi farnist best í nánu samstarfi við Evrópu, - það hefur sagan sýnt okkur.

Við erum sannfærð um að til langs tíma sé pólitískum og efnahagslegum hagsmunum Íslendinga best borgið með aðild að Evrópusambandinu. Við viljum sæti við borðið þar sem ákvarðanir um okkar mikilvægustu mál eru teknar og geta átt viðskipti við önnur ríki í jafnri stöðu og að hér sé hægt að byggja upp fyrirtæki á grundvelli fyrirsjáanleika og almenningur þurfi ekki að taka á sig herkostnaðinn af krónu sem sveiflast.

Þegar heimsmálin eru í svona mikilli óvissu og upplausn þá verðum við að leggjast á eitt með okkar nánustu vinaþjóðum á Norðurlöndunum og í Evrópu. Þjóðir, sem eiga dýrmæt gildi, menningu og markmið sameiginleg, verða að snúa bökum saman og vera sameinað afl á alþjóðavettvangi.

Í augnablikinu þá verðum við að sækja betur tækifærin sem felast í samstarfi okkar innan EES. Andúð ríkisstjórnarflokkanna á Evrópusambandinu stendur í vegi fyrir fullu aðgengi ungs fólks að rannsóknum og nýsköpun og fyrirtækja að fjármagni og styrkjum. Við eigum að sækja í kraftinn í alþjóðasamstarfi og skapa tækifærin fyrir alla Íslendinga til að hér verði hægt að taka ný skref til aukinnar Evrópusamvinnu, skapa aukin verðmæti og tryggja öflugt velferðarsamfélag.

Kæru jafnaðarmenn.

Þetta eru erfiðir tímar fyrir marga. En munum að það verður aftur líf án veirunnar að loknum þessum faraldri við sigrumst á kvikindinu og skulum þakka þeim sem leggja mest af mörkum í baráttunni.

Hugsum til allra þeirra sem er hjálpar þurfi. Höldum fókus og stöndum okkur í stykkinu.

Það er til mikils að vinna að Samfylkingin sigri í næstu kosningum svo hægt verði að mynda sterka græna félagshyggjustjórn í kjölfarið sem reisir Ísland upp úr veirukreppunni á réttum forsendum: Þar sem við byggjum á félagslegu réttlæti, ábyrgri hagstjórn og heilbrigðum vinnumarkaði og ráðumst á sama tíma í græna uppbyggingu um land allt.

Kæru vinir,

Nú stöndum við saman ,fylkjum liði og verðum til þjónustu reiðubúin um leið og kallið kemur. Því Samfylkingin er sá flokkur sem er best til þess fallinn að leiða nýja græna lífskjarasókn fyrir almenning í landinu.