Aðgerðir verða að fylgja orðum

Rósa Björk

Fyrir nokkrum dögum upp­færðu íslensk stjórn­völd mark­mið sín um sam­drátt í losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda og stefna nú að 55% minni losun árið 2030 miðað við 1990 en ekki um 40% sam­drátt í losun eins og búið er að vera mark­miðið und­an­farin ár. 

Rósa Björk,
Rósa Björk Brynjólfsdóttir Þingmaður

Þetta er gott og mjög nauð­syn­legt skref. 

En. Þetta eru ekki sér­stök mark­mið rík­is­stjórnar Íslands, heldur afrakstur sam­tals Íslands, ESB og Nor­egs og er því ekki sér­stök ákvörðun Íslands, heldur hluti af sam­komu­lagi í takt við mark­mið fram­kvæmda­stjórnar ESB sem nær bara að hafa mark­miðið í 55% til að halda öllum ríkjum innan ESB góð­um. Ríkjum á borð við Pól­land. Þetta er því ekki í takt við kröf­ur  Evr­ópu­þings­ins, sem vill draga úr losun árið 2030 um 60%. 

Ísland nær því hvorki að fylgja mark­miðum Evr­ópu­þings­ins, né toppa fram­kvæmda­stjórn ESB, eins og mörg önnur Evr­ópu­ríki hafa gert með því að kynna metn­að­ar­fyllri mark­mið en fram­kvæmda­stjórn ESB ákvað. Dæmi um þetta er Bret­land, sem undir for­ystu Boris John­son, stefnir á 68% sam­drátt. Sví­þjóð hefur sett stefn­una á 63% sam­drátt og Dan­mörk er með 70% mark­mið miðað við 1990. 

Íslensk yfir­völd eru því miður of svifa­sein og fylgja lág­marks­mark­miðum 28 ríkja ESB, sem sum hver eru mun „grárri" ríki en Ísland sem hefur gríð­ar­lega mikið sam­keppn­is­for­skot á önnur lönd með allar sínar hreinu orku­auð­lind­ir. 

Engin skýr mynd um upp­færðar aðgerðir

Og enn á eftir að kynna aðgerðir Íslands og útfæra þær til að ná þessu nýja mark­miði, því ef við ætlum okkur að ná þessum upp­færðu við­miðum þarf að kynna og útfæra nýjar aðgerð­ir. Alveg eins og það á eftir að útfæra nákvæm­lega tíma – og mark­miðs­setn­ingar á mörgum aðgerðum í núver­andi aðgerða­á­ætlun stjórn­valda í loft­lags­mál­u­m. 

Það er ekki góður sam­an­burður fyrir Ísland að ESB með 27 ríki inn­an­borðs, nái samt að gera útli­staða aðgerða­á­ætlun með sínu „Green Deal" plani en ekki íslensk stjórn­völd. 

Það voru því von­brigði að heyra svar for­sæt­is­ráð­herra í síð­ustu viku þegar ég spurði hana í þing­sal Alþingis hvenær eigi að upp­færa núver­andi aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­mál­um, hvaða aðgerðum verður bætt við núver­andi aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­málum og hvort tíma­sett mark­mið verði í þeirri upp­færðu aðgerða­á­ætl­un. Svörin voru því miður afskap­lega rýr: „Við þurfum að efla þessar aðgerðir” og að „…ífjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar næsta vor muni sjást þess merki…” og „(þá) vænt­an­lega orðið ljóst hvaða aðgerðir við viljum efla og hverju við viljum flýta“.  

Og það er ekki nóg að áformin um aðgerðir í takt við upp­færð mark­mið Íslands séu mjög óljós um að eitt­hvað ger­ist ein­hvern tíma í vor, heldur vill for­sæt­is­ráð­herra og rík­is­stjórnin alls ekki taka undir áskorun Ant­onio Guterres, aðal­fram­kvæmda­stjóra S.Þ. frá 12. des­em­ber sl. um að öll ríki heims lýsi yfir neyð­ar­á­standi í loft­lags­málum þar til kolefn­is­hlut­leysi næst. Jafn­vel þó að 38 ríki heims hafi lýst yfir neyð­ar­á­standi og hund­ruð borga og sveit­ar­fé­lag víða um heim. Ástæðan ? Jú, orðum verða að fylgja aðgerðir segir for­sæt­is­ráð­herra.

Nauð­syn­legar aðgerðir til að ná upp­færðum mark­mið­um 

Til að mynda þarf að: 

  • úti­loka jarð­efna­elds­neyti og notkun þess í raun­hæfum áföngum
  • koma á heild­stæðu og stig­hækk­andi gjaldi á alla losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda, binda skýr mark­mið um sam­drátt los­unar í lög
  • sam­hæfa ALLAR opin­berar áætl­anir rík­is­ins þannig að þær stuðli að minni losun og bind­ingu gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á Ísland­i. 
  • að lög­bundin mark­mið og aðgerðir verði sett á atvinnu­greinar lands­ins
  • að fjár­munum veðri aukið til muna til þess að takast almenni­lega á við loft­lags­vand­ann sem er okkar stærsti vandi og fram­tíð­ar­kyn­slóða. Það þýðir líka að efna­hags­leg við­spyrna út úr Covid-19 krepp­unni þarf að vera raun­veru­lega umhverf­is­væn og vinna raun­veru­lega gegn lofts­lags­breyt­ingum um leið. 

Það er nefni­lega svo að orðum verða að fylgja gjörð­ir.

Greinin birtist fyrst Kjarnanum 18. des. 2020