15.750

Logi, Landsfundur 2018
Logi Einarsson Þingflokksformaður

Sem betur fer hafa lífsgæði okkar batnað og lífslíkur fólks hækka með hverju ári. Aldrað fólk heldur heilsunni sífellt betur langt fram eftir aldri og hefur góða möguleika á að lifa innihalds- og viðburðarríkt ævikvöld.

Eitt meginverkefni stjórnvalda er að sjá til þess að hér sé gott að eldast – að allt eldra fólk á Íslandi búi við sómasamleg lífskjör, hafi val um atvinnuþátttöku, fái notið hágæða heilbrigðisþjónustu, geti sótt sér fræðslu, notið innihaldsríkra tómstunda ásamt samvista með vinum og fjölskyldu. Stærsta og umtalaðasta hagsmunamál eldri borgara er þar af leiðandi sómasamlegar ellilífeyrisgreiðslur.

Sem betur fer hefur stór hluti eldri borgara á Íslandi það gott – en allt of stór hópur hefur það alls ekki. Um 9.000 eldri borgarar búa við fátækt en stór hluti þeirra var áður á örorku, er á leigumarkaði eða einstaklingar sem eiga ekki sterkt bakland.

Stjórnvöld síðustu ára hafa látið undir höfuð leggjast að styrkja stöðu þessa hópa. Ellilífeyrisgreiðslur hafa ekki fylgt launaþróun og eldri borgarar hafa horft á tekjur sínar dragast aftur úr launafólki ár frá ári. Stefna sem leyfir kjörum eldri borgara að dragast aftur úr launaþróun lægstu launa jaðarsetur þá. Þeir hafa hvorki samningsrétt né verkfallsrétt og þurfa því að treysta á að Alþingi tryggi þeim mannsæmandi kjör. En samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar breikkar bilið áfram og það er óboðlegt.

Landsamband Eldri borgara hefur sett fram þá skýlausu kröfu að elllilífeyrir hækki um 15.750 krónur vegna ársins 2021, rétt eins og samið var um í Lífskjarasamningunum. Þingmenn Samfylkingarinnar munu sýna þeirri hófsömu kröfu stuðning í verki á Alþingi með breytingartillögu við fjárlög síðar í dag.

Þingmenn úr öllum flokkum fá þannig tækifæri til að standa með eldri borgarum landsins og bæta stöðu þeirra frá og með 1. janúar.

Greinin birtist á frettabladid.is 18. desember.